Jónas Guðmundsson

Jónas Guðmundsson

Þingseta

Landskjörinn alþingismaður (Suður-Múlasýslu) 1934–1937 (Alþýðuflokkur).

Minningarorð

Æviágrip

Fæddur á Skálanesgrund við Seyðisfjörð 11. júní 1898, dáinn 4. júlí 1973. Foreldrar: Guðmundur Jónasson (fæddur 30. júlí 1865, dáinn 22. febrúar 1935) bóndi og útgerðarmaður í Brimneshjáleigu við Seyðisfjörð og kona hans Valgerður Hannesdóttir (fædd 23. júlí 1865, dáin 8. apríl 1935) húsmóðir. Maki (20. maí 1924): Sigríður Lúðvíksdóttir (fædd 7. nóvember 1903, dáin 1. maí 1991) húsmóðir. Foreldrar: Lúðvík Sigurður Sigurðsson og kona hans Ingibjörg Þorláksdóttir. Dætur: Ingibjörg (1932), Guðný (1944).

Kennarapróf KÍ 1920. Framhaldsnám við kennaraháskólann í Kaupmannahöfn september–desember 1920. Íþróttanámskeið í Reykjavík 1922.

Kennari (í forföllum) við Bændaskólann á Hvanneyri 1921. Kennari við barnaskólann á Norðfirði 1921–1933, við unglingaskólann þar 1923–1933. Framkvæmdastjóri Fóðurmjölsverksmiðju Norðfjarðar 1933–1938 og Togarafélags Neskaupstaðar 1936–1937. Framkvæmdastjóri Alþýðuflokksins 1938–1939. Eftirlitsmaður sveitarstjórnarmálefna 1939–1953. Skipaður 17. september 1946 skrifstofustjóri félagsmálaráðuneytisins, lausn 1. febrúar 1953 að eigin ósk. Framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga 1945–1967. Forstjóri Bjargráðasjóðs Íslands 1952–1967.

Oddviti Neshrepps í Norðfirði 1925–1928. Bæjarfulltrúi í Neskaupstað 1929–1938, forseti bæjarstjórnar 1936–1938. Formaður Verkalýðsfélags Norðfjarðar 1924–1928 og 1929–1937. Í stjórn Alþýðusambands Íslands 1930–1942. Formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga 1945–1967. Stofnaði áfengisvarnafélagið Bláa bandið 1955 og var formaður þess til 1973 og formaður stjórnar vistheimilisins í Víðinesi 1963–1973. Sat í landsbankanefnd 1934–1938, í bankaráði Landsbankans 1938–1946, í milliþinganefnd um alþýðutryggingar og framfærslumál 1934–1935, í stjórn markaðs- og verðjöfnunarsjóðs 1935–1936. Skipaður 1945 í stjórnarskrárnefnd og í nefnd til þess að endurskoða löggjöf um skipulag kauptúna og sjávarþorpa. Í stjórn Bjargráðasjóðs 1946–1967, formaður 1946–1953. Skipaður 1946 í nefnd til endurskoðunar á framfærslulögum, lögum um afstöðu foreldra til óskilgetinna barna, lögum um ríkisframfærslu sjúkra manna og örkumla o. fl., lögum til samræmingar ákvæðum almannatryggingalaga. Skipaður 1947 í nefnd til að rannsaka kostnað við rekstur ríkis og ríkisstofnana og gera tillögur um sparnað í opinberum rekstri. Fulltrúi Íslands á þingum Alþjóðavinnumálasambandsins (ILO) 1947–1952, í norrænu félagsmálanefndinni 1951–1953, í fátækra- og heilbrigðisnefnd Evrópuráðsins 1951–1954 og í nefnd Evrópuráðsins um félagslegt öryggi 1951–1954. Fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga á þingum Alþjóðasambands sveitarfélaga (IULA) og sveitarstjórnarþingum Evrópuráðsins 1956–1965. Skipaður 1951 í nefnd til að semja frumvarp til laga um almenna húsaleigulöggjöf, 1959 í nefnd til endurskoðunar á lagaákvæðum og stjórnarákvörðunum um aðsetur ríkisstofnana og embættismanna og í nefnd til að endurskoða lög um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra, 1960 í nefnd til að semja lög um tekjustofna sveitarfélaga, 1964 í nefnd til að rannsaka og gera tillögur um á hvern hátt rekstrar- og stofnlánaþörf sveitarfélaganna verði best leyst og 1966 í nefnd til að endurskoða skiptingu landsins í sveitarfélög. Í stjórn Lánasjóðs sveitarfélaga 1966–1970.

Landskjörinn alþingismaður (Suður-Múlasýslu) 1934–1937 (Alþýðuflokkur).

Samdi rit um þjóðfélagsmál, sveitarstjórnarmál, dulspeki, áfengisvarnir o. fl.

Ritstjóri: Unga Ísland (1919–1920). Jafnaðarmaðurinn (1926–1934). Alþýðublaðið (1939). Sveitarstjórnarmál (1941–1948 og 1953–1964). Dagrenning (1946–1958).

Æviágripi síðast breytt 9. febrúar 2016.

Áskriftir