Magnús Árni Skjöld Magnússon

Magnús Árni Skjöld Magnússon

Þingseta

Alþingismaður Reykvíkinga 1998–1999 (þingflokkur jafnaðarmanna, Samfylkingin).

Varaþingmaður Reykjavíkurkjördæmis norður febrúar 2023, nóvember 2023, janúar–febrúar 2024 og febrúar 2024 (Samfylkingin).

Raddsýnishorn

Æviágrip

Fæddur í Reykjavík 14. mars 1968. Foreldrar: Magnús Bæringur Kristinsson (fæddur 9. október 1923, dáinn 20. júlí 1995) skólastjóri og kona hans Guðrún Sveinsdóttir (fædd 23. júlí 1927, dáin 22. maí 2017) kennari. Fyrrverandi maki: Sigríður Björk Jónsdóttir (fædd 30. september 1972) sagnfræðingur. Foreldrar: Jón Gestur Viggósson kerfisfræðingur og kona hans Þorbjörg Br. Gunnarsdóttir safnvörður. Börn: Úlfur Bæringur Skjöld (1996), Kolbeinn Tumi Skjöld (2000), Auður Brynhildur Skjöld (2005) og Hjörleifur Kalman (2009).

Stúdentspróf frá FB 1989. BA-próf í heimspeki frá HÍ 1997. MA-próf í hagfræði frá University of San Francisco 1998. M.Phil. próf í Evrópufræði frá University of Cambridge (Trinity Hall) 2001. Doktorspróf (Ph.D) í stjórnmálafræði frá HÍ 2011 og M.Mus. próf í tónsmíðum frá LHÍ (2022).

Sumarstarf í farskrárdeild Flugleiða 1985–1988. Sumarstörf sem blaðamaður á Alþýðublaðinu 1989–1990. Flokksstjóri í Vinnuskóla Kópavogs 1991 og 1993–1996, yfirflokksstjóri 1997–1998. Tómstundafulltrúi Nordjobb á Íslandi 1992. Framkvæmdastjóri Sambands ungra jafnaðarmanna 1993–1994. Blaðamaður á Alþýðublaðinu 1994–1995. Blaðamaður Tölvuheims (PC World Ísland) 1996–1998. Fréttastjóri Netheims 1998. Lektor og síðar dósent við Viðskiptaháskólann á Bifröst 2000–2006, aðstoðarrektor við sama skóla 2001–2006, partner hjá Capacent 2006–2008, forstöðumaður Skóla skapandi greina hjá Keili 2008–2009, forstöðumaður Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands 2009–2010, rektor Háskólans á Bifröst 2010–2011 og dósent við sama skóla síðan þá. Leysti af sem stjórnandi við Evrópufræðideild Háskólans í Haag í Hollandi árið 2016 og starfaði fyrir borgaralegan sendifulltrúa NATO í Kabúl í Afganistan 2018 á vegum íslensku friðargæslunnar.

Í stúdentaráði HÍ 1993–1995. Í stjórn Þróunarsamvinnustofnunar Íslands 1993–1997. Í framkvæmdastjórn Föreningen Nordens Socialdemokratiska Ungdom 1988–1990 og 1994–1996. Formaður Sambands ungra jafnaðarmanna 1994. Í stjórn Varðbergs (félags ungra áhugamanna um vestræna samvinnu) 1994–1997. Í framkvæmdastjórn Alþýðuflokksins 1994–1996. Formaður Alþýðuflokksfélags Kópavogs 1996–1998. Formaður Breiðabliks í Kópavogi 2001–2004, varaformaður stjórnar Sjúkratrygginga Íslands 2008–2010, varamaður í stjórn Landsvirkjunar 2010–2013, í stjórn landsnefndar UN Women 2011–2013 og í stjórn Women Power Africa 2015–2020. Í framkvæmdastjórn Samfylkingarinnar 2020–2022. Sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum síðan 2009 og situr í siðanefnd RKÍ.

Alþingismaður Reykvíkinga 1998–1999 (þingflokkur jafnaðarmanna, Samfylkingin).

Varaþingmaður Reykjavíkurkjördæmis norður febrúar 2023, nóvember 2023, janúar–febrúar 2024 og febrúar 2024 (Samfylkingin).

Umhverfisnefnd 1998–1999.

Gaf út bókina Borgríkið, Reykjavík sem framtíð þjóðar, árið 2020.

Æviágripi síðast breytt 26. febrúar 2024.

Áskriftir