Ari Trausti Guðmundsson

Ari Trausti Guðmundsson

Þingseta

Alþingismaður Suðurkjördæmis 2016–2021 (Vinstrihreyfingin – grænt framboð).

Æviágrip

Fæddur í Reykjavík 3. desember 1948. Foreldrar: Guðmundur Einarsson (fæddur 5. ágúst 1895, dáinn 23. maí 1963) myndlistarmaður og rithöfundur og Lydia Zeitner-Sternberg Pálsdóttir (fædd 7. janúar 1911, dáin 6. janúar 2000) leirlistamaður. Maki: María Gíslína Baldvinsdóttir (fædd 2. maí 1954) sjúkraliði. Foreldrar: Baldvin Jóhannsson og Anna Hulda Júlíusdóttir. Börn: Hulda Sóllilja (1973), Huginn Þór (1976), Helga Sigríður (1985).

Stúdentspróf MR 1968. Próf í forspjallsvísindum HÍ 1971. Cand. mag. próf í jarðvísindum frá Óslóarháskóla 1973. Framhaldsnám í jarðvísindum við HÍ 1983–1984. Námskeið í fornveðurfræði og jöklajarðfræði við EHÍ 1991.

Rannsóknastörf á vegum jarðhitadeildar Orkustofnunar 1968–1970, jöklarannsóknir 1969–1971. Kennslustörf 1973–1987, lengst af við Menntaskólann við Sund, konrektor 1985–1986. Námsráðgjafi 1986–1987. Prófdómari í jarðvísindum 1988–1998. Sérstörf hjá Samvinnuferðum-Landsýn 1987–1989. Ferðaleiðsögn um Ísland síðan 1967 og í útlöndum síðan 1997. Ráðgjafarstörf hjá verkfræðistofunni Línuhönnun/Efla 1998–2012. Útvarpsþáttagerð 1978–2008 og gerð sjónvarpsefnis og heimildarmynda fyrir RÚV 1983–2016. Þáttagerð fyrir Stöð 2 1990–2002. Veðurfréttamaður hjá Stöð 2 1989–1996 og 1998–2002. Ráðgjafi fyrir Landgræðslu ríkisins 1987–2000 og hjá Rannís um kynningu á vísindum 1997–2000. Ráðgjöf og störf fyrir Saga Film 1984–1998 auk ráðgjafar fyrir Panarctica, ON og Pegasus. Hönnun ýmissa safna og sýninga 2002–2016, þar á meðal Lava Centre á Hvolsvelli. Fulltrúi Rannís í úthlutunarnefnd ritlauna til fræðirithöfunda 2006–2008. Þátttaka í stefnumótun vegna náttúruverndarlaga 1989 og vegna nýtingar hálendisins 1996 fyrir samgönguráðuneytið. Höfundur fræðibóka, stuttsögusafns, sjö ljóðabóka og fjögurra skáldsagna.

Seta og formennska í stjórn Einingarsamtaka kommúnista, síðar Kommúnistasamtakanna, 1973–1985. Í fulltrúaráði Hagþenkis, félags höfunda fræðirita og kennslugagna, frá stofnun þess 1983 til 1999. Ritstjórn Verkalýðsblaðsins 1983–1985. Í Þingvallanefnd 2018–2022 (formaður).

Alþingismaður Suðurkjördæmis 2016–2021 (Vinstrihreyfingin – grænt framboð).

Umhverfis- og samgöngunefnd 2017 og 2017–2021, utanríkismálanefnd 2017–2021.

Íslandsdeild þingmannaráðstefnunnar um norðurskautsmál 2017 og 2017–2021 (formaður 2017–2021).

Æviágripi síðast breytt 31. mars 2022.

Áskriftir