Klemens Jónsson

Klemens Jónsson

Þingseta

Alþingismaður Eyfirðinga 1892–1904 (sat ekki þing 1894), alþingismaður Rangæinga 1923–1927 (Heimastjórnarflokkurinn, Framsóknarflokkur).

Sat tímabundið á Alþingi 1907, 1909, 1913 og 1914 sem umboðsmaður ráðherra í forföllum hans. Atvinnumálaráðherra 1922–1924, jafnframt fjármálaráðherra 1923–1924.

Forseti neðri deildar 1901–1903.

Æviágrip

Fæddur á Akureyri 27. ágúst 1862, dáinn 20. júlí 1930. Foreldrar: Jón Borgfirðingur (fæddur 30. september 1826, dáinn 20. október 1912) síðar lögregluþjónn og fræðimaður í Reykjavík og kona hans Anna Guðrún Eiríksdóttir (fædd 8. febrúar 1828, dáin 10. apríl 1881) húsmóðir. Tengdafaðir Tryggva Þórhallssonar alþingismanns og ráðherra. Maki 1 (6. júlí 1889): Þorbjörg Stefánsdóttir (fædd 3. júní 1866, dáin 30. janúar 1902) húsmóðir. Foreldrar: Stefán Bjarnarson og kona hans Karen Emilie Bjarnarson, fædd Jörgensen. Systir Bjarnar Bjarnarsonar sýslumanns og alþingismanns og Camillu konu Magnúsar Torfasonar sýslumanns og alþingismanns. Maki 2 (16. október 1908): Anna María Jónsson, fædd Schiöth (fædd 1. júní 1879, dáin 8. nóvember 1961) húsmóðir. Foreldrar: Peter Frederik Hendrik Schiöth og kona hans Anna Cathrine, fædd Larsen. Börn Klemensar og Þorbjargar: Anna Guðrún (1890), Karen Emilie (1893), Agnar Stefán (1896). Börn Klemensar og Önnu: Agnar Klemens (1909), Alma Valborg (1910).

Stúdentspróf Lsk. 1883. Lögfræðipróf Hafnarháskóla 1888.

Dvaldist í Reykjavík 1888–1889 við ýmis störf. Aðstoðarmaður í íslensku stjórnardeildinni í Kaupmannahöfn 1889–1891. Sýslumaður í Eyjafjarðarsýslu og bæjarfógeti á Akureyri 1891–1904. Settur amtmaður í norður- og austuramtinu 1894. Landritari 1904–1917, er embættið var lagt niður. Vann síðan að sögurannsóknum og ritstörfum. Skipaður 7. mars 1922 atvinnu- og samgöngumálaráðherra, skipaður 18. apríl 1923 jafnframt fjármálaráðherra í stað Magnúsar Jónssonar, sem lét af því embætti daginn áður, lausn 5. mars 1924, en gegndi störfum áfram til 22. mars.

Formaður heilsuhælisfélagsins, sem kom upp Vífilsstaðahæli. Skipaður 1907 formaður milliþinganefndar í skattamálum. Í bæjarstjórn Reykjavíkur 1908–1914. Skipaður 1908 formaður stjórnar holdsveikraspítalans í Laugarnesi. Skipaður í peningamálanefnd 1910, formaður milliþinganefndar um rannsókn á fjármálum landsins 1911. Yfirmaður Oddfellow-reglunnar á Íslandi um langt skeið. Skipaður 1918 í íslensk-breska viðskiptanefnd. Gæslustjóri Söfnunarsjóðs 1918–1922. Sat í orðunefnd 1921– 1922 og frá 1925 til æviloka. Í bankaráði Íslandsbanka 1924–1930.

Alþingismaður Eyfirðinga 1892–1904 (sat ekki þing 1894), alþingismaður Rangæinga 1923–1927 (Heimastjórnarflokkurinn, Framsóknarflokkur).

Sat tímabundið á Alþingi 1907, 1909, 1913 og 1914 sem umboðsmaður ráðherra í forföllum hans. Atvinnumálaráðherra 1922–1924, jafnframt fjármálaráðherra 1923–1924.

Forseti neðri deildar 1901–1903.

Ritaði um margs konar lögfræðiefni og ýmsa þætti í sögu Íslendinga.

Æviágripi síðast breytt 18. febrúar 2016.

Áskriftir