Kristján Kristjánsson

Kristján Kristjánsson

Þingseta

Konungkjörinn alþingismaður 1849. Þjóðfundarmaður Reykvíkinga 1851.

Aðstoðarmaður konungsfulltrúa á Alþingi 1847. Varaforseti Þjóðfundarins 1851.

    Þingstörf

    Æviágrip

    Fæddur á Þórðarstöðum í Fnjóskadal 21. september 1806, dáinn 13. maí 1882. Foreldrar: Kristján Jónsson (fæddur um 1771, dáinn 1. janúar 1844) bóndi á Illugastöðum í Fnjóskadal og kona hans Guðrún Halldórsdóttir (fædd um 1776, dáin 24. ágúst 1846) húsmóðir. Bróðir Benedikts alþingismanns og Jóns alþingismanns Kristjánssona. Maki (5. júní 1845): Ragnheiður Jónsdóttir Thorstensen (fædd 22. nóvember 1824, dáin 14. febrúar 1897) húsmóðir. Foreldrar: Jón Thorstensen alþingismaður og kona hans Elín Stefánsdóttir, fædd Stephensen.

    Stúdentspróf Bessastöðum 1826. Lögfræðipróf Hafnarháskóla 1838.

    Skrifari 1826–1830 á Möðruvöllum hjá Grími Jónssyni amtmanni. Starfsmaður í rentukammerinu 1833–1840. Skrifari embættismannanefndarinnar í Reykjavík 1841. Málaflutningsmaður í Reykjavík 1841–1843. Settur land- og bæjarfógeti í Reykjavík 1843–1844. Sýslumaður í Skaftafellssýslu 1844–1848, sat á Höfðabrekku. Varð 1847 jafnframt umboðsmaður Kirkjubæjar- og Þykkvabæjarklaustursjarða. Skipaður 1848 dómsmálaritari og 2. yfirdómari í landsyfirréttinum, en tók ekki við því embætti fyrr en næsta sumar. Skipaður 10. júlí 1849 land- og bæjarfógeti í Reykjavík, en gegndi jafnframt áfram embætti yfirdómara þangað til Jón Pétursson tók við því sumarið 1850. Vikið frá embætti 28. september 1851 vegna framkomu sinnar á Þjóðfundinum, en gegndi því þó fram í marsmánuð 1852. Fór þá utan og varð fulltrúi í hinni íslensku stjórnardeild í Kaupmannahöfn. Skipaður 1854 sýslumaður í Skagafjarðarsýslu, sat í Hofstaðaseli. Skipaður 1860 sýslumaður í Húnavatnssýslu, sat á Geitaskarði. Skipaður 1871 amtmaður í norður- og austuramtinu, lausn 1881, sat á Möðruvöllum í Hörgárdal til 1874, er amtmannsstofan þar brann, en síðan á Akureyri.

    Konungkjörinn alþingismaður 1849. Þjóðfundarmaður Reykvíkinga 1851.

    Aðstoðarmaður konungsfulltrúa á Alþingi 1847. Varaforseti Þjóðfundarins 1851.

    Æviágripi síðast breytt 24. febrúar 2016.

    Áskriftir