Valgerður Bjarnadóttir

Valgerður Bjarnadóttir

Þingseta

Alþingismaður Reykjavíkurkjördæmis norður 2009–2016 (Samfylkingin).

Varaþingmaður Reykjavíkurkjördæmis norður október–nóvember 2007, febrúar–mars 2008 (Samfylkingin).

Æviágrip

Fædd í Reykjavík 13. janúar 1950. Foreldrar: Bjarni Benediktsson (fæddur 30. apríl 1908, dáinn 10. júlí 1970) alþingismaður og ráðherra, sonur Benedikts Sveinssonar alþingismanns, bróðir Péturs Benediktssonar alþingismanns, móðurbróðir Halldórs Blöndals alþingismanns og ráðherra, og Sigríður Björnsdóttir (fædd 1. nóvember 1919, dáin 10. júlí 1970) húsmóðir. Systir Björns Bjarnasonar alþingismanns og ráðherra. Maki 1: Vilmundur Gylfason (fæddur 7. ágúst 1948, dáinn 19. júní 1983) alþingismaður og ráðherra. Foreldrar: Gylfi Þ. Gíslason alþingismaður og ráðherra og Guðrún Vilmundardóttir. Maki 2: Kristófer Már Kristinsson (fæddur 3. ágúst 1948, dáinn 19. apríl 2021) íslenskufræðingur og varaþingmaður. Foreldrar: Guðmundur Kristinn Magnússon og Ágústa Kristófersdóttir. Börn Valgerðar og Vilmundar: Benedikt (fæddur 1966, dáinn 1970), óskírður (fæddur/dáinn 1973), Guðrún (1974), Nanna Sigríður (fædd 1975, dáin 1976), Baldur Hrafn (1981). Stjúpbörn, börn Kristófers: Daði Már (1971), Ágústa (1973), Gísli Kort (1978), Gunnar Tómas (1984).

Stúdentspróf MR 1969. Cand.oecon.-próf HÍ 1975. MS-próf í heilsuhagfræði HÍ 2006.

Starfsmaður hagdeildar Flugleiða 1975–1978. Fulltrúi í sjávarútvegsráðuneytinu 1978–1980. Fulltrúi í hagdeild Flugleiða 1980. Forstöðumaður hagdeildar Flugleiða 1981–1985. Yfirmaður hótelrekstrar Flugleiða 1985–1986. Deildarstjóri efnahagsrannsókna hjá AEA - Association of European Airlines, sem hefur aðsetur í Brussel, 1987–1990. Sjálfstætt starfandi ráðgjafi í Brussel í samstarfi við ráðgjafafyrirtækið Prisma, við verkefni fyrir m.a. Vinnuveitendasamband Íslands og Félag íslenskra iðnrekenda, 1990–1991. Sérfræðingur (fór með samgöngumál) á aðalskrifstofu EFTA í Brussel 1991–1994. Skrifstofustjóri á skrifstofu samgangna, fjarskipta og fjármálastarfsemi (málefni sem farið var með í „samninganefnd II“) á aðalskrifstofu EFTA í Brussel. Tók þátt í samningum um viðbætur við EES-samninginn 1994–2001. Framkvæmdastjóri Sjúkrahúsapóteksins ehf. 2001–2003. Yfirmaður lyfjaþjónustu Landspítala - háskólasjúkrahúss 2003–2005. Sviðsstjóri á innkaupa- og vörustjórnunarsviði Landspítala - háskólasjúkrahúss 2005–2009.

Varaformaður landsnefndar Bandalags jafnaðarmanna 1984–1985. Í framkvæmdastjórn Samfylkingarinnar 2003–2005. Í flokksstjórn Samfylkingarinnar frá 2005. Í háskólaráði Háskóla Íslands 2007–2009. Varamaður í stjórn Leikfélags Reykjavíkur frá 2007. Varamaður í bankaráði Seðlabanka Íslands 2007–2008, í bankaráði 2008–2009. Í Þingvallanefnd 2009–2013. Í stjórnarskrárnefnd skipaðri af forsætisráðherra síðan 2013.

Alþingismaður Reykjavíkurkjördæmis norður 2009–2016 (Samfylkingin).

Varaþingmaður Reykjavíkurkjördæmis norður október–nóvember 2007, febrúar–mars 2008 (Samfylkingin).

Allsherjarnefnd 2009–2011, heilbrigðisnefnd 2009–2010, utanríkismálanefnd 2009–2011, sérnefnd um stjórnarskrármál 2010–2011, viðskiptanefnd 2010–2011, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd 2011–2013 (formaður) og 2013–2015, velferðarnefnd 2011–2012, fjárlaganefnd 2012–2013, efnahags- og viðskiptanefnd 2015–2016.

Íslandsdeild þingmannanefndar EFTA 2009–2011, Íslandsdeild þingmannaráðstefnunnar um norðurskautsmál 2013–2016.

Æviágripi síðast breytt 31. október 2016.

Áskriftir