Guðjón S. Brjánsson

Guðjón S. Brjánsson

Þingseta

Alþingismaður Norðvesturkjördæmis 2016–2021 (Samfylkingin).

1. varaforseti Alþingis 2017–2021.

Æviágrip

Fæddur á Akureyri 22. mars 1955. Foreldrar: Brjánn Guðjónsson (fæddur 19. nóvember 1923, dáinn 22. júlí 2014) deildarstjóri hjá Kaupfélagi Eyfirðinga á Akureyri og Ragnheiður Hlíf Júlíusdóttir (fædd 10. júlí 1927, dáin 19. júlí 2013) húsfreyja og iðnverkakona. Maki: Dýrfinna Torfadóttir (fædd 10. júní 1955) gullsmiður og sjónfræðingur. Foreldrar: Torfi Tímóteus Björnsson og Sigríður Króknes. Synir Guðjóns og Lindu Ólafsdóttur Olsen: Brjánn (1982), Hallur (1987).

Stúdentspróf MA 1975. Próf í félagsráðgjöf frá Sosialhögskolen í Stafangri í Noregi 1979. Vélavarðanám við Framhaldsskóla Vestfjarða 1991. Námskeið til 30 tonna skipstjórnarréttinda á Ísafirði 1992. Nám í stjórnunarfræðum frá University of South Florida í Tampa 1992–1993. MPH í lýðheilsufræði frá Nordiska högskolan för folkhälsovetenskap í Gautaborg 2014.

Kennari við Gagnfræðaskólann í Stykkishólmi 1975–1976. Forstöðumaður Dalbæjar, heimilis aldraðra, á Dalvík 1979–1982, Múlabæjar, þjónustumiðstöðvar aldraðra og öryrkja, í Reykjavík 1982–1989 og Hlíðabæjar, dagdeildar fyrir alzheimersjúklinga, í Reykjavík 1985–1989. Dagskrárgerðarmaður hjá RÚV, hljóðvarpi í Reykjavík 1985–1988. Fréttamaður og dagskrárgerðarmaður (hlutastarf) hjá RÚV, hljóðvarpi á Ísafirði 1989–1992. Félagsmálastjóri Ísafjarðarbæjar 1989–1991. Rækjusjómaður og trillukarl á Ísafirði 1991–1992. Framkvæmdastjóri Heilbrigðisstofnunarinnar Ísafjarðarbæ 1993–2001, sjúkrahússins og heilsugæslustöðvarinnar á Akranesi frá 2001 og sameinaðrar Heilbrigðisstofnunar Vesturlands 2010–2016.

Í stjórn og ritnefnd (útgáfustjórn) Félags stjórnenda í öldrunarþjónustu (FSÍÖ) 1981–1987. Fulltrúi Íslands í FSÍÖ á Norðurlöndum (NORDKOM) 1983–1985. Í stjórn og ritnefnd Félags áhugafólks um íþróttir aldraðra 1986–1990. Í félagsmálanefnd Ísafjarðarbæjar 1994–2001. Í stjórn Alþýðuflokksfélags Ísafjarðar og Jafnaðarmannafélags Ísafjarðarbæjar 1994–2001. Í stjórn Félags forstöðumanna sjúkrahúsa 1999–2016, formaður 2013–2016. Félagi í Oddfellow-stúku nr. 8, Agli, á Akranesi 2002. Í stjórn Norræna félagsins á Akranesi frá 2003. Í stjórn Símenntunarmiðstöðvar Vesturlands 2004–2018, formaður 2005–2009. Í stjórn FAAS, nú Alzheimersamtakanna á Íslandi, frá 2011. Í stjórn/varastjórn Félags forstöðumanna ríkisstofnana 2014–2016. Í varastjórn Starfsendurhæfingar Vesturlands frá stofnun 2014.

Alþingismaður Norðvesturkjördæmis 2016–2021 (Samfylkingin).

1. varaforseti Alþingis 2017–2021.

Allsherjar- og menntamálanefnd 2016–2017, velferðarnefnd 2017–2019, umhverfis- og samgöngunefnd 2019–2021.

Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins 2017–2021 (formaður 2017–2021).

Æviágripi síðast breytt 27. janúar 2022.

Áskriftir