Sigurður Kári Kristjánsson

Sigurður Kári Kristjánsson

Þingseta

Alþingismaður Reykjavíkurkjördæmis norður 2003–2009, varaþingmaður apríl–september og október 2010 til september 2011 (Sjálfstæðisflokkur).

Raddsýnishorn

Æviágrip

Fæddur í Reykjavík 9. maí 1973. Foreldrar: Kristján Ágúst Ögmundsson (fæddur 28. ágúst 1943) forstöðumaður og kona hans Elín Þórjónsdóttir (fædd 17. júlí 1946) sjúkraliði. Maki: Birna Bragadóttir (fædd 29. október 1974) BA í félagsfræði og háskólanemi. Sonur: Kári (2010). Börn Birnu: Sindri (1995), Salka (2003).

Stúdentspróf VÍ 1993. Lögfræðinám við Kaþólska háskólann í Leuven 1997. Lögfræðipróf HÍ 1998. Hdl. 1999.

Starfaði á lögmannsstofu Jóns Steinars Gunnlaugssonar hrl. meðfram laganámi. Fulltrúi á Lex lögmannsstofu 1998–1999, hdl. þar 1999–2003. Stundakennari við Iðnskólann í Reykjavík 2001–2002.

Forseti Nemendafélags Verzlunarskóla Íslands 1992–1993. Formaður Orators, félags laganema, 1995–1996. Framkvæmdastjóri lögfræðiaðstoðar Orators 1997–1998. Fulltrúi stúdenta í háskólaráði fyrir Vöku, félag lýðræðissinnaðra stúdenta, 1995–1997. Í stjórn Heimdallar 1995–1997. Í stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna 1997–1999, formaður 1999–2001. Í miðstjórn og framkvæmdastjórn Sjálfstæðisflokksins 1999–2001. Í stjórn Heimssýnar, hreyfingar sjálfstæðissinna í Evrópumálum, síðan 2002. Í nefnd iðnaðarráðherra um endurskoðun vatnalaga 2008. Í starfshópi menntamálaráðherra um eflingu Hólaskóla, Háskólans á Hólum, 2008. Í starfshópi menntamálaráðherra um starfsumhverfi fjölmiðla síðan 2008.

Alþingismaður Reykjavíkurkjördæmis norður 2003–2009, varaþingmaður apríl–september og október 2010 til september 2011 (Sjálfstæðisflokkur).

Menntamálanefnd 2003–2009 (formaður 2005–2009), allsherjarnefnd 2003–2009, iðnaðarnefnd 2003–2007, sérnefnd um stjórnarskrármál 2004–2007 og 2009 (fyrri).

Íslandsdeild Norðurlandaráðs 2003–2005, Íslandsdeild þingmannaráðstefnunnar um norðurskautsmál 2005–2009 (formaður).

Ritstjóri: Í ritstjórn Úlfljóts (1996–1997).

Æviágripi síðast breytt 22. nóvember 2021.

Áskriftir