Jón Sigurðsson

Jón Sigurðsson

Þingseta

Alþingismaður Suður-Þingeyinga 1858–1874 og 1880–1885, alþingismaður Þingeyinga 1874–1880, alþingismaður Eyfirðinga 1886–1889.

Forseti neðri deildar 1879–1883 og 1886–1887. Varaforseti neðri deildar 1875–1877.

    Þingstörf

    Æviágrip

    Fæddur á Gautlöndum í Mývatnssveit 11. maí 1828, dáinn 26. júní 1889 í Bakkaseli í Öxnadal á leið til þings. Foreldrar: Sigurður Jónsson (fæddur um 1764, dáinn 13. ágúst 1843) bóndi á Gautlöndum og 3. kona hans Kristjana Aradóttir (fædd 13. janúar 1794, dáin 31. desember 1851) húsmóðir. Faðir Péturs og Kristjáns alþingismanna og ráðherra og Steingríms Jónssonar alþingismanns, afi Haralds Guðmundssonar alþingismanns og ráðherra og Steingríms Steinþórssonar alþingismanns og ráðherra, langafi Jóns Sigurðssonar alþingismanns og ráðherra og Málmfríðar Sigurðardóttur alþingismanns og langalangafi Hjálmars Jónssonar alþingismanns. Maki (14. júní 1848): Solveig Jónsdóttir (fædd 16. september 1828, dáin 17. ágúst 1889) húsmóðir. Foreldrar: Jón Þorsteinsson og kona hans Þuríður Hallgrímsdóttir. Börn: Sigurður (1849), Kristján (1852), Jón (1854), Kristjana (1856), Pétur (1858), Jón (1861), Þuríður (1863), Rebekka (1865), Steingrímur (1867), Þorlákur (1870), Kristjana (1870). Dóttir Jóns og Sigríðar Jónsdóttur: Sigrún (1870). Dóttir Jóns og Guðrúnar Einarsdóttur: Sigríður (1886).

    Tók við búsforráðum á Gautlöndum með móður sinni eftir lát föður síns, bóndi þar frá 1848 til æviloka. Umboðsmaður Norðursýslu- og Reykjadalsjarða frá 1885 til æviloka.

    Hreppstjóri í Skútustaðahreppi 1857–1861 og 1864–1872, síðan oddviti hreppsins til æviloka. Sýslunefndarmaður um langt skeið. Settur sýslumaður 1861 og 1868 og gegndi embættinu nær árlangt í bæði skipti, tók oft að sér málflutning fyrir rétti. Átti sæti í landbúnaðarlaganefndinni 1870–1876. Skipaður 1875 í nefnd til að yfirvega skattamál Íslands og semja uppástungur til nýrra skattalaga.

    Alþingismaður Suður-Þingeyinga 1858–1874 og 1880–1885, alþingismaður Þingeyinga 1874–1880, alþingismaður Eyfirðinga 1886–1889.

    Forseti neðri deildar 1879–1883 og 1886–1887. Varaforseti neðri deildar 1875–1877.

    Æviágripi síðast breytt 5. febrúar 2016.

    Áskriftir