Sigurður Sigurðsson

Sigurður Sigurðsson

Þingseta

Alþingismaður Árnesinga 1900–1901 og 1908–1919 (Framfaraflokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn eldri, Sambandsflokkurinn, Bændaflokkurinn eldri, Heimastjórnarflokkurinn).

Æviágrip

Fæddur í Langholti í Flóa 4. október 1864, dáinn 14. febrúar 1926. Foreldrar: Sigurður Sigurðsson (fæddur 5. september 1831, dáinn 5. mars 1905) bóndi þar og kona hans Margrét Þorsteinsdóttir (fædd 28. júlí 1832, dáin 16. ágúst 1896) húsmóðir. Afi Eggerts Haukdals alþingismanns. Maki (1. maí 1897): Björg Þorvaldína Guðmundsdóttir (fædd 29. nóvember 1874, dáin 4. júní 1966) húsmóðir. Foreldrar: Guðmundur Eggertsson og kona hans Elínborg Jónsdóttir. Synir: Geir Haukdal (1899), Sigurður Haukdal (1903).

Búfræðipróf Hólum 1890. Búnaðarnám í Danmörku og Noregi 1897–1899 með styrk frá Búnaðarfélagi suðuramtsins.

Starfsmaður Búnaðarfélags Þingeyrarhrepps 1890–1891, en barnakennari þar að vetrinum. Vann hjá Búnaðarfélagi suðuramtsins 1892–1897, átti þá heima í Langholti. Ráðunautur Búnaðarfélags Íslands frá 1900 til æviloka, sat í Reykjavík.

Forgöngumaður við stofnun rjómabúa. Vann m. a. að áveitumælingum í Flóa og á Skeiðum 1906 með Karli Thalbitzer verkfræðingi Heiðafélagsins danska. Skipaður í milliþinganefnd um Flóaáveitu 1916.

Alþingismaður Árnesinga 1900–1901 og 1908–1919 (Framfaraflokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn eldri, Sambandsflokkurinn, Bændaflokkurinn eldri, Heimastjórnarflokkurinn).

Ritaði bæklinga og fjölda greina um landbúnaðarmál.

Ritstjóri: Freyr (1909–1922).

Æviágripi síðast breytt 17. nóvember 2017.

Áskriftir