Sigríður Dúna Kristmundsdóttir

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir

Þingseta

Alþingismaður Reykvíkinga 1983–1987 (Samtök um kvennalista).

Formaður þingflokks Samtaka um kvennalista 1985–1986.

Raddsýnishorn

Æviágrip

Fædd í Reykjavík 13. ágúst 1952. Foreldrar: Kristmundur E. Jónsson (fæddur 27. mars 1929) verslunarmaður þar og kona hans Sigríður Júlíusdóttir (fædd 3. desember 1930) húsmóðir. Maki 1 (18. ágúst 1977): Hjálmar Helgi Ragnarsson (fæddur 23. september 1952) tónskáld og kennari. Þau skildu. Foreldrar: Ragnar H. Ragnar og kona hans Sigríður Jónsdóttir Ragnar, sonardóttir Péturs Jónssonar alþingismanns og ráðherra. Maki 2 (4. ágúst 1990): Friðrik Sophusson (fæddur 18. október 1943) alþingismaður og ráðherra. Foreldrar: Sophus Guðmundsson og kona hans Áslaug Friðriksdóttir. Sonur Sigríðar og Hjálmars: Ragnar (1978). Dóttir Sigríðar og Friðriks: Sigríður Fransiska (1994).

Stúdentspróf MR 1972. B.Sc.-próf í mannfræði við London School of Economics and Political Science 1975. Nám í mannfræði við L'Universite de Paris VII 1976–1977 og við University of Rochester, New York, 1977–1979, MA-próf og Ph.D.-próf (fyrri hluti) þaðan í árslok 1979 og Ph.D.-próf frá sama skóla 1990.

Kennari við Menntaskólann og Iðnskólann á Ísafirði 1975–1976. Stundakennari í mannfræði við félagsvísindadeild Háskóla Íslands 1980–1983 og 1988–1989. Sjálfstæð rannsóknastörf 1987–1990. Lektor við Háskóla Íslands 1990–1994, dósent 1994–2000, prófessor síðan 2000.

Kosin 1984 í samstarfsnefnd með Færeyingum og Grænlendingum um sameiginleg hagsmunamál. Í Vestnorræna þingmannaráðinu 1985–1986. Í stjórn Kjarvalsstaða 1982–1986. Í stjórnarskrárnefnd 1985–1992. Í stjórn Grænlandssjóðs 1987–1990. Í stjórn Þróunarsamvinnustofnunar Íslands 1989–1993. Í úthlutunarnefnd Kvikmyndasjóðs Íslands 1989–1991. Í stjórn Mannfræðistofnunar Háskóla Íslands frá 1989 og formaður kynningarnefndar Háskóla Íslands 1991–1993. Formaður úthlutunarnefndar Íslensku bókmenntaverðlaunanna 1991. Í sérfræðinganefnd Ráðherranefndar Norðurlanda um umhverfisrannsóknir í félagsvísindum síðan 1991. Í ráðgjafanefnd framkvæmdastjóra UNESCO um málefni kvenna síðan 1994.

Alþingismaður Reykvíkinga 1983–1987 (Samtök um kvennalista).

Formaður þingflokks Samtaka um kvennalista 1985–1986.

Hefur birt fjölda greina á sviði mannfræði og þjóðfélagsmála.

Ritstjóri: NORA, Nordic Journal of Women's Studies (1991–1995).

Æviágripi síðast breytt 18. mars 2020.

Áskriftir