Tryggvi Gunnarsson

Tryggvi Gunnarsson

Þingseta

Alþingismaður Norður-Þingeyinga 1869–1874 (sat ekki á þingi 1871 og 1873), alþingismaður Suður-Múlasýslu 1874–1885, alþingismaður Árnesinga 1894–1900, alþingismaður Reykvíkinga 1900–1908 (Heimastjórnarflokkurinn).

Varaforseti sameinaðs þings 1881 og 1894, varaforseti neðri deildar 1883–1885 og 1895, 2. varaforseti neðri deildar 1907.

Æviágrip

Fæddur í Laufási við Eyjafjörð 18. október 1835, dáinn 21. október 1917. Foreldrar: Gunnar Gunnarsson (fæddur 24. janúar 1781, dáinn 24. júlí 1853) prestur þar og kona hans Jóhanna Kristjana Gunnlaugsdóttir Briem (fædd 14. nóvember 1813, dáin 23. október 1878) húsmóðir, hún átti síðar Þorstein Pálsson alþingismann. Bróðir Eggerts Gunnarssonar alþingismanns. Maki (30. júní 1859): Kristín Halldóra Þorsteinsdóttir (fædd 12. desember 1837, dáin 7. mars 1875) húsmóðir. Foreldrar: Þorsteinn Pálsson alþingismaður og 1. kona hans Valgerður Jónsdóttir. Fósturdóttir Tryggva og Halldóru: Valgerður Jónsdóttir (1863), kona Þórhalls Bjarnarsonar alþingismanns. Sonur Tryggva og Jóhönnu Margrétar Jónsdóttur: Ólafur (1890). Dætur Tryggva og Helgu Jónasdóttur: Lilý Guðrún (1912), Áslaug (1916), Þórunn Anna María (1917).

Nam trésmíðar hjá móðurbróður sínum Ólafi Briem þjóðfundarmanni og timburmeistara á Grund 1850–1853. Dvaldist í Kaupmannahöfn veturinn 1863–1864 og lærði þá m.a. ljósmyndun, fór þaðan til Noregs og var þar um tíma á búnaðarskólanum í Ási.

Sendur til Reykjavíkur sumarið 1858 í verslunarerindum fyrir Höfðhverfinga og seldi þá kaupmönnum syðra skipsfarm af eyfirskum afurðum og tók vörur norður í staðinn. Bóndi á Hallgilsstöðum í Fnjóskadal 1859–1873. Stofnandi Gránufélagsins og kaupstjóri þess 1871–1893. Fluttist til Kaupmannahafnar 1873. Bankastjóri Landsbankans í Reykjavík 1893–1909, var þá vikið frá, en Alþingi ákvað síðan að hann nyti fullra eftirlauna til æviloka.

Hreppstjóri í Hálshreppi 1865–1868, þá vék mágur hans Pétur Havstein amtmaður honum frá. Í móttökunefnd vegna konungskomu 1874 og aftur 1907. Þingkjörinn umsjónarmaður með byggingu alþingishússins 1879–1881. Forseti Þjóðvinafélagsins 1880–1911 og 1914–1917. Sá um byggingu Ölfusárbrúar 1891. Í bæjarstjórn Reykjavíkur 1897–1908 og 1910–1916. Stofnandi Dýraverndarfélags Íslands 1914 og formaður þess frá stofnun til æviloka. Alþingisgarðurinn var að miklu leyti handaverk hans og þar kaus hann sér legstað.

Alþingismaður Norður-Þingeyinga 1869–1874 (sat ekki á þingi 1871 og 1873), alþingismaður Suður-Múlasýslu 1874–1885, alþingismaður Árnesinga 1894–1900, alþingismaður Reykvíkinga 1900–1908 (Heimastjórnarflokkurinn).

Varaforseti sameinaðs þings 1881 og 1894, varaforseti neðri deildar 1883–1885 og 1895, 2. varaforseti neðri deildar 1907.

Ævisaga Tryggva er til í fjórum bindum: Tryggvi Gunnarsson, höfundar Þorkell Jóhannesson og Bergsteinn Jónsson (1955, 1965, 1972 og 1990).

Ritstjóri: Almanak Hins íslenska þjóðvinafélags (1880–1911 og 1914–1917). Dýravinurinn (1885–1916).

Æviágripi síðast breytt 30. mars 2016.