Bergur Sigurbjörnsson

Bergur Sigurbjörnsson

Þingseta

Landskjörinn alþingismaður (Reykvíkinga) 1953–1956 (Þjóðvarnarflokkurinn).

Varaþingmaður Reykvíkinga apríl 1964 og maí 1965 (Alþýðubandalag).

Minningarorð
Raddsýnishorn

Æviágrip

Fæddur í Heiðarhöfn á Langanesi 20. maí 1917, dáinn 28. júlí 2005. Foreldrar: Sigurbjörn Ólason (fæddur 30. apríl 1889, dáinn 15. febrúar 1964) síðar bóndi í Staðarseli á Langanesi, föðurbróðir Jóhönnu Þorsteinsdóttur varaþingmanns, og kona hans Guðný Soffía Hallsdóttir (fædd 25. ágúst 1896, dáin 24. ágúst 1925) húsmóðir. Maki 1 (3. júní 1944): Hjördís Pétursdóttir (fædd 16. október 1919, dáin 1. ágúst 1971) húsmóðir. Foreldrar: Pétur Þ. J. Gunnarsson og kona hans Svanfríður Hjartardóttir. Maki 2 (26. desember 1979): Arnljót Jóhanna Eysteinsdóttir (fædd 12. febrúar 1950) bókasafnsfræðingur. Foreldrar: Eysteinn Bjarnason, sonur Bjarna Jónssonar frá Vogi alþingismanns, og Margrét Hemmert, dótturdóttir Arnljóts Ólafssonar alþingismanns. Börn Bergs og Hjördísar: Hjördís Guðný (1945), Fríða (1948), Björn (1949), Þórunn Guðlaug (1957). Börn Bergs og Arnljótar: Arnljótur Bjarki (1977), Sigrún Dóra (1981).

Stúdentspróf MA 1939. Viðskiptafræðipróf HÍ 1943. Nam við Stokkhólmsháskóla 1946–1948.

Skrifstofustörf hjá Landsbanka Íslands 1941 og hjá Olíuverslun Íslands 1942–1946. Hagfræðistörf hjá fjárhagsráði 1948–1954. Kennari í stærðfræði við Kvennaskólann í Reykjavík 1954–1956. Við hagfræðileg einkastörf 1956–1961, m. a. í þágu Stéttarsambands bænda. Starfsmaður hjá Útvegsbankanum 1961–1965. Framkvæmdastjóri Kjararannsóknarnefndar 1965–1968. Framkvæmdastjóri Sambands sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi 1968–1971 og aftur 1975–1982, sat á Egilsstöðum. Framkvæmdastjóri Framkvæmdastofnunar ríkisins í Reykjavík 1972–1974.

Kosinn 1956 í milliliðagróðanefnd. Skipaður 1971 í nefnd til að semja frumvarp um Framkvæmdastofnun ríkisins. Kosinn 13. febrúar 1973 í stjórn Viðlagasjóðs.

Landskjörinn alþingismaður (Reykvíkinga) 1953–1956 (Þjóðvarnarflokkurinn).

Varaþingmaður Reykvíkinga apríl 1964 og maí 1965 (Alþýðubandalag).

Ritstjóri: Frjáls þjóð (1952–1954 og öðru hverju eftir það næstu ár, síðast 1967).

Æviágripi síðast breytt 21. október 2019.

Áskriftir