Eggert Gunnarsson

Eggert Gunnarsson

Þingseta

Alþingismaður Norður-Múlasýslu 1875–1880.

    Þingstörf

    Æviágrip

    Fæddur í Laufási við Eyjafjörð 23. júlí 1840, dáinn erlendis, óvíst hvar og hvenær. Foreldrar: Gunnar Gunnarsson (fæddur 24. janúar 1781, dáinn 24. júlí 1853) prestur þar og kona hans Jóhanna Kristjana Gunnlaugsdóttir Briem (fædd 14. nóvember 1813, dáin 23. október 1878) húsmóðir. Hún átti síðar Þorstein Pálsson alþingismann á Hálsi í Fnjóskadal. Bróðir Tryggva Gunnarssonar alþingismanns. Maki (12. júlí 1867): Elín Sigríður Magnúsdóttir (fædd 11. júní 1848, dáin 17. janúar 1869) húsmóðir. Foreldrar: Magnús Ólsen alþingismaður og kona hans Ingunn Jónsdóttir.

    Var við jarðyrkjunám 1855–1857 í Fornhaga í Hörgárdal hjá Friðbirni Björnssyni.

    Dvaldist á Hálsi hjá stjúpa sínum og móður næstu árin en síðan með Pétri Havstein mági sínum á Möðruvöllum. Ráðsmaður Tryggva bróður síns á Hallgilsstöðum 1864–1865. Bóndi á Espihóli í Eyjafirði 1866–1869, á Laugalandi 1876–1879. Kaupstjóri á Akureyri um hríð. Umboðsmaður Munkaþverárklaustursjarða 1864–1882. Settur sýslumaður í Skagafjarðarsýslu um skeið 1869. Var mest í Reykjavík eftir 1880 og rak verslun þar og víðar, stofnaði m. a. Bresk-íslenska verslunarfélagið 1880 auk annarra umsvifa, svo sem stofnunar fiskifélags (útgerðarfélags) og ábyrgðarfélags fyrir skip. Reis ekki undir fjárhagslegum skuldbindingum og fór af landi brott 1884 og hvarf í Bretlandi.

    Stofnaði Framfarafélag Eyjafjarðar 1875, beitti sér fyrir stofnun Kvennaskóla sem starfaði á Laugalandi 1877–1896 og stóð fyrir samtökum til að ræsa fram Staðarbyggðarmýrar.

    Alþingismaður Norður-Múlasýslu 1875–1880.

    Æviágripi síðast breytt 13. apríl 2015.

    Áskriftir