Þórður Jónasson

Þórður Jónasson

Þingseta

Konungkjörinn alþingismaður 1845–1859 og 1869–1875. Konungkjörinn þjóðfundarmaður 1851.

Konungsfulltrúi á Alþingi 1861–1865. Aðstoðarmaður konungsfulltrúa 1867.

    Þingstörf

    Æviágrip

    Fæddur í Nesi í Aðaldal 26. febrúar 1800, dáinn 25. ágúst 1880. Foreldrar: Jónas Jónsson (fæddur 7. nóvember 1773, dáinn 29. nóvember 1861) prestur þar og 2. kona hans Þórdís Jónsdóttir (fædd um 1781, dáin 4. október 1844) húsmóðir. Faðir Jónasar og Theodórs alþingismanns Jónassens. Maki (25. júní 1838): Dorothea Sophia Rasmusdóttir Lynge (fædd 4. júlí 1808, dáin 26. janúar 1890) húsmóðir. Foreldrar: Rasmus Lynge og 2. kona hans Rannveig Ólafsdóttir. Börn: Eggert Theodór (1838), Jónas (1840), Friðrik Andreas (1842), Anna Guðrún (1843), María Kristín (1845), Sigurður (1845), Þórdís Sigríður (1851). Sonur Þórðar og Margrétar Stefánsdóttur: Þórður (1825).

    Stúdentspróf Bessastöðum 1820. Lögfræðipróf Hafnarháskóla 1830.

    Stundaði fyrst kennslu og var skrifari hjá Þórði Björnssyni sýslumanni í Garði í Aðaldal. Vann um tíma í fjármálastjórn Dana í Kaupmannahöfn. Sýslumaður í Eyjafjarðarsýslu 1834–1837. Dómari í landsyfirrétti 1837–1877, háyfirdómari frá 1856. Settur sýslumaður í Gullbringu- og Kjósarsýslu frá 3. mars 1840 til 31. júlí, að nýju frá 19. september 1850 fram á sumar 1853, gegndi þar og dómarastörfum 1855–1856. Settur amtmaður í norður- og austuramtinu 1849–1850. Settur landfógeti frá marsmánuði 1852 fram á sumar. Settur stiftamtmaður frá 1. mars 1855 til 26. júní, að nýju frá nóvember 1859 til 15. júní 1860 og enn frá 2. ágúst 1860 til 8. maí 1865. Stundakennari við Lærða skólann í Reykjavík 1847–1852.

    Í bæjarstjórn Reykjavíkur 1847–1850 og 1851–1856. Formaður í stjórnarnefnd Stiftsbókasafnsins 1873–1878.

    Konungkjörinn alþingismaður 1845–1859 og 1869–1875. Konungkjörinn þjóðfundarmaður 1851.

    Konungsfulltrúi á Alþingi 1861–1865. Aðstoðarmaður konungsfulltrúa 1867.

    Ritstjóri: Skírnir (1828–1835). Reykjavíkurpósturinn (1847–1849).

    Æviágripi síðast breytt 1. apríl 2016.

    Áskriftir