Lárus Halldórsson

Lárus Halldórsson

Þingseta

Alþingismaður Suður-Múlasýslu 1886–1892 (sat ekki þing 1889).

  Þingstörf

  Æviágrip

  Fæddur á Hofi í Vopnafirði 10. janúar 1851, dáinn 24. júní 1908. Foreldrar: Halldór Jónsson (fæddur 25. febrúar 1810, dáinn 17. júlí 1881) alþingismaður og 1. kona hans Gunnþórunn Gunnlaugsdóttir (fædd 9. maí 1824, dáin 12. ágúst 1856) húsmóðir. Faðir Guðrúnar Lárusdóttur alþingismanns, tengdafaðir Þorsteins Briems alþingismanns og ráðherra. Maki (6. maí 1876): Kirstín Katrín Pétursdóttir Guðjohnsen (fædd 6. maí 1850, dáin 28. september 1940) húsmóðir. Foreldrar: Pétur Guðjohnsen alþingismaður og kona hans Guðrún Sigríður Lauritzdóttir Guðjohnsen, fædd Knudsen. Börn: Sigríður (1877), Halldór (1878), Guðrún (1880), Halldór (1881), Pétur (1882), Valgerður (1885), Gunnþórunn (1890).

  Stúdentspróf Lsk. 1870. Guðfræðipróf Prestaskólanum 1873.

  Stundakennari í kristnum fræðum við Lærða skólann í Reykjavík veturinn 1873–1874. Biskupsritari 1874–1877. Fékk Valþjófsstað 1877, leystur frá embætti 28. júní 1883 vegna þess að hann tók upp breytingar í kirkjusiðum. Prófastur í Norður-Múlaprófastsdæmi 1878–1883. Prestur Fríkirkjusafnaðarins í Reyðarfirði 1885–1899, sat á Grund í Eskifirði 1884–1888, síðan á Kollaleiru. Prestur Fríkirkjusafnaðarins í Reykjavík 1899–1903. Settur kennari við Lærða skólann 1904. Eftir að hann kom til Reykjavíkur stýrði hann, lengstum með öðrum, Aldarprentsmiðju, en seldi prentverkið 1907.

  Sýslunefndarmaður í Norður-Múlasýslu 1878–1884. Yfirskoðunarmaður landsreikninganna 1902–1903.

  Alþingismaður Suður-Múlasýslu 1886–1892 (sat ekki þing 1889).

  Ritstjóri: Fríkirkjan (1899–1902).

  Æviágripi síðast breytt 25. febrúar 2016.