145. löggjafarþing — 2. fundur,  8. september 2015.

Þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar, september 2015:

Samkvæmt 1. mgr. 47. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, með síðari breytingum, skal fylgja eftirriti stefnuræðu forsætisráðherra við upphaf þings yfirlit um þau mál sem ríkisstjórn hyggst leggja fram á þinginu ásamt áætlun um hvenær þeim verður útbýtt. Yfirlit fyrir 145. löggjafarþing fer hér á eftir. Fram kemur hvort ætlunin er að leggja mál fram að hausti eða vori. Flutt kunna að verða fleiri frumvörp en getið er og atvik geta hindrað flutning einstakra frumvarpa. Jafnframt eru taldar upp fyrirhugaðar tillögur til þingsályktana og helstu skýrslur sem ætlunin er að leggja fram. Í samræmi við 2. mgr. 47. gr. laganna mun ríkisstjórnin jafnframt við upphaf vetrarþings, að loknu jólahléi, afhenda forseta Alþingis endurskoðaða áætlun um framlagningu stjórnarfrumvarpa á vetrar- og vorþingi ásamt áætluðum útbýtingardegi.


Forsætisráðherra:
 1. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 34/1944, um þjóðfána Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið (notkun fánans á vörumerki og umbúðir).
 2. Notkun fánans á vörumerki og umbúðir. Endurflutt. (Haust)

 3. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 47/2004, um þjóðgarðinn á Þingvöllum (refsiheimild vegna gjaldtöku).
 4. Í kjölfar dóms Hæstaréttar vegna köfunar í Silfru án leyfis er nauðsynlegt að útfæra betur refsiheimildir í lögum um þjóðgarðinn á Þingvöllum. (Vor)

 5. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 57/2011, um skil menningarverðmæta til annarra landa (innleiðing tilskipunar).
 6. Gera þarf lítils háttar breytingar á lögum nr. 57/2011 vegna skuldbindinga á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Innleiðing. (Vor)

 7. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 80/2012, um menningarminjar (friðlýsing og aldursfriðun, stjórnsýsla).
 8. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um menningarminjar þar sem hlutverk ráðgjafarnefnda er skilgreint nánar með tilliti til verkaskiptingar milli Minjastofnunar og nefndanna. Krafa um fornleifaskráningu áður en aðalskipulag er staðfest er skilgreind á raunhæfari hátt þannig að sveitarfélögin geti sinnt sinni skyldu. Breyting er gerð á 100 ára reglu um friðun húsa og mannvirkja þannig að í stað þess að miða við 100 ár verði miðað við ákveðið ártal (1915) og bætt er inn ákvæði um eignarnámsheimild til að auðvelda framkvæmd laganna. (Haust)

 9. Frumvarp til laga um breytingu á stjórnsýslulögum, nr. 37/1993 (einföldun og samræming þagnarskylduákvæða).
 10. Skýr og einföld ákvæði um þagnarskyldu eru ein forsenda tjáningarfrelsis opinberra starfsmanna. Ef ákvæðin eru óskýr eða flókin er hættan sú að starfsmenn veigri sér við að tjá sig um málefni sem þó væri fullkomlega eðlilegt að þeir tjáðu sig um. Með frumvarpinu er lagt til að settar verði mun skýrari og einfaldari reglur en nú gilda þar sem afmarkað verði nánar inntak þagnarskyldu opinberra starfsmanna og hvaða hagsmuni þagnarskyldunni er ætlað að tryggja. Þar af leiðandi verði mun ljósara um hvaða atriði opinberum starfsmönnun er frjálst að tjá sig. (Vor)

 11. Frumvarp til laga um breytingu á upplýsingalögum, nr. 140/2012 (innleiðing tilskipunar um endurnot upplýsinga).
 12. Frumvarpinu er ætlað að innleiða tilskipun 2013/37/EB um endurnot opinberra gagna. Helstu efnisatriði tilskipunarinnar eru að gengið er lengra við að gera stjórnvöldum skylt að heimila endurnot opinberra upplýsinga, gildissvið endurnotatilskipunar 2003/98/EB er víkkað út svo að hún nái til safna, bókasafna o.þ.h., sbr. 3. mgr. 29. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, breytingar gerðar á gjaldtökuheimildum, og loks að til staðar sé úrskurðaraðili sem fari með ágreiningsmál um aðgang að opinberum upplýsingum. Innleiðing. (Vor)

 13. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um vísitölu byggingarkostnaðar, nr. 42/1987 (bætt aðferðafræði og mælitækni í útreikningi Hagstofu Íslands).
 14. Frumvarpinu er ætlað að innleiða bætta aðferðafræði og mælitækni í útreikningi vísitölunnar, sérstaklega varðandi launalið hennar. Hagstofa Íslands styðst nú við launataxta stéttarfélaga sem starfa í byggingariðnaði við mat á launakostnaði í geiranum. Fram hefur komið gagnrýni á að taxtarnir endurspegli ekki nægilega vel launakostnað í byggingariðnaði og telur Hagstofan að sú gagnrýni sé á rökum reist. Í því ljósi telur stofnunin að rétt sé að breyta núverandi aðferðafræði og mæla breytingar á launakostnaði í byggingariðnaði á hverjum tíma með beinum hætti. Breytt aðferðafræði í þessa veru myndi auka til muna gæði vísitölunnar frá því sem nú er. Ekki er unnt að ráðast í þessar breytingar án þess að núverandi lögum um vísitölu byggingarkostnaðar sé breytt. (Haust)

 15. Skýrsla forsætisráðherra um framkvæmd þingsályktana frá árinu 2014.
 16. Árleg skýrsla. (Haust)

 17. Skýrsla forsætisráðherra um málefni þjóðlendna.
 18. Árleg skýrsla. (Vor)

 19. Skýrsla forsætisráðherra um framkvæmd upplýsingalaga.
 20. Samkvæmt 3. mgr. 13. gr. upplýsingalaga skal ráðherra reglulega gefa Alþingi skýrslu um framkvæmd laganna, þar á meðal um hvað áunnist hafi varðandi aukið aðgengi almennings að upplýsingum. (Vor)


Félags- og húsnæðismálaráðherra:
 1. Frumvarp til laga um húsnæðisbætur.
 2. Frumvarpið er liður í því að jafna húsnæðisstuðning hins opinbera við ólík búsetuform og stuðla þannig að því að landsmenn hafi raunverulegt val um búsetuform og búi við öryggi í húsnæðismálum. Er frumvarpinu ætlað að bæta hag fólks á húsnæðismarkaði, einkum ungs fólks og efnaminni fjölskyldna í leiguhúsnæði. Frumvarpið byggist á tillögum verkefnisstjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála og yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um húsnæðismál til að greiða fyrir gerð kjarasamninga 28. maí sl. Endurflutt. (Haust)

 3. Frumvarp til laga um félagslegt leiguhúsnæði (stofnframlög).
 4. Í frumvarpinu er lagt til að lögfest verði ákvæði um stofnframlög ríkisins annars vegar og stofnframlög sveitarfélaga hins vegar til byggingar eða kaupa á leiguíbúðum og búsetuíbúðum sem ætlaðar eru fólki sem er undir ákveðnum tekju- og eignamörkum. Frumvarpið byggist á tillögum verkefnisstjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála og yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um húsnæðismál til að greiða fyrir gerð kjarasamninga 28. maí sl. (Haust)

 5. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 66/2003, um húsnæðissamvinnufélög.
 6. Frumvarpinu er ætlað að auðvelda húsnæðissamvinnufélögum að starfa á Íslandi samkvæmt því markmiði stjórnvalda að landsmenn búi við öryggi í húsnæðismálum í samræmi við þarfir hvers og eins og hafi raunverulegt val um búsetuform. Frumvarpið byggist á tillögum verkefnisstjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála og yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um húsnæðismál til að greiða fyrir gerð kjarasamninga 28. maí sl. Endurflutt. (Haust)

 7. Frumvarp til laga um breytingu á húsaleigulögum, nr. 36/1994.
 8. Frumvarpinu er ætlað að auka réttaröryggi leigjenda og koma á meiri festu í samskiptum leigjenda og leigusala svo að komast megi hjá ágreiningi síðar. Áhersla er áfram lögð á að um frjálsa samninga er að ræða milli leigusala og leigjanda en þeirri samningsgerð settur ákveðinn lagarammi. Frumvarpið byggist á tillögum verkefnisstjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála og yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um húsnæðismál til að greiða fyrir gerð kjarasamninga 28. maí sl. Endurflutt. (Haust)

 9. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga (skilyrði fjárhagsaðstoðar).
 10. Í frumvarpinu er lagt til að sveitarfélögum verði heimilað að setja skilyrði um virka atvinnuleit og þátttöku í virkniúrræðum þegar ákvörðuð er fjárhagsaðstoð til einstaklinga sem teljast vinnufærir. Enn fremur verði ráðherra falið að gefa út leiðbeinandi viðmiðunarfjárhæðir fjárhagsaðstoðar. Endurflutt. (Haust)

 11. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 44/1998, um húsnæðismál (EES-reglur o.fl.).
 12. Lagðar eru til breytingar til að bregðast við athugasemdum Eftirlitsstofnunar EFTA vegna ríkisaðstoðar til Íbúðalánasjóðs í því skyni að aðlaga starfsemi sjóðsins að ríkisaðstoðarreglum EES-samningsins. Enn fremur eru lagðar til breytingar til að greiða fyrir veðlánaflutningum og lánveitingum Íbúðalánasjóðs til einstaklinga sem ekki geta fengið lán til kaupa á íbúðarhúsnæði frá viðskiptabanka sínum. Innleiðing. (Haust)

 13. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 44/1998, um húsnæðismál (Íbúðastofnun).
 14. Í frumvarpinu er lagt til að ný stofnun, Íbúðastofnun, taki við hluta þeirra verkefna sem Íbúðalánasjóður hefur sinnt, m.a. veitingu stofnframlaga til byggingar eða kaupa á leiguíbúðum sem ætlaðar eru hópi leigjenda sem eru undir ákveðnum tekju- og eignamörkum. Auk þess mun stofnunin vera stjórnvöldum til ráðgjafar um mótun húsnæðisstefnu, annast söfnun, úrvinnslu og útgáfu upplýsinga á sviði húsnæðismála og meta þörf á búsetuúrræðum. Frumvarpið byggist á tillögum verkefnisstjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála og yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um húsnæðismál til að greiða fyrir gerð kjarasamninga 28. maí sl. (Haust)

 15. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 44/1998, um húsnæðismál (húsnæðislán).
 16. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir breyttu fyrirkomulagi fjármögnunar almennra húsnæðislána. Í því efni verður tekið mið af tillögum verkefnisstjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála, yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um húsnæðismál til að greiða fyrir gerð kjarasamninga 28. maí sl., nýrri veðlánaskipan ESB og gögnum um rekstrarforsendur nýrra húsnæðislánafélaga og stöðu Íbúðalánasjóðs. (Haust)

 17. Frumvarp til laga um jafna meðferð á vinnumarkaði.
 18. Frumvarpið er liður í að koma vinnumarkaðsstefnu stjórnvalda í framkvæmd en það er stefna stjórnvalda að þátttakendum á vinnumarkaði sé ekki mismunað, hvorki beint né óbeint, svo sem á grundvelli kyns, fötlunar, skertrar starfsgetu, aldurs, kynþáttar, þjóðernisuppruna, trúar, lífsskoðunar, kynhneigðar, kynvitundar eða annarra þátta. Frumvarpið mun taka mið af efni tilskipana ráðsins 2000/78/EB og 2000/43/EB. Innleiðing. (Vor)

 19. Frumvarp til laga um jafna meðferð óháð kynþætti eða þjóðernisuppruna.
 20. Frumvarpið kveður á um jafna meðferð einstaklinga óháð kynþætti eða þjóðernisuppruna á öllum sviðum samfélagsins nema á vinnumarkaði, svo sem félagslega vernd, menntun og aðgengi að vörum og þjónustu. Ákvæði frumvarpsins taka mið af þeim hluta tilskipunar 2000/43/EB sem varðar ekki vinnumarkaðinn. Innleiðing. (Vor)

 21. Tillaga til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda.
 22. Samkvæmt 7. gr. laga nr. 116/2012, um málefni innflytjenda, skal ráðherra leggja fram tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda til fjögurra ára í senn. Framkvæmdaáætlunin var unnin í fjórum vinnuhópum á vegum innflytjendaráðs og fjallaði hver þeirra um eftirtaldar stoðir áætlunarinnar: samfélagsstoð, fjölskyldustoð, menntastoð og atvinnumálastoð. Hver vinnuhópur hafði samráð við viðeigandi sérfræðinga eftir því sem þarfir og efni stóðu til. (Haust)

 23. Tillaga til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum.
 24. Samkvæmt 11. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, ber ráðherra að leggja fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára í senn að fengnum tillögum einstakra ráðuneyta, Jafnréttisstofu og Jafnréttisráðs. (Haust)

 25. Tillaga til þingsályktunar um fjölskyldustefnu.
 26. Í tillögu til þingsályktunar um fjölskyldustefnu og aðgerðaáætlun til ársins 2020 er lögð áhersla á börn og barnafjölskyldur. Byggt er á stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um fjölskylduvænt samfélag og alþjóðlegum skuldbindingum íslenska ríkisins á sviði fjölskyldu- og mannréttinda. (Haust)


Fjármála- og efnahagsráðherra:
 1. Frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2016.
 2. (Haust)

 3. Frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2015.
 4. (Haust)

 5. Frumvarp til lokafjárlaga fyrir árið 2014.
 6. (Haust)

 7. Frumvarp til laga um ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016 (safnlög).
 8. Frumvarpið felur í sér breytingar sem nauðsynlegar eru vegna samþykktar fjárlaga. Frumvarpið verður samið að höfðu samráði við önnur ráðuneyti. (Haust)

 9. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt (skattívilnanir vegna hlutabréfakaupa).
 10. Frumvarpið felur í sér skattafslátt til einstaklinga sem leggja litlum óskráðum fyrirtækjum í vexti til hlutafé. Um er að ræða ríkisstyrkjakerfi sem tilkynna ber og fá samþykki fyrir hjá Eftirlitsstofnun EFTA áður en lög um það taka gildi. (Haust)

 11. Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld (safnlög).
 12. Frumvarpið felur í sér ýmsar nauðsynlegar breytingar á lögum um skatta og gjöld, m.a. vegna athugasemda frá ESA. (Haust)

 13. Frumvarp til laga um opinber fjármál.
 14. Um er að ræða heildarlög um opinber fjármál þar sem lagðar eru til breytingar er varða stefnumótun um fjármál ríkis og sveitarfélaga, reglur um undirbúning og framkvæmd fjárlaga, ásamt því að reglur um reikningshald eru færðar nær því sem þekkist erlendis. Frumvarpið hefur verið unnið í samráði við fulltrúa hagsmunaaðila, stofnana og Alþingis og var að auki sett í opið umsagnarferli. Frumvarpið var lagt fram haustið 2014 og var ekki útrætt á vorþingi. Endurflutt. (Haust)

 15. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða (vikmörk eigna og skuldbindinga).
 16. Lagðar eru til breytingar á 39. gr. laganna um vikmörk eigna og skuldbindinga. (Haust)

 17. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða (viðurlagaákvæði).
 18. Með frumvarpinu verða lagðar til breytingar á 55. gr. laganna, þ.e. breytingar á viðurlagaákvæðum laganna. Frumvarpið verður samið af nefnd undir forystu ráðuneytisins sem í eiga sæti fulltrúar frá Fjármálaeftirlitinu, ríkissaksóknara og innanríkisráðuneyti. (Haust)

 19. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða (fjárfestingarheimildir).
 20. Fjárfestingarheimildir. (Haust)

 21. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða (viðbótartryggingavernd).
 22. Með frumvarpinu er lagt til að heimildir til þess að ráðstafa hluta af skyldubundnu iðgjaldi til viðbótartryggingaverndar, sem heimilt er að greiða þegar rétthafi er orðinn 60 ára, verði felldar brott. (Haust)

 23. Frumvarp til laga um opinber innkaup (heildarlög).
 24. Innleiðing á tilskipun um sérleyfi o.fl. (mögulega tvö frumvörp). Innleiðing. (Haust)

 25. Frumvarp til laga um ríkisaðstoð.
 26. Fyrir dyrum stendur að taka upp í EES-samninginn og samninginn um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstól ákvæði um breytingar á valdheimildum ESA þegar kemur að eftirliti með ríkisaðstoð. Samhljóða breytingar tóku gildi innan ESB í ágúst 2013, að því er varðar valdheimildir framkvæmdastjórnar ESB. Með frumvarpinu verða lögð til ákvæði um heimildir ESA vegna slíks eftirlits, m.a. um sektir og samstarf við innlenda dómstóla. Um er að ræða ákvæði sambærileg þeim sem nú er að finna í 24., 27. og 28. gr. samkeppnislaga, nr. 44/2005, og eiga við um almennt samkeppniseftirlit ESA. Jafnframt er gert ráð fyrir að með frumvarpinu verði lagt til að ákvæði sem nú er að finna í samkeppnislögum, um afturköllun ríkisaðstoðar, verði færð yfir í lög um ríkisaðstoð. Hliðsjón verður höfð af norskum lögum um sama efni. Frumvarpið var samið að höfðu samráði við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið vegna þeirra ákvæða sem lagt verður til að muni falla brott úr samkeppnislögum. Innleiðing. (Vor)

 27. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 47/2006, um kjararáð, og fleiri lögum.
 28. Með frumvarpinu verða lagðar til nokkrar breytingar á lögum um kjararáð og starfsmannalögum er varða fækkun þeirra aðila sem kjararáð ákvarðar laun og önnur starfskjör. (Haust)

 29. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 36/2001, um Seðlabanka Íslands.
 30. Nefnd var sett á fót og fékk það verkefni að ráðast í heildarendurskoðun á lögum um Seðlabanka Íslands. Nefndin skilaði áfangaskýrslu í mars 2015 og mun skila annarri skýrslu í lok ágúst 2015. (Vor)

 31. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.
 32. Starfshópi var falið árið 2013 að meta hvort endurskoða bæri lögin um vexti og verðtryggingu, sérstaklega ákvæði laganna um bann við gengistryggingu, sbr. álit ESA um það atriði. Vinnan skyldi taka mið af skýrslu Seðlabanka Íslands til efnahags- og viðskiptaráðherra frá ágúst 2012 „Varúðarreglur eftir fjármagnshöft“. Starfshópur skilaði skýrslu og drögum að frumvarpi á vordögum 2014. Frumvarpið var lagt fram á síðasta þingi en náði ekki fram að ganga. Endurflutt. (Haust)

 33. Frumvarp til laga um fasteignalán til neytenda.
 34. Frumvarpið byggist á tilskipun ESB 2014/17/ESB um lán til neytenda sem tengjast íbúðarhúsnæði. Markmið frumvarpsins er að stuðla að samfelldum innri markaði á þessu sviði ásamt því að tryggja hátt stig neytendaverndar. Hinn 10. júlí 2015 voru frumvarpsdrög, sem unnin voru af nefnd sem ráðherra skipaði, birt til umsagnar á vef ráðuneytisins. Við vinnuna var, auk tilskipunarinnar, byggt á tillögum fjármálastöðugleikaráðs ESB um ábyrgar lánveitingar. Jafnframt var horft til þeirrar innlendu stefnumótunar sem komið hefur fram undanfarin ár, s.s. tillagna að nýju húsnæðiskerfi og um framtíðarskipan fjármálakerfisins. (Haust)

 35. Frumvarp til laga um vátryggingastarfsemi (heildarlög).
 36. Markmið frumvarpsins er að vernda hagsmuni vátryggingataka með því að hafa traustan og stöðugan vátryggingamarkað. Frumvarpið er byggt á annarri gjaldþolstilskipun ESB (Solvency II). Þær breytingar sem eru settar fram í tilskipuninni eiga að miða að heilbrigðari og traustari rekstri vátryggingafyrirtækja og eiga að vernda enn betur hagsmuni vátryggingataka. Einnig eru reglur um fjárhagsgrundvöll, stjórnarhætti, eftirlitsferli og opinbera upplýsingagjöf. Tilskipunin felur í sér miklar breytingar frá núverandi lögum um vátryggingastarfsemi og þótti því tilefni til að gera ný heildarlög um vátryggingastarfsemi. Innleiðing. (Haust)

 37. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi (heildarlög).
 38. Frumvarpið er til innleiðingar á nýju samevrópsku eftirlitskerfi á fjármálamarkaði í íslenskan rétt. Með frumvarpinu verða að hluta til innleidd efnisákvæði reglugerða Evrópusambandsins nr. 1093/2010 (EBA), nr. 1094/2010 (EIOPA) og nr. 1095/2010 (ESMA). Með frumvarpinu eru leiddar í lög valdheimildir Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) samkvæmt lausn við upptöku gerðanna í EES-samninginn auk beinna eftirlitsheimilda EFTA sem byggja á ákvæðum í undirgerðum er varða beint eftirlit ESA með lánshæfismats- og afleiðuskráningarfyrirtækjum. Nefnd er að störfum við að smíða frumvarpið sem er skipuð sérfræðingum innan Stjórnarráðsins en sérfræðingar innan fjármála- og efnahagsráðuneytisins leiða að mestu starfið. Náið samráð verður haft við FME um efnistök frumvarpsins. Innleiðing. (Vor)

 39. Frumvarp til laga um viðbótareftirlit með fjármálasamsteypum.
 40. Nefnd vinnur að gerð frumvarps um viðbótareftirlit með fjármálasamsteypum sem byggist á reglugerð 2002/87/ESB um viðbótareftirlit með fjármálasamsteypum. Með frumvarpinu munu reglur Fjármálaeftirlitsins, nr. 165/2014, verða leiddar í lög. Innleiðing. (Haust)

 41. Frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.
 42. Með frumvarpinu verða gerðar breytingar á reglum laganna er varða eigið fé fjármálafyrirtækja, könnunar- og matsferli fjármálafyrirtækja (e. SREP), viðurlagaákvæðum og skilgreiningarkafla laganna. Með frumvarpinu er einnig stefnt að því að innleiða þjóðhagsvarúðarreglu 458. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 (CRR) í íslenskan rétt en meginhluti frumvarpsins mun innleiða nýtt bankaregluverk ESB í íslenskan rétt (tilskipun 2013/36/ESB og reglugerð (ESB) nr. 575/2013 (CRD IV/CRR)). Frumvarpið er að stærstum hluta samið af nefnd sem skipuð var til þess að leggja til lagabreytingar á grundvelli framangreindra Evrópugerða. Í nefndinni sitja fulltrúar frá Fjármálaeftirlitinu, Samtökum fjármálafyrirtækja og Seðlabanka Íslands. Innleiðing. (Haust)

 43. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki (útibú, samstæðueftirlit og uppljóstrun).
 44. Frumvarpið felur í sér breytingar á reglum um starfsemi útibúa fjármálafyrirtækja og þjónustustarfsemi á EES-svæðinu, reglum um samstæðueftirlit og nýjar reglur um uppljóstrun (e. whistle-blowing). Meginhluti frumvarpsins varðar breytingar á lögum í samræmi við nýtt bankaregluverk Evrópusambandsins (CRD IV/CRR). Frumvarpið verður samið að höfðu samráði við FME, SFF og Seðlabanka Íslands. Innleiðing. (Vor)

 45. Frumvarp til laga um rekstraraðila sérhæfðra sjóða.
 46. Frumvarpið byggist á tilskipun ESB um fagfjárfestasjóði nr. 2011/61 (e. Alternative Investment Fund Managers). Með tilskipuninni er í fyrsta sinn sett heildarumgjörð utan um rekstraraðila sérhæfðra sjóða. Tilskipunin hefur ekki enn verið tekin upp í EES-samninginn en með hliðsjón af auknum umsvifum slíkra sjóða hér á landi og sökum þess að regluverki er ábótavant er það mat ráðuneytisins að setja þurfi sérstök heildarlög um starfsemi þeirra og jafnframt að fella þá brott kaflann um fagfjárfestasjóði í núverandi lögum, nr. 128/2011. Frumvarpið verður samið að höfðu samráði við FME og SFF. (Haust)

 47. Frumvarp til laga um afleiðuviðskipti.
 48. Frumvarpinu er ætlað að auka gagnsæi viðskipta með svokallaðar OTC-afleiður og draga úr mótaðila- og rekstraráhættu vegna samninga með þær auk þess að auka virkni afleiðumarkaða með skilvirkari ferlum. Frumvarpið felur í sér eftirfarandi fjögur meginatriði: kröfu um greiðslujöfnun allra staðlaðra OTC-afleiðusamninga í gegnum miðlægan mótaðila, tilkynna skal öll afleiðuviðskipti til afleiðuviðskiptaskráningar (OTC og aðrar afleiður), víðtækar kröfur um áhættustýringu vegna afleiðna sem ekki eru greiðslujafnaðar í gegnum miðlægan mótaðila og umgjörð um starfsemi miðlægra mótaðila og afleiðuviðskiptaskráningar. Frumvarpið er unnið af nefnd sem ráðherra skipaði og felur í sér innleiðingu á reglugerð 648/2012/EB (EMIR) um afleiðuviðskipti. Innleiðing. (Vor)

 49. Frumvarp til laga um skortsölu.
 50. Frumvarpið felur í sér nýjar kröfur um tilkynningarskyldu vegna skortstaðna sem fara yfir ákveðin stærðarmörk, kveðið er á um takmarkanir á óvarðri skortsölu og er eftirlitsaðilum veitt heimild til að banna tímabundið skortsölu eða birta opinberlega skortstöðu tiltekins aðila kalli aðstæður á slíkt. Í dag eru engar almennar reglur til um skortsölu fjármálagerninga hér á landi. Ákvæði reglugerðarinnar fela því í sér nýmæli að íslenskum rétti. Frumvarpið er unnið af nefnd sem ráðherra skipaði og felur í sér innleiðingu á reglugerð (ESB) nr. 236/2012 um skortsölu. Innleiðing. (Vor)

 51. Frumvarp til laga um lánshæfismatsfyrirtæki (CRA).
 52. Frumvarpið byggist á þremur reglugerðum Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1060/2009, nr. 513/2011 og nr. 462/2013 um lánshæfismatsfyrirtæki. Efnisreglur gerðanna eiga að tryggja að öll lánshæfismöt sem gefin eru út af matsfyrirtækjum sem eru skráð innan Evrópusambandsins séu af sambærilegum gæðum og unnin með samræmdum hætti. Sú framkvæmd stuðlar að aukinni fjárfestavernd og stöðugleika fjármálamarkaða. Eftirlit með lánshæfismatsfyrirtækjum verður í meginatriðum hjá Eftirlitsstofnun EFTA samkvæmt nýrri lausn sem unnið er að vegna upptöku reglugerða um eftirlitsstjórnvöld á fjármálamarkaði. Innleiðing. (Vor)

 53. Frumvarp til laga um innstæðutryggingar.
 54. Frumvarpið byggist á tilskipun ESB um innstæðutryggingakerfi (e. DGS) nr. 49/2014 sem leysir af hólmi tvær eldri tilskipanir, 19/1994 og 14/2009. Markmið tilskipunarinnar er að tryggja einsleitni bæði gagnvart lánastofnunum sem og innstæðueigendum. Er henni náð með sama regluverkinu á öllum innri markaðnum. Stefnt er að því að unnt verði að leggja frumvarpið fram samhliða frumvarpi til laga um skilameðferð fjármálafyrirtækis, enda er gert ráð fyrir aðkomu innstæðutryggingakerfisins að skilameðferð fjármálafyrirtækja. Á þessu stigi hefur ekki verið tekin afstaða til þess hvort samhliða verði unnið að endurskoðun á ákvæðum um tryggingakerfi fyrir fjárfesta (verðbréfaeigendur). Innleiðing. (Vor)

 55. Frumvarp til laga um slita- og skilameðferð fjármálafyrirtækja.
 56. Frumvarpið byggist á tilskipun 2014/59/ESB, um skilameðferð fjármálafyrirtækis (e. BRRD). Auk þess að byggja á ákvæðum tilskipunarinnar verður farið gagngert yfir XII. kafla laga um fjármálafyrirtæki (endurskipulagning fjárhags, slit og samruni fjármálafyrirtækja) og viðeigandi ákvæði laga um gjaldþrotaskipti o.fl. með það að markmiði að sett verði sjálfstæð heildarlög um skilameðferð fyrirtækja á fjármálamarkaði til þess að tryggja að kostnaður af erfiðleikum, eða hruni, slíkra fyrirtækja lendi ekki á sameiginlegum sjóðum almennings. Innleiðing. (Vor)

 57. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, og lögum nr. 2/1997, um Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga.
 58. Með frumvarpinu verða lagðar til breytingar sem eiga að endurspegla niðurstöður viðræðna opinberra launagreiðenda og opinberra starfsmanna um breytingar á fyrirkomulagi lífeyrismála. (Vor)

 59. Tillaga til þingsályktunar um meginskiptingu útgjalda fjárlaga næsta fjárlagaárs (ramma), svo og greinargerð um breytingar á tekjuöflun ríkisins.
 60. Með tillögunni skal fylgja áætlun um ríkisfjármál næstu þriggja ára þar á eftir. Tillögunni skal vísa til fjárlaganefndar eftir fyrri umræðu. Nefndin getur leitað til annarra nefnda um einstök atriði tillögunnar eftir því sem hún ákveður hverju sinni og setur þá fresti til afgreiðslu umsagna annarra nefnda, sbr. 6. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991. (Vor)


Heilbrigðisráðherra:
 1. Frumvarp til laga um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.
 2. Frumvarp til laga um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Í frumvarpinu er kveðið á um réttindi barns, staðgöngumóður og verðandi foreldra. Endurflutt. (Haust)

 3. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 112/2008, um sjúkratryggingar, og lyfjalögum, nr. 93/1994 (heilbrigðisþjónusta yfir landamæri).
 4. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um sjúkratryggingar og lyfjalögum vegna tilskipunar Evrópusambandsins 2011/24 um rétt sjúklinga til að leita sér heilbrigðisþjónustu yfir landamæri. Innleiðing. Endurflutt. (Haust)

 5. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 112/2008, um sjúkratryggingar, lögum nr. 100/2007, um almannatryggingar, og lögum nr. 125/1999, um málefni aldraðra (samningar).
 6. Í frumvarpinu verða lagðar til breytingar á ákvæðum laganna vegna samninga sjúkratryggingastofnunar um hjúkrunar-, dvalar- og dagdvalarrými. (Haust)

 7. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu, og lögum nr. 96/1995, um gjald af áfengi og tóbaki (lýðheilsusjóður).
 8. Í frumvarpinu verða lagðar til breytingar á ákvæðum um lýðheilsusjóð, m.a. um yfirstjórn hans og um ráðstöfun tóbaks- og áfengisgjalds. (Haust)

 9. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 16/2001, um lækningatæki (gjaldtaka).
 10. Lagðar verða til breytingar á ákvæðum laganna um gjaldtöku vegna eftirlits með lækningatækjum. (Haust)

 11. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 112/2008, um sjúkratryggingar (greiðsluþátttökukerfi heilbrigðisþjónustu).
 12. Í frumvarpinu verður lagt til að fella læknis-, rannsóknar-, sjúkraþjálfunar- og annan kostnað vegna heilbrigðisþjónustu, að frátöldum lyfjakostnaði, undir eitt niðurgreiðslu- og afsláttarfyrirkomulag. Sett verði þak á þátttöku einstaklings í heilbrigðiskostnaði hvort sem kostnaðurinn fellur til utan eða innan heilbrigðisstofnana og hver sem þörf hans er fyrir heilbrigðisþjónustu. (Haust)

 13. Frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 6/2002, um tóbaksvarnir.
 14. Lagðar verða til breytingar vegna tilskipunar Evrópusambandsins 2014/40/ESB um samræmingu ákvæða í lögum og stjórnsýslufyrirmælum aðildarríkjanna varðandi framleiðslu, kynningu og sölu á tóbaki og tengdum vörum og um niðurfellingu á tilskipun 2001/37/EB. Í tilskipuninni er m.a. að finna ákvæði um rafsígarettur, bann við að setja á markað tóbaksvörur með einkennandi bragði og breyttar reglur um merkingar á tóbaksvörum. Innleiðing. (Vor)

 15. Frumvarp til lyfjalaga.
 16. Frumvarpið felur í sér heildarendurskoðun lyfjalaga með tilliti til stefnumörkunar ráðherra og þeirra breytinga sem orðið hafa á Evrópulöggjöfinni í þeim tilgangi að tryggja landsmönnum nægilegt framboð af nauðsynlegum lyfjum með sem hagkvæmastri dreifingu þeirra á grundvelli eðlilegrar samkeppni og í samræmi við þær reglur sem gilda á hinu Evrópska efnahagssvæði. Innleiðing. (Vor)

 17. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 125/1999, um málefni aldraðra (endurskoðun ákvæða sem heyra undir heilbrigðisráðherra).
 18. Í frumvarpinu verður lagt til að ákvæði sem varða heilbrigðisþjónustu, þar á meðal hjúkrunarheimili, dvalarheimili, dagdvöl aldraðra og Framkvæmdasjóð aldraðra, verði endurskoðuð og felld undir löggjöf á sviði heilbrigðisþjónustu. (Vor)

 19. Tillaga til þingsályktunar um geðheilbrigðisstefnu.
 20. Í tillögunni er gerð grein fyrir stefnu í geðheilbrigðismálum og aðgerðaáætlun. (Haust)

 21. Tillaga til þingsályktunar um heilbrigðisstefnu til ársins 2020.
 22. Í þingsályktunartillögunni er leitast við að móta skýra framtíðarsýn í heilbrigðismálum þjóðarinnar. Þar er m.a. gerð grein fyrir aðgerðum sem ætlað er að bæta almennt heilsufar þjóðarinnar og tryggja að íbúar landsins búi við sem jafnastan kost í heilsufarslegum efnum. (Haust)

 23. Skýrsla heilbrigðisráðherra um mótun stefnu til að draga úr skaðlegum afleiðingum vímuefnaneyslu.
 24. Í skýrslunni verður gerð grein fyrir heildarstefnu til að draga úr skaðlegum afleiðingum og hliðarverkunum vímuefnaneyslu, til verndar neytendum efnanna, aðstandendum þeirra og samfélaginu í heild. (Haust)


Iðnaðar- og viðskiptaráðherra:
 1. Frumvarp til laga um almannaheillasamtök.
 2. Frumvarp til laga um þau frjálsu félagasamtök sem talist geta almannaheillasamtök. Markmið frumvarpsins er að skjóta traustari stoðum undir starfsemi slíkra félagasamtaka. (Haust)

 3. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 85/2007, um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald.
 4. Frumvarpinu er ætlað að einfalda ferli við veitingu rekstrarleyfis fyrir veitinga- og gististaði í samræmi við skýrslu um einföldun regluverks í ferðaþjónustu. Frumvarpið er að hluta endurflutt frá síðasta þingi en hefur þó tekið nokkrum breytingum. Endurflutt. (Haust)

 5. Frumvarp til laga um sölu ökutækja.
 6. Í kjölfar ábendinga frá Félagi íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB) og Bílgreinasambandinu um þörf á endurskoðun laga nr. 28/1998, um verslunaratvinnu, að því er varðar IV. kafla laganna sem fjallar um sölu notaðra ökutækja, ákvað iðnaðar- og viðskiptaráðherra að skipa nefnd til að endurskoða löggjöfina á þessu sviði. Nefndinni er ætlað að endurskoða eftirlit með bifreiðasölum og skerpa á reglum sem gilda um þá. (Haust)

 7. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 3/2006, um ársreikninga.
 8. Innleiðing á nýrri tilskipun um ársreikninga. Einföldun regluverks fyrir lítil félög. Innleiðing. (Haust)

 9. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 2/1995, um hlutafélög, og lögum nr. 138/1994, um einkahlutafélög (einföldun).
 10. Í samræmi við áherslur ríkisstjórnarinnar um einföldun regluverks er unnið að endurskoðun á framangreindum lögum með tilliti til einföldunar. (Vor)

 11. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 73/2005, um skipan ferðamála (stefnumótun).
 12. Á vegum iðnaðar- og viðskiptaráðherra er unnið að nýrri stefnumótun í ferðaþjónustu. Stefnan verður kynnt í september en gera má ráð fyrir að í kjölfar hennar verði ráðist í breytingar á lögum um skipan ferðamála. (Vor)

 13. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 2/1995, um hlutafélög, og lögum nr. 138/1994, um einkahlutafélög (kennitöluflakk).
 14. Á vegum iðnaðar- og viðskiptaráðherra er unnið að útfærslu á leiðum til að fá yfirlit yfir umfang kennitöluflakks og stemma stigu við því. Hluti af þeim tillögum felur í sér breytingar á lögum um hlutafélög og einkahlutafélög. (Vor).

 15. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 43/1999, um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.
 16. Endurskoðun á ýmsum þáttum laganna. (Haust)

 17. Frumvarp til laga um tímabundnar endurgreiðslur vegna hljóðritunar tónlistar á Íslandi.
 18. Markmið frumvarpsins er að efla tónlistariðnaðinn á Íslandi með því að veita útgefendum hljóðrita tímabundinn rétt til endurgreiðslu hluta kostnaðar sem fellur til við hljóðritun tónlistar hér á landi. (Vor)

 19. Frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum á sviði orkumála (lagahreinsun).
 20. Með frumvarpinu eru felld úr gildi ýmis sérlög um einstök orkufyrirtæki, þar sem viðkomandi lög eru ekki lengur virk (lagahreinsun). (Vor)

 21. Tillaga til þingsályktunar um aðgerðaáætlun vegna orkuskipta í samgöngum.
 22. Í framhaldi af skýrslu sem ráðherra lagði fram á 144. löggjafarþingi um orkuskipti í samgöngum verður lögð fram tillaga til þingsályktunar um aðgerðaáætlun. (Vor)

 23. Skýrsla ráðherra um raforkumálefni.
 24. Skýrslan er lögð fram á tveggja ára fresti í samræmi við ákvæði raforkulaga. Síðast lögð fram 15. maí 2014. (Vor)


Innanríkisráðherra:
 1. Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum varðandi hugtakanotkun vegna samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
 2. Frumvarpið er bandormur og felur í sér breytingar á ýmsum lögum sem heyra undir fleiri ráðuneyti en innanríkisráðuneytið. Það er lagt fram til þess að laga hugtakanotkun í lagasafninu að nútímalegri viðmiðum í ljósi mannréttinda fatlaðs fólks. Endurflutt. (Haust)

 3. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 64/2006, um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
 4. Markmið frumvarpsins er að styrkja regluverk er snýr að peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, auk þess að samræma löggjöf við tilmæli alþjóðlega framkvæmdahópsins FATF. Gerð verður ríkari krafa um áreiðanleikakannanir af hálfu tilkynningarskyldra aðila. Lagt er til að gerð þeirra miðist við tiltekna viðmiðunarfjárhæð. Einnig er lagt til að tilkynningarskyldir aðilar beri kennsl á raunverulegan eiganda fjár og að fjármálastofnanir hafi virkt eftirlit með því hvort viðskiptavinir komi fram í eigin nafni. Endurflutt. (Haust)

 5. Frumvarp til laga um dómstóla og um breytingu á lögum nr. 91/1991, um meðferð einkamála, og lögum nr. 88/2008, um meðferð sakamála (millidómstig).
 6. Með frumvarpinu er lagt til að sett verði á fót nýtt dómstig, millidómstig sem taki bæði til meðferðar sakamála og einkamála. (Haust)

 7. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 45/1996, um mannanöfn.
 8. Markmið frumvarpsins er að rýmka reglur um mannanöfn. (Haust)

 9. Frumvarp til laga um breytingu á þinglýsingalögum, nr. 39/1978, o.fl. (rafrænar þinglýsingar).
 10. Með frumvarpinu eru gerðar breytingar á þinglýsingalögum og öðrum lögum svo unnt sé að gera þinglýsingar á veðskjölum rafrænar. (Haust)

 11. Frumvarp til laga um útlendinga (heildarendurskoðun).
 12. Frumvarpið felur í sér heildarendurskoðun á lögum um útlendinga. (Haust)

 13. Frumvarp til laga um fullnustu refsinga (heildarendurskoðun).
 14. Frumvarpið felur í sér heildarendurskoðun á gildandi lögum nr. 49/2005, um fullnustu refsinga. Á þeim níu árum sem núverandi löggjöf hefur verið í gildi hefur reynt á ýmis atriði við túlkun laganna, fjölgað hefur í fangelsum, fangahópurinn breyst og þá hafa nýjar evrópskar fangelsisreglur tekið gildi en um er að ræða mannréttindareglur sem hafa ekki lagagildi hér á landi en lönd Evrópu, þar á meðal Ísland, reyna að miða við. Loks hafa innlendar eftirlitsstofnanir gert athugasemdir í skýrslum sínum við gildandi rétt og verið er að koma til móts við þær athugasemdir í frumvarpinu. Frumvarpið er mun ítarlegra en gildandi löggjöf, stjórnsýslu fangelsismála er gerð betri skil og var það haft að markmiði við samningu frumvarpsins að gera reglur skýrari og styrkja lagastoð ýmissa fullnustuákvæða. (Haust)

 15. Frumvarp til laga um brottfall laga nr. 8/2005, um þriðju kynslóð farsíma.
 16. Tilgangur frumvarpsins er að aðlaga nýtingu á 2100 MHz tíðnisviðinu að alþjóðlegum skuldbindingum og þörfum markaðarins. Í dag er þetta tíðnisvið frátekið fyrir þriðju kynslóð farsíma (IMT-2000/UMTS staðlar), samkvæmt sérstökum lögum nr. 8/2005, um þriðju kynslóð farsíma. Síðan lögin voru sett hefur orðið þróun í tækni og eftirspurn á tíðnisviðum fyrir farnetsþjónustur. Þannig er umrætt tíðnisvið ekki lengur frátekið fyrir þriðju kynslóð farsíma innan Evrópu, heldur hefur það verið gert tæknilega hlutlaust, m.a. til að koma til móts við aukna eftirspurn á tíðnisviði fyrir fjórðu kynslóð farnetsþjónustu. Lög nr. 8/2005, um þriðju kynslóð farsíma, binda hins vegar nýtingu tíðnisviðsins við eldri tækni í farnetsþjónustu og mæla fyrir um sérstaka málsmeðferð og tiltekin skilyrði fyrir úthlutun tíðniheimilda, sem í dag þykja ekki þjóna tilgangi sínum. Til að hægt sé að nýta og úthluta með skynsamlegum hætti þær tíðnir, sem enn eru lausar til ráðstöfunar á 2100 MHz tíðnisviðinu, er nauðsynlegt að fella úr gildi umrædd lög um þriðju kynslóð farsíma. (Haust)

 17. Frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940 (samningur Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi).
 18. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ákvæðum almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, og laga nr. 25/1975, um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir, vegna innleiðingar svokallaðs Istanbúl-samnings. Í frumvarpinu er lagt til að sett verði sérstakt ákvæði í almenn hegningarlög um ofbeldi í nánum samböndum eða heimilisofbeldi. Einnig verði gert refsivert að neyða einhvern í hjúskap auk þess sem gerðar eru breytingar á lögsögu og fyrningarreglum laganna. (Haust)

 19. Frumvarp til laga um flutning verkefna til sýslumannsembætta.
 20. Í bráðabirgðaákvæði III í lögum nr. 50/2014, um framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í héraði, sem öðluðust gildi 1. janúar 2015 segir: „Við samþykkt laga þessara skal ráðherra í samstarfi við forsætisráðherra láta semja aðgerðaáætlun fyrir Stjórnarráðið þar sem afmörkuð skulu þau stjórnsýsluverkefni ráðuneyta og undirstofnana þeirra sem talið er ákjósanlegt að flutt verði til embætta sýslumanna. Skal aðgerðaáætlun um flutning tilgreindra verkefna liggja fyrir ekki síðar en 1. janúar 2015.“ Markmið frumvarpsins er flutningur verkefna til sýslumannsembættanna á grundvelli aðgerðaáætlunar. (Haust)

 21. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 52/2006, um Landhelgisgæslu Íslands.
 22. Markmið með frumvarpinu er að styrkja lagaheimildir Landhelgisgæslu Íslands til þess að taka þátt í samstarfsverkefnum erlendis í samræmi við ábendingar Ríkisendurskoðunar. (Haust)

 23. Frumvarp til laga um handtöku og afhendingu manna til og frá Íslandi.
 24. Mótun heildarlöggjafar um skilyrði handtöku og afhendingar manna vegna refsiverðrar háttsemi á milli Íslands, Norðurlandanna og aðildarríkja Evrópusambandsins. Lagt er til að sameinuð verði í einni löggjöf ákvæði laga nr. 12/2010, um handtöku og afhendingu manna milli Norðurlandanna vegna refsiverðra verknaða (norræn handtökuskipun), og ný lagaákvæði sem leiðir af skuldbindingum Íslands vegna evrópsku handtökuskipunarinnar. Endurflutt með breytingum. (Haust)

 25. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 50/2004, um siglingavernd, lögum nr. 60/1998, um loftferðir, vopnalögum, nr. 16/1998, og lögreglulögum, nr. 90/1996.
 26. Meginbreytingar frumvarpsins lúta í fyrsta lagi að aðgangstakmörkunum á haftasvæði flug- og siglingaverndar, þ.m.t. veitingu aðgangsheimilda og framkvæmd bakgrunnsskoðana, í öðru lagi að skýrari refsiákvæðum vegna innbrota á haftasvæðin, þ.m.t. hækkun refsiramma, og í þriðja lagi að heimila flugrekendum að gera viðeigandi ráðstafanir í samræmi við ákvæði Chicago-samningsins um borgaralegt flug, frá 7. desember 1944, sem Ísland hefur gerst aðili að og felur m.a. í sér skuldbindingar þess efnis að flugrekendur og áhafnir um borð í loftförum geti gert fullnægjandi öryggisráðstafanir um borð í loftförum. Endurflutt með breytingum. (Haust)

 27. Frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna flutnings netöryggissveitar til ríkislögreglustjóra.
 28. Tilgangur frumvarpsins er að stuðla að auknu net- og upplýsingaöryggi með því að færa starfsemi netöryggissveitar frá Póst- og fjarskiptastofnun til ríkislögreglustjóra og víkka út starfssvið sveitarinnar. Lagt verður til að hlutverk sveitarinnar nái ekki eingöngu til fjarskiptafyrirtækja eins og nú er heldur sinni sveitin einnig öðrum mikilvægum innviðum samfélagsins, þ.m.t. stjórnkerfinu (geti sinnt hlutverki svokallaðrar „GovCERT“-sveitar) og geti veitt þjónustu allan sólarhringinn, alla daga ársins. (Haust)

 29. Frumvarp til laga um breytingu á umferðarlögum, nr. 50/1987.
 30. Um er að ræða EES-innleiðingar vegna tveggja ESB-reglugerða, annars vegar reglugerðar (ESB) nr. 167/2013, um gerðarviðurkenningar dráttarvéla, og hins vegar reglugerðar (ESB) nr. 168/2013/ESB, um gerðarviðurkenningar bifhjóla. Báðar gerðirnar gera þær kröfur til aðildarríkjanna að þau sekti framleiðanda, fulltrúa framleiðanda, innflytjanda eða dreifingaraðila ökutækja ef þeir framvísa röngum upplýsingum um gerðarviðurkenningu til gerðarviðurkenningaraðila sem leitt geta til innköllunar ökutækja, einnig ef fölsuðum prófunarniðurstöðum er framvísað, gögnum sem varða tækniupplýsingar er leynt eða neitað er að afhenda þær. Með frumvarpinu er búin til fullnægjandi lagastoð fyrir slíkri sekt. Fyrirséð er að sektarheimildin muni þó hafa óbein áhrif hér á landi í ljósi þess að hérlendis eru ekki til staðar framleiðendur dráttarvéla né framleiðendur bifhjóla. Þá annast innflytjendur ökutækja hér á landi ekki gerðarviðurkenningar ökutækja enn sem komið er. Að auki er gerð breyting á skilgreiningu bifhjóls og torfærutækis í samræmi við ESB-reglugerð 168/2013/ESB. Sú breyting er ívilnandi. Innleiðing. (Haust)

 31. Frumvarp til laga um húsgöngu- og fjarsölusamninga.
 32. Með frumvarpinu er lagt til að innleidd verði ný tilskipun um húsgöngu- og fjarsölusamninga sem leysir af hólmi eldri gerð um sama efni. Upplýsingaskylda seljenda er gerð ítarlegri og nákvæmari auk þess sem neytendum eru veitt ýmis réttarúrræði vegna slíkra samninga. Ekki er gert ráð fyrir að verulegur fjárhagslegur eða stjórnsýslulegur kostnaður leiði af innleiðingu tilskipunarinnar hér á landi. Innleiðing. (Haust)

 33. Frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum er varða happdrætti.
 34. Frumvarpið er bandormur og varðar starfsleyfi viðkomandi happdrætta. Tilgangur frumvarpsins er að framlengja starfsleyfi tiltekinna félaga til 1. janúar 2034. Um er að ræða breytingu á lögum nr. 26/1986, um talnagetraunir, lögum nr. 13/1973, um Happdrætti Háskóla Íslands, lögum nr. 16/1973, um happdrætti Dvalarheimilis aldraðra sjómanna, og lögum nr. 18/1959, um happdrætti fyrir Samband íslenskra berkla- og brjóstholssjúklinga. (Haust)

 35. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga.
 36. Lagðar eru til tilteknar afmarkaðar breytingar á lögum um tekjustofna sveitarfélaga. Endurflutt með breytingum. (Haust)

 37. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 32/2004, um vatnsveitur sveitarfélaga (grundvöllur vatnsgjalds).
 38. Markmið frumvarpsins er að tryggja með ótvíræðum hætti heimildir veitufyrirtækja sveitarfélaganna til að innheimta gjöld fyrir þá almannaþjónustu sem þær veita. (Haust)

 39. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 62/1994, um mannréttindasáttmála Evrópu (fullgilding viðauka 15).
 40. Viðaukinn varðar tilteknar breytingar á starfsemi Mannréttindadómstóls Evrópu. (Haust)

 41. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 100/1952, um íslenskan ríkisborgararétt.
 42. Markmið frumvarpsins er að breyta lögum nr. 100/1952, um íslenskan ríkisborgararétt, vegna fullgildingar á samningum Sameinuðu þjóðanna um ríkisfangsleysi frá 1954 og 1961. (Haust)

 43. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 91/1991, um meðferð einkamála (gjafsókn).
 44. Í frumvarpinu er lögð til breyting á fyrirkomulagi á meðferð gjafsóknarmála. Í samræmi við bráðabirgðaákvæði í lögum nr. 50/2014, um framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í héraði, er lagt til að sýslumanni verði falið að taka við umsóknum um gjafsókn og taka ákvörðun um hvort gjafsókn verði veitt eða hafnað. Synjun sýslumanns um gjafsókn verði unnt að kæra til sérstakrar úrskurðarnefndar sem taki endanlega ákvörðun um veitingu gjafsóknar á stjórnsýslustigi. Sýslumanninum á Vesturlandi hefur nú þegar verið falið að vera gjafsóknarnefnd til aðstoðar við vinnslu umsókna sem og að annast greiðslu reikninga vegna gjafsóknarmála. (Haust)

 45. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 90/1991, um nauðungarsölu.
 46. Lagt er til að lögunum verði breytt þannig að leigjanda verði gert kleift að vera áfram í fasteign sem seld hefur verið nauðungarsölu með sama hætti og þeim sem verið hefur eigandi að fasteign sem seld hefur verið nauðungarsölu. Frumvarpið á rætur að rekja til athugasemda Neytendasamtakanna um að sams konar heimild þurfi fyrir leigjendur og fyrrum eigendur fasteigna til að vera áfram í eign sem seld hefur verið nauðungarsölu. (Haust)

 47. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 88/2008, um meðferð sakamála (skilyrði fyrir beitingu úrræða skv. XI. kafla).
 48. Markmið frumvarpsins er að heimildir til beitingar símhlerana og annarra þvingunarúrræða við rannsókn sakamála verði skýrari og að eftirlit með beitingu þessara úrræða verði markvissara og öflugra. Endurflutt með breytingum. (Haust)

 49. Frumvarp til laga um póstþjónustu.
 50. Afnám einkaréttar í póstþjónustu í samræmi við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/6/EB (þriðja pósttilskipunin). Íslenska ríkið fer með einkarétt á Íslandi en hefur falið Íslandspósti ohf. að annast hann. Einkaréttur Íslandspósts er á: póstþjónustu vegna bréfasendinga allt að 50 g að þyngd, útgáfu frímerkja, uppsetningu póstkassa á almannafæri og að nota einkennismerkið póstlúður. Innleiðing. (Vor)

 51. Frumvarp til laga um farþegaflutninga á landi í atvinnuskyni.
 52. Markmið frumvarpsins er að setja heildstæð lög um farþegaflutninga og aðlaga löggjöfina EES-rétti. Reynt er að færa skipulag almenningssamgangna nær notendum og hagsmunaaðilum með því að koma á samráðsvettvangi. Lagt er til að Vegagerðinni verði heimilt að framselja einkarétt á reglubundnum farþegaflutningum til landshlutasamtaka sveitarfélaga. Einnig eru lagðar til breytingar frá gildandi lögum um leigubifreiðar. Einkaleyfishöfum, sem sinna reglubundnum farþegaflutningum á ákveðnum leiðum, verður heimilt að nota bíla sem taka færri en níu farþega og Samgöngustofa fær heimild til að veita sérstök leyfi til þjónustu við ferðamenn á bifreiðum fyrir átta manns eða færri. Einnig er að finna í frumvarpinu almenn ákvæði um leyfisveitingar. Endurflutt með breytingum. (Vor)

 53. Frumvarp til laga um farmflutninga á landi.
 54. Markmið frumvarpsins er að gera nauðsynlegar breytingar á gildandi lögum í tengslum við lögfestingu heildarlöggjafar um farþegaflutninga á landi í atvinnuskyni og mæta þörf á auknu eftirliti með farmflutningum, einnig að lögfesta nauðsynlegar breytingar vegna EES-samningsins. Í frumvarpinu er að finna auknar heimildir til Samgöngustofu til að hafa eftirlit og framfylgja því að þeir sem stunda farmflutninga gegn endurgjaldi séu með rekstrarleyfi. Endurflutt með breytingum. (Vor)

 55. Frumvarp til laga um vopn, sprengiefni og skotelda.
 56. Markmið frumvarpsins er að tryggja örugga meðferð vopna, sprengiefna og skotelda og að efla eftirlit og tryggja lögmæta meðferð vopna á Íslandi. Innleiðing. (Vor)

 57. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 18/2013, um rannsókn samgönguslysa.
 58. Frumvarpið er innleiðing á tilskipun um rannsókn sjóslysa og Evrópureglugerðar um rannsókn flugslysa. Í dag er ósamræmi á milli laganna og tilskipunarinnar. Innleiðing. (Vor)

 59. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 50/2000, um lausafjárkaup, o.fl.
 60. Tilgangur frumvarpsins er fyrst og fremst að rýmka lögsögu kærunefndar vegna innleiðingar tilskipunar um úrlausnarleiðir neytenda utan dómstóla. Þar er mælt fyrir um að neytendur eigi alltaf möguleika á að leita með deilur sínar við seljendur til kærunefnda. Innleiðing. (Vor)

 61. Frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940 (öryggisráðstafanir).
 62. Um er að ræða endurskoðun á ákvæðum almennra hegningarlaga um vistun ósakhæfra brotamanna. Við vinnslu frumvarpsins verður höfð til hliðsjónar vinna samvinnuhóps á vegum velferðarráðuneytisins um öryggisvistun. (Vor)

 63. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 90/1989, um aðför, o.fl. (Höfðaborgarsamningur).
 64. Um er að ræða nauðsynlegar breytingar á lögum um aðför og öðrum lögum vegna innleiðingar á svokölluðum Höfðaborgarsamningi um alþjóðleg réttindi í hreyfanlegum tækjum og bókun er varðar loftför og búnað í loftförum. (Vor)

 65. Frumvarp til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum, nr. 138/2011 (takmarkanir á erlendum lántökum).
 66. Með frumvarpinu er lagt til að erlendum lántökum sveitarfélaga, stofnana og fyrirtækja þeirra verði sett ákveðin mörk. (Vor)

 67. Frumvarp til laga um breytingu á lögreglulögum, nr. 90/1996 (meðferð kvartana og kærumála vegna starfa lögreglu).
 68. Frumvarpinu er ætlað að kveða með skýrum hætti á um meðferð kvartana og kærumála vegna starfa lögreglu og koma þeim málum í skýran farveg. Einnig er brugðist við ábendingum umboðsmanns Alþingis og ríkissaksóknara. (Vor)

 69. Tillaga til þingsályktunar um samgönguáætlun 2015–2026.
 70. Í lögum um samgönguáætlun segir að innanríkisráðherra skuli á fjögurra ára fresti leggja fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun þar sem mörkuð skal stefna og markmið fyrir allar greinar samgangna næstu tólf árin. Jafnframt skal m.a. meta og taka tillit til þarfa ferðaþjónustunnar fyrir bættar samgöngur. Samgönguáætlun tekur til fjáröflunar og útgjalda til allra greina samgangna, þ.e. flugmála, vegamála og siglingamála, þ.m.t. almenningssamgangna, hafnamála, sjóvarna, öryggismála og umhverfismála samgöngugreina. Þar skal skilgreina það grunnkerfi sem ætlað er að bera meginþunga samgangna og gera skal grein fyrir ástandi og horfum í samgöngum í landinu. Við gerð samgönguáætlunar skal m.a. byggja á þeim meginmarkmiðum að samgöngur séu greiðar, hagkvæmar, öruggar og umhverfislega sjálfbærar auk þess sem þær stuðli að jákvæðri byggðaþróun. Endurflutt með breytingum. (Haust)

 71. Tillaga til þingsályktunar um samgönguáætlun 2015–2018.
 72. Í fjögurra ára áætlun er sundurliðuð ábyrgð og fjárheimildir fyrir hvert ár tímabilsins, fyrir hverja stofnun og fyrirtæki samgöngumála sem eiga undir innanríkisráðuneytið. Gerð skal grein fyrir fjáröflun og útgjöld skulu sundurliðuð eftir einstökum framkvæmdum, rekstri, þjónustu og viðhaldi eftir því sem við á. Í fjögurra ára áætlun skal m.a. vera sundurliðun í samræmi við uppsetningu fjárlaga. Tekjur og gjöld fjögurra ára áætlunar skulu rúmast innan ramma samgönguáætlunar. (Haust)

 73. Tillaga til þingsályktunar um fjarskiptaáætlun 2015–2018.
 74. Í fjarskiptaáætlun skal jafnframt mörkuð aðgerðaáætlun til næstu fjögurra ára, og leggur ráðherra fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um slíka áætlun. Aðgerðaáætlun skal endurskoðuð á tveggja ára fresti og má þá leggja nýja þingsályktunartillögu fyrir Alþingi, en það skal gert eigi sjaldnar en á fjögurra ára fresti. Í fjögurra ára áætlun skal gera grein fyrir fjáröflun og útgjöldum eftir einstökum verkefnum eins og við á. (Haust)

 75. Tillaga til þingsályktunar um fjarskiptaáætlun 2015–2026.
 76. Í fjarskiptalögum segir að innanríkisráðherra skuli á fjögurra ára fresti leggja fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um fjarskiptaáætlun þar sem mörkuð skal stefna fyrir næstu tólf árin. Í fjarskiptaáætlun skal gera grein fyrir ástandi og horfum hvað varðar fjarskipti í landinu, og meta og taka tillit til þarfa samfélagsins fyrir bætt fjarskipti. Skilgreina skal markmið stjórnvalda sem stefna ber að og leggja þannig grunn að framþróun íslensks samfélags. Markmiðin skulu stuðla að aðgengilegum og greiðum, hagkvæmum og skilvirkum, öruggum og umhverfisvænum fjarskiptum. Heimilt skal í fjarskiptaáætlun að skoða fjarskipti heildstætt í tengslum við aðra þætti samskipta, svo sem rafræn samskipti og samskipti sem byggjast á póstþjónustu. (Haust)

 77. Skýrsla ráðherra til Alþingis um öryggismál.
 78. Skýrsla um helstu áskoranir í öryggismálum á næstu árum. Skýrslan mun hafa að geyma samantekt á þróun mála á sviði öryggismála og hvaða áskoranir hún felur í sér með tilliti til lagasetningar og stefnumótunar. (Haust)

 79. Skýrsla ráðherra til Alþingis um stöðu og stefnumörkun í mannréttindamálum.
 80. Skýrslan felur í sér yfirlit um stöðu og framkvæmd mannréttindamála auk þess sem gerðar verða tillögur um stefnu og forgangsröðun. (Haust)


Mennta- og menningarmálaráðherra:
 1. Frumvarp til laga um breytingu á höfundalögum, nr. 73/1972 (höfundaréttargjald á stafræna geymslumiðla).
 2. Lagðar eru til breytingar á 11. gr. laganna sem miða að því að settar verði skýrar reglur um heimild einstaklinga til eintakagerðar eftir birtum verkum til einkanota eingöngu. (Haust)

 3. Frumvarp til laga um breytingu á höfundalögum, nr. 73/1972 (endurskoðun höfundalaga).
 4. Frumvarpið er áfangi í heildarendurskoðun höfundalaga sem hófst árið 2009. Að þessu sinni eru lagðar til breytingar á I. kafla höfundalaga. Endurflutt. (Haust)

 5. Frumvarp til laga um breytingu á höfundalögum, nr. 73/1972 (tilskipun 2011/77/ESB um breytingu á tilskipun 2006/116/EB lenging verndartíma hljóðrita).
 6. Frumvarpið snýst um að höfundaréttur að tónverki með texta, þar sem bæði texti og tónverk eru samin sérstaklega fyrir hlutaðeigandi tónverk með texta, helst, uns 70 ár eru liðin frá andlátsári þess sem lengst lifir af eftirtöldum aðilum. Þá er verndartími hljóðrita lengdur úr 50 árum í 70 ár. Innleiðing. Endurflutt. (Haust)

 7. Frumvarp til laga um breytingu á höfundalögum, nr. 73/1972 (tilskipun 2012/28/ESB: afnot munaðarlausra verka).
 8. Um er að ræða lagabreytingar vegna tilskipunar um tiltekin leyfileg afnot af munaðarlausum verkum. Munaðarlaus verk eru þau verk nefnd sem njóta verndar höfundaréttar en höfundur þeirra er óþekktur eða ekki vitað hvar hann heldur sig og því ekki unnt að leita heimildar hjá höfundi til nota verkanna. Innleiðing. Endurflutt. (Haust)

 9. Frumvarp til laga um sameiginlega umsýslu höfundaréttar og fleira (tilskipun 2014/26/ESB um starfshætti rétthafasamtaka og fjölsvæða leyfi fyrir afnot tónlistar á netinu).
 10. Með frumvarpi til laga um sameiginlega umsýslu höfundaréttar og fleira er stefnt að innleiðingu tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2014/26/ESB um starfshætti rétthafasamtaka og fjölsvæða leyfi fyrir afnot af tónlist á netinu, sem ber að leiða í lög hér á landi fyrir 10. apríl 2016. Frumvarpið felur í sér að settar verða samræmdar reglur um stjórnhætti, gagnsæi starfsreglna og fjármálaskipulag samtaka rétthafa höfundaréttar. Í öðru lagi er markmið frumvarpsins að koma á samræmdum reglum um fjölsvæða leyfi sem rétthafasamtök veita til afnota af tónlist á netinu. Innleiðing. (Haust)

 11. Endurskoðun laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna, nr. 21/1992 (ný heildarlög).
 12. Heildarendurskoðun laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Verður lagt fram til kynningar að vori. (Vor)

 13. Frumvarp til laga um tónlistarskóla (heildarlög, fjárstuðningur ríkisins).
 14. Helsta markmið frumvarpsins er að sett verði ný heildarlög um starfsemi tónlistarskóla og um samskipti ríkis og sveitarfélaga í þeim efnum. Í frumvarpinu er kveðið á um starfsemi tónlistarskóla með mun skýrari hætti en í gildandi lögum. Þá er sérstaklega mælt fyrir um að sjálfstætt starfandi tónlistarskólar eigi rétt á viðurkenningu ráðuneytis og gert ráð fyrir tilteknum lágmarkskröfum um efni þjónustusamnings milli slíkra skóla og sveitarfélaganna. (Haust)

 15. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 91/2008, um grunnskóla (kæruleiðir, valdmörk og starfræksla frístundaheimila).
 16. Tilgangur frumvarpsins er m.a. að skýra betur valdmörk tveggja ráðuneyta hvað varðar kæruleiðir vegna ákvarðana sem teknar eru í grunnskólum á vegum sveitarfélaga og að styrkja lagaramma fyrir samþættingu skólastarfs og frístundastarfs. Þar er einnig að finna tillögu að orðalagsbreytingum í grunnskólalögum. Endurflutt með breytingum. (Haust)

 17. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 87/2008, um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla (endurskoðun).
 18. Frumvarpið felur í sér endurskoðun á lögunum í samræmi við þau markmið sem fram koma í hvítbók ráðherra. Í frumvarpi þessu eru lagðar til nauðsynlegar breytingar á 9., 11. og 13. gr. laganna á þann hátt að þegar um er að ræða ráðningu í kennslustarf sem heimildir skv. 1.–4. tölul. 1. mgr. 21. gr. laganna ná til þá verði réttarstaða þeirra sem hafa leyfisbréf annars vegar og heimild til kennslu lögð að jöfnu. (Haust)

 19. Frumvarp til laga um sjálfstætt starfandi grunnskóla.
 20. Hér á landi hafa til margra ára starfað sjálfstætt starfandi grunnskólar til hliðar við hefðbundna opinbera grunnskóla. Mikilvægt er að starfsumhverfi þessara skóla, réttarstaða nemenda sem þar stunda nám og skyldur og ábyrgð sveitarfélaganna á störfum þeirra sé svo glögglega útfært sem verða má. (Vor)

 21. Frumvarp til laga um breytingu á kvikmyndalögum, nr. 137/2001 (ESA: viðeigandi ráðstafanir).
 22. Tilgangur lagabreytinga er að styrkja framleiðslu og dreifingu íslenskra kvikmynda, enn fremur að styrkja framleiðslu og dreifingu kvikmynda sem eru á íslensku eða hafa skírskotun til íslenskrar menningar og unnar eru og kostaðar af aðilum með skráð aðsetur í EES-ríki. (Haust)

 23. Frumvarp til sviðslistalaga.
 24. Markmið frumvarpsins er að efla íslenskar sviðslistir, kveða á um skipan og fyrirkomulag og búa þeim hagstæð skilyrði. Með sviðslistum er átt við leiklist, listdans, óperuflutning, brúðuleik og skylda liststarfsemi sem heyrir ekki undir lög um aðrar listgreinar. Endurflutt. (Haust)

 25. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 102/1980, um Grænlandssjóð.
 26. Í frumvarpinu er m.a. fjallað um tilgang sjóðsins, umsýslu hans og greiðslu kostnaðar sem honum tengist. Endurflutt. (Vor)

 27. Frumvarp til laga um bókmenntasjóð (greiðslur fyrir afnot á bókasöfnum).
 28. Markmið frumvarpsins er að tryggja höfundum sem eru ríkisborgarar eða búsettir í landi innan Evrópska efnahagssvæðisins rétt á greiðslum fyrir notkun bóka þeirra á bókasöfnum, sem eru rekin á kostnað ríkissjóðs eða sveitarfélaga, af árlegri fjárveitingu Alþingis fyrir afnot á bókasöfnum. Hér er bæði átt við útlán og afnot bóka á lestrarsölum bókasafna. (Vor)

 29. Skýrsla mennta- og menningarmálaráðherra um framkvæmd skólastarfs í framhaldsskólum skólaárin 2008–2009 til 2012–2013.
 30. (Haust)


Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra:
 1. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 93/1995, um matvæli, lögum nr. 96/1997, um slátrun og sláturafurðir, lögum nr. 55/1998, um sjávarafurðir, og lögum nr. 22/1994, um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru (eftirlit, starfsleyfi, viðurlög, EES-samningurinn).
 2. Með frumvarpinu verða gerðar breytingar á ákvæðum um þvingunarúrræði og viðurlög, jafnframt breytingar á ákvæðum um eftirlit, starfsleyfisskyldu og heimildir ráðherra til að innleiða reglugerðir ESB. Innleiðing. (Haust)

 3. Frumvarp til laga um breytingu á búvörulögum, nr. 99/1993 (búvörusamningar, ráðgjafarnefnd um inn- og útflutning landbúnaðarvara og úthlutun tollkvóta).
 4. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar sem nauðsynlegar eru samhliða nýjum búvörusamningum. Endurskoðun ákvæða er snúa að ráðgjafarnefnd um inn- og útflutning landbúnaðarvara og úthlutun tollkvóta. (Vor)

 5. Frumvarp til laga um breytingu á búnaðarlögum, nr. 70/1998 (búvörusamningar).
 6. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar sem nauðsynlegar eru samhliða nýjum búvörusamningum. (Vor)

 7. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 89/1966, um Framleiðnisjóð landbúnaðarins (endurskoðun).
 8. Heildarendurskoðun á lögum um sjóðinn. (Vor)

 9. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar (vigtun sjávarafla, afladagbók).
 10. Í frumvarpinu eru lagðar til verulegar breytingar á aðferðum við vigtun sjávarafla. Gert er ráð fyrir að endurvigtun hans verði ekki lengur heimil. Allir dagróðrabátar nýti sér fasta ísprósentu en samningar verði gerðir við aðra. Beitt verði stjórnsýslusektum við brotum og ákvæði um afladagbækur gerð markvissari. (Haust)

 11. Frumvarp til laga um haf- og vatnarannsóknir (heildarlög).
 12. Endurflutt. (Haust)

 13. Frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna sameiningar Hafrannsóknastofnunar og Veiðimálastofnunar (haf- og vatnarannsóknir sameinaðar í einni stofnun).
 14. Endurflutt. (Haust)

 15. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands (vinnsla þangs og þara).
 16. Ákvæði laga hvað varðar vinnslu þangs og þara gerð skýrari hvað varðar leyfisveitingar o.fl. (Haust)

 17. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 79/2005, um uppboðsmarkaði sjávarafla.
 18. Heildarendurskoðun núgildandi laga. (Vor)

 19. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 37/1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla.
 20. Breyting á skilgreiningu á því hvað telst vera ólögmætur sjávarafli í skilningi laganna og málsmeðferð í kærumálum einfölduð. (Haust)

 21. Tillaga til þingsályktunar um áætlun til sex ára um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla (5,3% aflaheimilda til sérstakra ráðstafana á sviði byggða og atvinnumála).
 22. Á síðasta þingi var samsvarandi þingsályktun samþykkt, en gert var ávallt ráð fyrir endurskoðun að fenginni úttekt um hagkvæmni mismunandi aðgerða. (Haust)

 23. Skýrsla sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um starfsemi Byggðastofnunar og framvindu byggðaáætlunar.
 24. Árleg skýrsla skv. 13. gr. laga nr. 106/1999, um Byggðastofnun. (Haust)


Umhverfis- og auðlindaráðherra:
 1. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 103/2006, um landmælingar og grunnkortagerð (afmörkun á nákvæmni landupplýsinga).
 2. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum nr. 103/2006 hvað varðar hlutverk Landmælinga Íslands um gerð, viðhald og miðlun stafrænna þekja og landupplýsingagrunna til að tryggja samræmi milli þeirra og laga nr. 44/2011, um grunngerð fyrir stafrænar landupplýsingar. Í frumvarpinu er lagt til að tekin verði út afmörkun á nákvæmni gagna í landupplýsingagrunni Landmælinga Íslands til að landupplýsingagrunnur stofnunarinnar geti verið í þeirri nákvæmni sem þörf er á hverju sinni og tækni leyfir. Einnig er lagt til að Landmælingar Íslands komi upp, viðhaldi og miðli landupplýsingagrunnum í samráði við önnur stjórnvöld. Frumvarpið gerir einnig ráð fyrir að gjaldtökuheimild Landmælinga Íslands verði felld brott úr lögunum sökum þess að gögn Landmælinga Íslands hafa verið gjaldfrjáls frá 23. janúar 2013. Frumvarpið var lagt fram á 144. löggjafarþingi en náði ekki afgreiðslu. Endurflutt. (Haust)

 3. Frumvarp til laga um uppbyggingu innviða fyrir ferðamenn til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum (heildarlög).
 4. Frumvarpinu er ætlað að skapa umgjörð um stefnumótun á sviði uppbyggingar innviða og verndar náttúru á áningarstöðum ferðamanna í náttúru Íslands. Frumvarpið gerir ráð fyrir að ráðherra leggi fram þingsályktunartillögu um tólf ára stefnumarkandi áætlun. Stýrihópur sem skipaður er af fulltrúum ríkis, sveitarfélaga, landeigenda og annarra hagsmunaaðila vinna síðan þriggja ára verkefnaáætlanir á grundvelli tólf ára áætlunarinnar. Frumvarpið var lagt fram á 144. löggjafarþingi og var afgreitt úr umhverfis- og samgöngunefnd 6. maí 2014. Frumvarpið náði ekki fram að ganga og er því lagt aftur fram. Frumvarpið hefur verið endurskoðað með breytingartillögur meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar í huga. Endurflutt. (Haust)

 5. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 44/1999, um náttúruvernd (almannaréttur og fleiri ákvæði).
 6. Lög nr. 60/2013, um náttúruvernd, áttu að taka gildi 1. apríl 2014. Umhverfis- og auðlindaráðherra lagði fram á haustþingi 2013 frumvarp þess efnis að lögin yrðu felld úr gildi og vinna yrði sett af stað um þau atriði laganna sem mestur ágreiningur var um. Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis fjallaði um málið og lagði til að í stað þess að fella lögin úr gildi yrði gildistöku þeirra frestað til 1. júlí 2015 og ráðherra myndi á 144. löggjafarþingi leggja til breytingar á þeim til að ná betri sátt um ákveðin atriði í lögunum. Á 144. löggjafarþingi lagði umhverfis- og auðlindaráðherra fram frumvarp um að gildistöku laganna yrði frestað til 15. nóvember 2015 og var það samþykkt. (Haust)

 7. Frumvarp til laga um breytingu á skipulagslögum, nr. 123/2010 (breyting ákvæða um grenndarkynningu).
 8. Frumvarpið felur í sér breytingu á ákvæðum skipulagslaga er fjalla um grenndarkynningu. (Haust)

 9. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 18/1996, um erfðabreyttar lífverur (fullgilding Kartagena-bókunar, verkaskipting Umhverfisstofnunar og Matvælastofnunar).
 10. Frumvarpið varðar fullgildingu Íslands á Kartagena-bókuninni við samninginn um líffræðilega fjölbreytni. Einnig eru með frumvarpinu gerðar breytingar á verkaskiptingu milli Umhverfisstofnunar og Matvælastofnunar vegna eftirlits með markaðssetningu erfðabreyttra matvæla og fóðurs. (Haust)

 11. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 60/2007, um Vatnajökulsþjóðgarð (breyting á stjórnfyrirkomulagi og aðrar breytingar).
 12. Lög um Vatnajökulsþjóðgarð tóku gildi 1. maí 2007. Í ákvæði til bráðabirgða er kveðið á um að eigi síðar en 1. janúar 2013 skuli ákvæði laganna um stjórnfyrirkomulag þjóðgarðsins endurskoðuð í samstarfi ríkis og sveitarfélaga. Umhverfis- og auðlindaráðherra skipaði starfshóp í janúar 2013 til að fara yfir stjórnfyrirkomulag garðsins og gera tillögur til breytinga ef þurfa þætti. Starfshópurinn skilaði greinargerð sinni 27. ágúst 2013 og leggur til þær breytingar á lögum um Vatnajökulsþjóðgarð sem frumvarpið kveður á um. Að auki eru í frumvarpinu lagðar til aðrar breytingar á lögunum í ljósi þeirrar reynslu sem komin er eftir stofnun þjóðgarðsins. (Haust)

 13. Frumvarp til laga um timbur og timburvörur (heildarlög).
 14. Með frumvarpinu er ætlunin að innleiða reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 995/2010, um skyldur aðila sem setja timbur og timburvörur á markað. Markmið reglugerðarinnar er að setja skorður við markaðssetningu á timbri og timburvörum sem framleiddar eru úr timbri sem er höggvið með ólöglegum hætti. Markaðssetning timburs og timburvara sem framleiddar eru á grundvelli ólöglegs skógarhöggs er bönnuð og aðilar sem selja timbur og timburvörur skulu tryggja rekjanleika vörunnar og notast við sérstakt aðgátarkerfi í þeim tilgangi. Alþingi aflétti í vor stjórnskipulegum fyrirvara á málinu og hefur reglugerðin því tekið gildi í EES-löndunum, þ.m.t. Íslandi. Innleiðing. (Haust)

 15. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs (innleiðingar Evrópugerða, stjórnvaldssektir o.fl.).
 16. Um er að ræða innleiðingu á tilskipun 2012/19/ESB um raf- og rafeindatækjaúrgang, reglugerð (ESB) nr. 1257/2013 um endurvinnslu skipa, reglugerð (ESB) nr. 660/2014 þar sem breytt er eldri reglugerð um flutning úrgangs og framkvæmdarákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2013/727 um snið fyrir upplýsingagjöf um útgáfu og veigamiklar endurskoðanir á stefnu um meðhöndlun úrgangs, stefnu um úrgangsforvarnir og svæðisáætlunum um meðhöndlun úrgangs. Ákveðnar breytingar eru lagðar til varðandi umbúðaúrgang og úrgang vegna náma auk þess sem fyrirhugað er að leggja til heimildir stjórnvalda til að leggja á stjórnvaldssektir. Einnig eru lagðar til breytingar á lögum um meðhöndlun úrgangs vegna athugasemda frá Eftirlitsstofnun EFTA vegna innleiðingar á rammatilskipun 2008/98 um úrgang. Innleiðing. (Haust)

 17. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 9/2009, um uppbyggingu og rekstur fráveitna.
 18. Meginmarkmið frumvarpsins er að skýra og treysta grundvöll þeirrar álagningar fráveitugjalds sem þegar fer fram á vegum fráveitna sveitarfélaga fyrir þá almannaþjónustu sem þær veita. Frumvarpinu er ætlað að skýra og styrkja gjaldtökuheimildir, réttindi og skyldur fráveitna gagnvart viðskiptavinum þeirra. Frumvarpið tengist frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 32/2004, um vatnsveitur sveitarfélaga, sem heyrir undir innanríkisráðuneyti. (Haust)

 19. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 146/1996, um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga.
 20. Um er að ræða innleiðingu á þremur tilskipunum, 2014/30/ESB um samræmingu laga aðildarríkjanna um rafsegulsamhæfi (endurgerð), 2014/35/ESB um samræmingu laga aðildarríkjanna um markaðssetningu raffanga sem notuð eru innan ákveðinna spennumarka (endurgerð) og 2014/34 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi búnað og verndarkerfi sem ætluð eru til notkunar á sprengihættustöðum (endurgerð). Lögð verður til stoð fyrir reglugerð í lögunum, víkkað gildissviðið og aðrar breytingar er varða markaðseftirlit með rafföngum, hlutverk aðila í aðfangakeðjunni og aðkomu tollayfirvalda að eftirliti. Innleiðing. (Haust)

 21. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 60/1992, um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur, og lögum nr. 97/2004, um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu.
 22. Frumvarpið er vegna ákvörðunar um að sameina Náttúrufræðistofnun Íslands og Náttúrurannsóknastöðina við Mývatn sem unnið er að í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. Jafnframt er um að ræða aðrar breytingar sem varða skipulag á starfsemi stofnunarinnar í ljósi reynslu af framkvæmd laganna. (Haust)

 23. Frumvarp til laga um Umhverfisstofnun (heildarlög).
 24. Frumvarpinu er ætlað að koma í stað laga nr. 90/2002, um Umhverfisstofnun. Markmiðið með frumvarpinu er að samþætta og skýra með nánari hætti hlutverk Umhverfisstofnunar í lögum. Í frumvarpinu er fjallað um helstu málaflokka sem Umhverfisstofnun hefur umsjón með og þær heimildir sem stofnunin hefur yfir að ráða. Þá er kveðið á um helstu ábyrgðarsvið stofnunarinnar með vísan til viðeigandi löggjafar og heimildir hennar til gjaldtöku, framsals eftirlits og þjónustu o.fl. (Vor)

 25. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir (hlutverk eftirlitsaðila, stjórnvaldssektir, umhverfisupplýsingar o.fl.).
 26. Frumvarpið kveður á um skiptingu eftirlits milli Umhverfisstofnunar og heilbrigðisnefnda með starfsleyfisskyldri starfsemi. Einnig er frumvarpinu ætlað að setja heimildir í lögin til beitingar stjórnvaldssekta auk þess sem málsmeðferð vegna leyfisveitinga verður einfölduð og eftirlitið gert markvissara. Þá er frumvarpinu ætlað að innleiða tilskipun 2010/75/ESB um losun mengunarefna frá iðnaði. Þá er ætlunin að endurskoða gjaldtökuákvæði laganna. Innleiðing. (Vor)

 27. Frumvarp til laga um skipulag hafs og stranda (heildarlög).
 28. Í frumvarpinu verður fjallað um stjórnun og skipulag á haf- og strandsvæðum, þar á meðal með hvaða hætti stjórnsýslu skuli háttað, landfræðilega afmörkun og helstu stjórntæki við skipulagsgerð o.fl. (Vor)

 29. Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum, m.a. lögum nr. 33/2004, um varnir gegn mengun hafs og stranda (upptaka refsiákvæða vegna tiltekinna brota sem varða umhverfið).
 30. Um er að ræða innleiðingu á tveimur tilskipunum 2008/99/EB og 2009/123/EB sem fela í sér upptöku refsiákvæða í íslenskan rétt. Tilskipanirnar kveða á um aðgerðir varðandi refsiákvæði til þess að vernda umhverfið með árangursríkari hætti. Tryggja skal að viðurlög við brotum á ákvæðum tiltekinna tilskipana séu áhrifarík, í samræmi við brotin og hafi varnaðaráhrif. Í frumvarpinu verður lögð til breyting á refsiákvæðum ýmissa laga, svo sem lögum nr. 33/2004, um varnir gegn mengun hafs og stranda, og lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir. Innleiðing. (Vor)

 31. Frumvarp til laga um skógrækt (heildarlög).
 32. Markmið með frumvarpinu er einkum að styrkja nýtingarhluta skógræktarlaga sem eru frá 1955 en það er afar brýnt vegna aukinnar úrvinnslu úr skógum landsins. Frumvarpinu er ætlað að skýra leyfisveitingar varðandi nýtingu skóga og skýra verklag við skógrækt, allt frá nýræktun til lokahöggs, rannsóknir og vöktun. Gert er ráð fyrir ákvæði um landsáætlun í skógrækt sem verði stefnumótandi áætlun til 30–40 ára. Samhliða verður skoðað hvort sameina eigi skógræktarlög lögum um landshlutaverkefni í skógrækt, nr. 95/2006. (Vor)

 33. Frumvarp til laga um landgræðslu (heildarlög).
 34. Markmið með frumvarpinu er að skerpa á ábyrgð rétthafa lands á því að landnýting fari fram með sjálfbærum hætti og að skýra betur verkaskiptingu stofnana sem fara með hlutverk á sviði gróður- og jarðvegsverndar. Mjög brýnt er að endurnýja lög um landgræðslu sem eru frá árinu 1965. Gert er ráð fyrir ákvæði um landgræðsluáætlun sem verði stefnumótandi áætlun til 10–20 ára, ákvæði um setningu viðmiða um sjálfbæra landnýtingu og um vöktun. Samhliða er í skoðun hvort sameina eigi lög um landgræðslu og lög um varnir gegn landbroti nr. 91/2002. (Vor)

 35. Tillaga til þingsályktunar um landsskipulagsstefnu 2015–2026.
 36. Um er að ræða samræmda stefnu ríkisins um skipulagsmál til 12 ára sem ráðherra lætur vinna og leggur fyrir Alþingi í samræmi við 10. gr. skipulagslaga, nr. 123/2010. (Haust)

 37. Tillaga til þingsályktunar um landsáætlun um uppbyggingu innviða.
 38. Nái frumvarp til laga um uppbyggingu innviða fyrir ferðamenn til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum fram að ganga (sjá nr. 3 hér að framan) er gert ráð fyrir að ráðherra leggi fram tillögu að fyrstu tólf ára áætluninni skv. 3. gr. frumvarpsins á vorþingi 2016. (Vor)


Utanríkisráðherra:
 1. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 121/2008, um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands.
 2. Með frumvarpinu er Þróunarsamvinnustofnun Íslands lögð niður og starfsemi hennar færð til utanríkisráðuneytisins og ný þróunarsamvinnunefnd stofnuð, auk þess sem ákvæði laga nr. 73/2007, um íslensku friðargæsluna og þátttöku hennar í alþjóðlegri friðargæslu, eru lítillega uppfærð. Frumvarpið var lagt fram á 144. löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu. Endurflutt. (Haust)

 3. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 2/1993, um Evrópska efnahagssvæðið (uppbyggingarsjóður EES).
 4. Frumvarpið er lagt fram til að fullgilda samning EES/EFTA-ríkjanna um uppbyggingarsjóð EES fyrir tímabilið 2014–2021. (Haust)

 5. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 38/2010, um Íslandsstofu.
 6. Frumvarpið felur í sér framkvæmd ýmissa tillagna starfshóps um útflutningsþjónustu, m.a. varðandi gerð langtímaáætlana, hlutverk stjórnar Íslandsstofu og rekstur hennar. (Haust)

 7. Tillaga til þingsályktunar um þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland.
 8. Þjóðaröryggistefnan skilgreinir öryggi með víðtækum hætti og nær til virkrar utanríkisstefnu, varnarstefnu og almannaöryggis. Stefnan byggist á tillögum þingmannanefndar um mótun þjóðaröryggisstefnu. Tillagan var lögð fram á 144. löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu. (Haust)

 9. Tillaga til þingsályktunar um stefnu um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2017–2021.
 10. Stefna ríkisstjórnarinnar um alþjóðlega þróunarsamvinnu árin 2017–2021. Endurmat og uppfærsla á núgildandi áætlun sem gildir tímabilið 2013–2016. Þessi tillaga kemur í stað tillögu til þingsályktunar um áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2016–2019 sem lögð var fram á 144. löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu. (Haust)

 11. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu samninga um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum vegna ársins 2016.
 12. Um er að ræða árlega samninga um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum. (Vor)

 13. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu samnings milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu á árinu 2016.
 14. Árlegur samningur milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu. (Vor)

 15. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn.
 16. Reglugerðir Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1095/2010, 1093/2010, 1094/2010, 513/2011 og 648/2012 um eftirlit með fjármálastofnunum, auk bókunar 8 við samninginn um eftirlitsstofnunina og dómstólinn um valdheimildir Eftirlitsstofnunar EFTA vegna mála um fjármálaeftirlit. (Haust)

 17. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 9/2015 um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir, vottun) við EES-samninginn.
 18. Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 167/2013 frá 5. febrúar 2013 um viðurkenningu á og markaðseftirlit með ökutækjum fyrir landbúnað eða skógrækt. (Haust)

 19. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 15/2015 um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) við EES-samninginn.
 20. Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 520/2012 frá 19. júní 2012 um framkvæmd lyfjagátarstarfsemi sem kveðið er á um í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 726/2004 og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/83/EB. (Haust)

 21. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 25/2015 um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) við EES-samninginn.
 22. Framkvæmdartilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2014/58/ESB frá 16. apríl 2014 um að koma á fót rekjanleikakerfi fyrir flugeldavörur samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2007/23/EB. (Haust)

 23. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 28/2015 um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) við EES-samninginn.
 24. Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 452/2014 frá 29. apríl 2014 um tæknilegar kröfur og stjórnsýslumeðferð er varða flugrekstur flugrekenda frá þriðja landi samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 216/2008. (Haust)

 25. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 102/2015 um breytingu á X. viðauka (Almenn þjónusta) við EES-samninginn.
 26. Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1024/2012 frá 25. október 2012 um samvinnu á sviði stjórnsýslu fyrir tilstilli upplýsingakerfisins fyrir innri markaðinn og niðurfellingu á ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2008/49/EB. (Haust)

 27. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 106/2015 um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) við EES-samninginn.
 28. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/45/ESB frá 3. apríl 2014 um reglubundnar prófanir á aksturshæfni vélknúinna ökutækja og eftirvagna þeirra og um niðurfellingu á tilskipun 2009/40/EB, tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/46/ESB frá 3. apríl 2014 um breytingu á tilskipun ráðsins 1999/37/EB um skráningarskjöl fyrir ökutæki og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/47/ESB frá 3. apríl 2014 um tæknilegt eftirlit á vegum með aksturshæfni vöruflutningabifreiða í sambandinu og um niðurfellingu á tilskipun 2000/30/EB. (Haust)

 29. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 115/2015 um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) við EES-samninginn.
 30. Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 181/2011 frá 16. febrúar 2011 um réttindi farþega í hópbifreiðum og um breytingu á reglugerð (EB) nr. 2006/2004. (Haust)

 31. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 116/2015 um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) við EES-samninginn.
 32. Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1177/2010 frá 24. nóvember 2010 um réttindi farþega sem ferðast á sjó eða skipgengum vatnaleiðum og um breytingu á reglugerð (EB) nr. 2006/2004. (Haust)

 33. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 117/2015 um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn.
 34. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/52/ESB frá 16. apríl 2014 um breytingu á tilskipun 2011/92/ESB um mat á áhrifum sem tilteknar framkvæmdir á vegum hins opinbera eða einkaaðila kunna að hafa á umhverfið. (Haust)

 35. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 122/2015 um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn.
 36. Tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2014/99/ESB frá 21. október 2014 um breytingu á tilskipun 2009/126/EB um II. áfanga endurheimtar bensíngufu við eldsneytistöku fyrir vélknúin ökutæki á bensínstöðvum í því skyni að laga hana að tækniframförum. (Haust)

 37. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 143/2015 um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) við EES-samninginn.
 38. Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 168/2013 frá 15. janúar 2013 um viðurkenningu á og markaðseftirlit með vélknúnum ökutækjum á tveimur eða þremur hjólum og fjórhjólum, framselda reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 3/2014 frá 24. október 2013 um viðbætur við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 168/2013 að því er varðar kröfur um notkunaröryggi fyrir ökutæki vegna viðurkenningar á ökutækjum á tveimur eða þremur hjólum og fjórhjólum, og framselda reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 44/2014 frá 21. nóvember 2013 um viðbætur við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 168/2003 að því er varðar kröfur um smíði ökutækja og almennar kröfur vegna viðurkenningar á ökutækjum á tveimur eða þremur hjólum og fjórhjólum. (Haust)

 39. Tillaga til þingsályktunar um fullgildingu breytinga á Rómarsamþykktinni um Alþjóðlega sakamáladómstólinn varðandi glæpi gegn friði.
 40. Fullgilding breytinga sem samþykktar voru af endurskoðunarráðstefnu Alþjóðlega sakamáladómstólsins í Kampala árið 2010 sem skilgreina hugtakið glæpur gegn friði og fjalla um lögsögu vegna slíkra glæpa. (Haust)

 41. Skýrsla utanríkisráðherra til Alþingis um utanríkismál.
 42. (Vor)