Eiríkur Briem

Eiríkur Briem

Þingseta

Alþingismaður Húnvetninga 1880–1892, konungkjörinn alþingismaður 1901–1915 (Heimastjórnarflokkurinn, Sambandsflokkurinn, Heimastjórnarflokkurinn).

Forseti sameinaðs þings 1891 og 1901–1907. Varaforseti sameinaðs þings 1889 og 1912, varaforseti neðri deildar 1889.

Æviágrip

Fæddur á Melgraseyri 17. júlí 1846, dáinn 27. nóvember 1929. Foreldrar: Eggert Briem (fæddur 15. október 1811, dáinn 11. mars 1894) þjóðfundarmaður og kona hans Ingibjörg Eiríksdóttir Briem (fædd 16. september 1827, dáin 15. september 1890). Maki (2. júlí 1874) Guðrún Gísladóttir Briem (fædd 28. janúar 1848, dáin 2. mars 1893) húsmóðir. Foreldrar: Gísli Hjálmarsson og kona hans Guðlaug Guttormsdóttir, systurdóttir Guttorms Vigfússonar alþingismanns, Arnheiðarstöðum. Börn: Ingibjörg (1875), Gísli (1876), Guðlaug (1878), Eggert (1879).

Stúdentspróf Lsk. 1864. Guðfræðipróf Prestaskólanum 1867. Framhaldsnám í Kaupmannahöfn 1879–1880. Prófessor að nafnbót 1911.

Heimiliskennari hjá foreldrum sínum 1864–1866. Biskupsritari 1867–1874 og kenndi jafnframt stýrimannsefnum sjómannafræði. Prestur í Þingeyraprestakalli 1874–1880, sat í Steinnesi, tók þar ýmsa pilta til náms á veturna og bjó suma undir skóla. Prófastur í Húnavatnsprófastsdæmi 1876–1880. Kennari við Prestaskólann 1880–1911. Hafði jafnframt á hendi kennslu í trúarbrögðum og stærðfræði í Lærða skólanum 1881–1896.

Bæjarfulltrúi í Reykjavík 1883–1888 og 1894–1900. Stofnandi Söfnunarsjóðs Íslands og forstöðumaður sjóðsins frá stofnun hans 1885 til ársloka 1920. Gæslustjóri Landsbankans 1885–1909 og 1915–1917. Í verðlaunanefnd Gjafar Jóns Sigurðssonar 1885–1909. Yfirskoðunarmaður landsreikninganna 1892–1893 og 1912–1913. Formaður Hins íslenska fornleifafélags 1893–1917 og forseti Hins íslenska bókmenntafélags 1900–1904. Átti sæti í milliþinganefnd um kirkjumál 1904–1906.

Alþingismaður Húnvetninga 1880–1892, konungkjörinn alþingismaður 1901–1915 (Heimastjórnarflokkurinn, Sambandsflokkurinn, Heimastjórnarflokkurinn).

Forseti sameinaðs þings 1891 og 1901–1907. Varaforseti sameinaðs þings 1889 og 1912, varaforseti neðri deildar 1889.

Samdi kennslubækur sem voru lengi notaðar við kennslu og voru oft endurprentaðar.

Æviágripi síðast breytt 19. júní 2015.

Áskriftir