Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir

Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir

Þingseta

Alþingismaður Reykvíkinga 1987–1991 (Borgaraflokkur).

Minningarorð
Raddsýnishorn

Æviágrip

Fædd að Efri-Steinsmýri í Vestur-Skaftafellssýslu 8. ágúst 1921, dáin 26. apríl 1994. Föðursystir Árna Magnússonar alþingismanns og ráðherra. Foreldrar: Bjarnfreður Jóhann Ingimundarson (fæddur 13. september 1889, dáinn 13. september 1964) bóndi þar og kona hans Ingibjörg Sigurbergsdóttir (fædd 3. nóvember 1893, dáin 20. júlí 1945) húsmóðir. Maki 1 (28. júlí 1944): Anton Júlíus Guðjónsson (fæddur 20. ágúst 1907, dáinn 15. september 1991) sjómaður og smiður. Þau skildu. Foreldrar: Guðjón Þorleifsson og 1. kona hans Anna Hróbjartsdóttir. Maki 2 (10. október 1968): Runólfur Guðsteinn Þorsteinsson (fæddur 10. október 1918) bóndi. Foreldrar: Þorsteinn Einarsson og kona hans Guðrún Guðjónsdóttir. Börn Aðalheiðar og Antons: Ingigerður (1945), Steinunn Birna Magnúsdóttir (ættleidd, 1947), Hlynur Þór (1949), Hlynur Þór (1952), Guðmundur Bergur (1956).

Verkakona og húsmóðir í Vestmannaeyjum og Reykjavík. Húsmóðir í Köldukinn í Holtum, Rangárvallasýslu, 1963–1974.

Formaður Verkakvennafélagsins Snótar í Vestmannaeyjum 1945–1949. Formaður Starfsmannafélagsins Sóknar í Reykjavík 1976–1987. Í miðstjórn ASÍ frá 1980. Í stjórn Sósíalistafélags Vestmannaeyja. Í nefnd um málefni aldraðra og til að semja ný framfærslulög. Í stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs 1987–1992. Í bankaráði Búnaðarbankans 1990–1993.

Alþingismaður Reykvíkinga 1987–1991 (Borgaraflokkur).

Ævisaga hennar: Lífssaga baráttukonu, var skráð af Ingu Huld Hákonardóttur (1986).

Æviágripi síðast breytt 12. september 2019.

Áskriftir