Pétur Benediktsson

Pétur Benediktsson

Þingseta

Alþingismaður Reyknesinga 1967–1969 (Sjálfstæðisflokkur).

Minningarorð
Raddsýnishorn

Æviágrip

Fæddur í Reykjavík 8. desember 1906, dáinn 29. júní 1969. Foreldrar: Benedikt Sveinsson (fæddur 2. des. 1877, dáinn 18. nóvember 1954) alþingismaður og kona hans Guðrún Pétursdóttir (fædd 9. nóvember 1878, dáin 23. nóvember 1963) húsmóðir, hálfsystir móður Ragnhildar Helgadóttur alþingismanns og ráðherra. Bróðir Bjarna Benediktssonar alþingismanns og ráðherra, föðurbróðir Björns Bjarnasonar alþingismanns og ráðherra og Valgerðar Bjarnadóttur alþingismanns, móðurbróðir Halldórs Blöndals alþingismanns og ráðherra og tengdafaðir Ólafs Hannibalssonar varaþingmanns. Maki 1 (22. desember 1933): Guðrún Eggertsdóttir Briem (fædd 13. maí 1914, dáin 5. júní 1981) húsmóðir. Þau skildu. Foreldrar: Eggert Briem, sonur Eiríks Briems alþingismanns, og kona hans Katrín Pétursdóttir Briem, fædd Thorsteinsson. Maki 2 (9. janúar 1946): Marta Ólafsdóttir Thors (fædd 28. mars 1918, dáin 20. desember 1998) tónlistarfulltrúi hjá Ríkisútvarpinu. Foreldrar: Ólafur Thors alþingismaður og ráðherra og kona hans Ingibjörg Indriðadóttir Thors, dóttir Indriða Einarssonar alþingismanns. Dóttir Péturs og Guðrúnar: Ragnhildur (1937). Dætur Péturs og Mörtu: Ólöf (1948), Guðrún (1950).

Stúdentspróf MR 1925. Lögfræðipróf HÍ 1930. Nám í Grenoble og Toulouse í Frakklandi 1936–1937.

Ritari í utanríkisráðuneyti Dana í Kaupmannahöfn 1930–1936. Sendiráðsritari við sendiráð Dana á Spáni 1936–1939 og við sendiráð Dana í Bretlandi 1939–1940. Fulltrúi íslensku viðskiptanefndarinnar í Lundúnum í febrúar 1940. Sendifulltrúi fyrir Ísland í Bretlandi 27. apríl 1940 og síðar á sama ári sendifulltrúi hjá norsku ríkisstjórninni í Lundúnum. Sendiherra í Bretlandi 1941–1944, jafnframt sendiherra hjá norsku ríkisstjórninni þar. Skipaður sendiherra í Sovétríkjunum 1944, jafnframt sendiherra í Frakklandi, Póllandi, Belgíu og Tékkóslóvakíu 1946, á Ítalíu 1947, í Sviss, Spáni og Portúgal 1949 og á Írlandi 1951. Hafði aðsetur í Moskvu 1944–1947, í París 1947–1956, er hann fékk lausn að eigin ósk. Fulltrúi Íslands í Efnahagssamvinnustofnun Evrópu (OEEC) frá upphafi 1948–1956. Fulltrúi á ráðherrafundum NATO og ýmsum fundum Evrópuráðsins til 1956. Bankastjóri Landsbanka Íslands frá 1956 til æviloka.

Átti sæti í bankaráði Alþjóðabankans í Washington 1956–1965. Formaður Samtaka um vestræna samvinnu frá stofnun þeirra 1958–1965. Formaður Stúdentafélags Reykjavíkur 1959–1960. Í stjórn Hins íslenska fornritafélags frá 1959 til æviloka, formaður síðustu árin. Í fiskmatsráði frá stofnun þess 1960. Í fríverslunarnefnd til athugunar á markaðsmálum í Evrópu 1961–1963. Í stjórn Sölusambands íslenskra fiskframleiðenda frá 1962 til æviloka.

Alþingismaður Reyknesinga 1967–1969 (Sjálfstæðisflokkur).

Æviágripi síðast breytt 20. apríl 2020.

Áskriftir