26.01.1976
Sameinað þing: 39. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1601 í B-deild Alþingistíðinda. (1314)

Minnst látins fyrrv. þingmanns

Forseti (Ásgeir Bjarnason) :

Hermann Jónasson fyrrv. forsrh. andaðist í sjúkrahúsi hér í Reykjavík að morgni s. l. fimmtudags, 22. jan., eftir margra ára vanheilsu, 79 ára að aldri

Hermann Jónasson var fæddur 25. des. 1896 á Syðri-Brekkum í Skagafirði. Foreldrar hans voru Jónas bóndi og trésmiður þar Jónsson bónda í Grundarkoti í Blönduhlíð Jónssonar og kona hans, Pálína Björnsdóttir bónda á Hofstöðum í Skagafirði Péturssonar. Hann stundaði nám í Gagnfræðaskólanum á Akureyri veturna 1914–1917, lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1920 og lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands 192.4. Fulltrúi bæjarfógetans í Reykjavík var hann árin 1924–1928. Hann kynnti sér lögreglumál á Norðurlöndum og í Þýskalandi vorið 1928 og varð í ársbyrjun 1929 lögreglustjóri í Reykjavík, gegndi því embætti þar til hann var skipaður forsrh. 28. júlí 1934 og jafnframt dóms.- og kirkjumrh., en fór auk þess með landbúnaðarmál. Sat hið fyrsta ráðuneyti Hermanns Jónassonar að völdum til 18. nóv. 1941, en ýmsar breytingar urðu á skipan ráðherraembætta á því tímabili. Sama dag, hinn 18. nóv., varð Hermann Jónasson forsrh. og jafnframt dóms- og landbrh. í nýju ráðuneyti sem gegndi störfum til 16. maí 1942. Gerðist hann þá lögfræðilegur ráðunautur Búnaðarbanka Íslands og hafði það starf með höndum til 196l, að undanskildum þeim tímabilum, sem hann var ráðh. Hæstaréttarlögmaður varð hann 1945. Frá 14. mars 1950 til 11. sept. 1953 var hann hann landbrh. í ráðuneyti Steingríms Steinþórssonar. Hinn 24. júlí 1956 myndaði hann hið þriðja ráðuneyti sitt, var forsrh. og jafnframt landb.- og dómsmrh. til 23. des. 1958.

Hermann Jónasson var skipaður í landskjörstjórn árið 1930, kosinn 1942 í stjórnarskrárnefnd og 1943 í milliþinganefnd til undirbúnings verklegra framkvæmda. Í bankaráði Búnaðarbanka Íslands var hann frá 1943–1972 og formaður þess 1943–1960. Hann átti sæti í skilnaðarnefnd 1944, í Þingvallanefnd 1946–1968, í fjárhagsráði 1947–1950 og í sölunefnd varnarliðseigna 1953–1972. Í togaranefnd var hann kosinn 1954 og í atvinnumálanefnd 1955. Á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna sat hann árin 1947, 1948 og 1955, var fulltrúi Íslands á Ráðgjafarþingi Evrópuráðsins 1950–1967 og átti sæti í mannréttindanefnd Evrópuráðsins 1954–1957.

Hermann Jónasson var gæddur miklu andlegu og líkamlegu atgervi. Skólanám sóttist honum með ágætum og hann lagði stund á líkamsrækt lengst af ævi sinnar, var karlmenni að burðum, drengilegur og sigursæll glímukappi og var glímukóngur Íslands árið 1921. Stjórnmálaafskipti hóf hann að marki árið 1930 er hann var kjörinn í bæjarstjórn Reykjavíkur. Aftur var hann kjörinn bæjarfulltrúi í Reykjavík árið 1934. En það ár varð honum tími stórra sigra og mikils frama. Við alþingiskosningarnar þá um vorið háði hann kosningabaráttu við vinsælan og mikilhæfan stjórnmálaforingja og hlaut sigur. Að þeim kosningum loknum var honum falin myndun ríkisstjórnar. Er hann eini íslendingurinn, sem hefur hafið þingferil sinni í sæti forsrh., og jafnframt yngstur þeirra manna, sem tekið hafa að sér forsæti í ríkisstj. hér á landi. Hlutskipti þeirrar ríkisstj. var örðugt á tímum heimskreppu og sölutregðu á íslenskum afurðum. Þó að vissulega hafi verið deilt hart um stefnu og störf fyrstu ríkisstj. Hermanns Jónassonar má fullyrða, að stjórnað hafi verið með festu og komist hjá stórum áföllum á erfiðum tímum. Hörð átök um lausn vinnudeilu leiddu af sér ráðherraskipti á árinu 1938, og vegna yfirvofandi heimsstyrjaldar tókst samkomulag um fjölgun ráðherra og myndun þjóðstjórnar 17. apríl 1939. Á þeim örlagaríku tímum auðnaðist Hermanni Jónassyni að synja erlendu hervaldi, Þýskalandi, um flugréttindi hér á landi og hafa forustu um ákvarðanir um æðstu stjórn landsins vegna hernáms Danmerkur 9. apríl 1940 og viðbrögð við komu hernámsliðs breta til Íslands 10. maí 1940.

Hermann Jónasson var þingmaður strandamanna 25 ár samfleytt, árin 1934–1959, og síðan þingmaður Vestfjarðakjördæmis 1959–1967, sat á 40 þingum alls. Ráðherradómur hans stóð samtals rúmlega 14 ár. Hann átti frumkvæði eða atbeina að margvíslegri löggjöf sem markaði djúp spor. Fyrsta ráðuneyti hans beitti sér fyrir löggjöf um afurðasölu landbúnaðarvara, nýbýli og samvinnubyggðir, alþýðutryggingar og skipulag á sölu íslenskra afurða á erlendum mörkuðum. Á þessu tímabili hafði hann forustu um setningu nýrrar löggjafar um ýmis réttarfarsmál og samþykkt nýrra íþróttalaga. Útfærsla fiskveiðilögsögunnar var eitt þeirra stórmála sem hann átti ríkan þátt í að koma til framkvæmda á síðari ríkisstjórnarárum sínum.

Hermann Jónasson var mikilhæfur forustumaður í íslenskum stjórnmálum um langt skeið. Hann var forvígismaður í flokki sínum frá upphafi þingferils síns. Formaður Framsfl. var hann 1944–1962, en lét þá af formennsku að eigin ósk. Hann var skörulegur þjóðarleiðtogi, drengilegur í viðskiptum, rökfimur í málflutningi, varkár í athöfnum á örlagastundum, en fylgdi teknum ákvörðunum fram með festu og djörfung. Hann var ágætlega hagmæltur og átti sér ýmis hugðarefni auk þjóðmálastarfsins. Skógrækt var meðal helstu áhugamála hans og hann var mikilvirkur skógræktarmaður. Fyrir aldur fram lagðist á hann erfiður sjúkleiki sem hann átti við að stríða árum saman og bar með karlmennsku og æðruleysi. Við fráfall hans á íslenska þjóðin á bak að sjá einum mikilhæfasta stjórnmálaforingja sínum á þessari öld.

Ég vil biðja hv. alþm. að minnast Hermanns Jónassonar með því að rísa úr sætum. — [Þm. risu úr sætum.]