Þórður Sveinbjörnsson

Þórður Sveinbjörnsson

Þingseta

Konungkjörinn alþingismaður 1845–1856. Konungkjörinn þjóðfundarmaður 1851.

Forseti Alþingis 1847. Varaforseti Alþingis 1845.

    Þingstörf

    Æviágrip

    Fæddur á Ytra-Hólmi á Akranesi 4. september 1786, dáinn 20. febrúar 1856. Foreldrar: Sveinbjörn Þórðarson (skírður 18. júní 1758, dáinn 25. apríl 1811) síðar lögréttumaður á Hvítárvöllum og 1. kona hans Halldóra Jónsdóttir (fædd um 1764, dáin 14. desember 1787) húsmóðir. Maki 1 (29. september 1822): Guðrún Oddsdóttir (fædd 30. desember 1779, dáin 11. nóvember 1838) húsmóðir. Foreldrar: Oddur Þorvarðsson og kona hans Kristín Hálfdanardóttir. Maki 2 (21. október 1840): Kirstín Cathrine Lauritzdóttir, fædd Knudsen (fædd 27. apríl 1813, dáin 8. janúar 1874) húsmóðir. Foreldrar: Lauritz Michael Knudsen og kona hans Margrethe Andrea Knudsen, fædd Hölter, systir Jóhönnu Andreu konu Þórðar Guðmundsdóttur yfirdómara og alþingismanns og Guðrúnar Sigríðar konu Péturs Guðjohnsens alþingismanns. Börn Þórðar og Guðrúnar: Stefán (1824), Jóhanna María (1825). Börn Þórðar og Kirstínar: Theodór (1841), Guðrún Lauretta (1842), Halldóra Margrét (1844), Aurora Diðrikka Ingibjörg (1846), Sveinbjörn (1847), Stefán (1848), Árna-Bjarni (1849), Aurora Diðrikka Ingibjörg (1853). Kjörsonur Þórðar, sonur Kirstínar: Lárus (Lauritz) Edvard (1834) alþingismaður.

    Stúdentspróf hjá Geir biskupi Vídalín 1802. Lögfræðipróf Hafnarháskóla 1820. Hlaut tvisvar heiðursverðlaun háskólans fyrir ritgerðir vísindalegs efnis og styrk úr almannasjóði (ad usus publicos) til þess að kynna sér náttúrusögu.

    Var tvö ár vinnumaður á Melum í Melasveit, síðan sjö ár hjá föður sínum. Skrifari Stefáns Stephensens amtmanns á Hvítárvöllum 1811–1817, en sigldi þá til háskólanáms. Starfsmaður í rentukammeri 1820–1822, en vann þá jafnframt að útgáfu og latneskri þýðingu á Grágás. Skipaður 1822 sýslumaður í Árnessýslu, sat í Hjálmholti. Skipaður 1834 fyrri yfirdómari í landsyfirrétti. Skipaður 1836 háyfirdómari og gegndi því embætti til æviloka. Settur jafnframt landfógeti og bæjarfógeti í Reykjavík frá 10. ágúst 1835 til 24. febrúar 1836 og frá 25. maí til 31. júlí 1836, settur stiftamtmaður frá 24. febrúar til 25. maí 1836. Sat í Nesi við Seltjörn 1835–1851, síðan í Reykjavík.

    Hvatamaður að stofnun Húss- og bústjórnarfélags suðuramtsins 1837 og varaforseti þess um langt skeið. Átti sæti í embættismannanefndinni vegna endurreisnar Alþingis 1839–1841. Skipaður 1845 í nefnd um landbúnaðar- og skattamál.

    Konungkjörinn alþingismaður 1845–1856. Konungkjörinn þjóðfundarmaður 1851.

    Forseti Alþingis 1847. Varaforseti Alþingis 1845.

    Ritaði ævisögu sína og fjölda greina um lögfræði.

    Ritstjóri: Sunnanpósturinn (1835).

    Æviágripi síðast breytt 1. apríl 2016.

    Áskriftir