Jón Jónatansson

Jón Jónatansson

Þingseta

Alþingismaður Árnesinga 1911–1913 (utan flokka, Bændaflokkurinn eldri).

Æviágrip

Fæddur að Litlu-Þúfu í Miklaholtshreppi 14. maí 1874, dáinn 25. ágúst 1925. Foreldrar: Jónatan Þorleifsson (fæddur 9. nóvember 1834, dáinn 2. janúar 1905) vinnumaður þar og kona hans Anna Filippía Jónsdóttir (fædd 3. maí 1850, dáin 24. júlí 1882) húsmóðir. Tengdafaðir Bjarna Bjarnasonar alþingismanns. Maki (4. nóvember 1904): Kristjana Benediktsdóttir (fædd 31. maí 1877, dáin 1. júlí 1954) rjómabústýra og húsmóðir. Foreldrar: Benedikt Bjarnason og kona hans Borghildur Ingibjörg Sigurðardóttir. Börn: Anna (1906), Bjarni (1907), Sólveig (1909), Benedikt (1910), Borghildur (1912), Hulda (1914), Kristján Ragnar (1915), Hulda (1917), Sverrir (1920).

Búfræðipróf Ólafsdal 1896. Við búfræðinám á Jaðri í Noregi 1899–1901. Dvaldist um skeið í Danmörku við frekara nám í landmælingum og landskiptareglum.

Vann að jarðyrkju á Vestfjörðum og sunnanlands, mælingum á landi Reykjavíkur 1896–1899 og gerði kort af bænum. Bústjóri í Brautarholti á Kjalarnesi 1901–1908 hjá Sturlu Jónssyni kaupmanni. Bóndi á Ásgautsstöðum í Flóa 1909–1918, jafnframt ráðunautur Búnaðarsambands Suðurlands og kenndi bændum plægingar og notkun sláttuvéla. Verkstjóri hjá Landsverslun í Reykjavík frá 1918 til æviloka.

Sat á Búnaðarþingi 1907 og 1911–1917. Fór til Svíþjóðar 1908 til þess að fá sláttuvélar lagaðar eftir íslensku landi. Kjörinn í stjórn Búnaðarsambands Suðurlands 1908. Skip. 1914 í milliþinganefnd í launamálum. Ritari Verkstjórafélags Reykjavíkur 1919–1921 og 1924–1925. Í stjórn Alþýðusambands Íslands 1922–1924.

Alþingismaður Árnesinga 1911–1913 (utan flokka, Bændaflokkurinn eldri).

Ritstjóri: Suðurland (1911–1915).

Æviágripi síðast breytt 29. janúar 2016.