24.04.1957
Sameinað þing: 52. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2347 í B-deild Alþingistíðinda. (158)

Minning látinna fyrrverandi alþingismanna

forseti (EmJ):

Ari Arnalds fyrrum sýslumaður og bæjarfógeti andaðist á heimili sínu hér í bæ 14. apríl s.l., 84 ára að aldri. Verður hans minnzt hér með nokkrum orðum, áður en gengið verður til dagskrár.

Ari Jónsson, er síðar tók sér ættarnafnið Arnalds, fæddist á Hjöllum í Gufudalshreppi í Barðastrandarsýslu 7. júní 1872. Foreldrar hans voru Jón bóndi þar Finnsson og kona hans, Sigríður Jónssonar bónda á Galtará í Gufudalshreppi Guðnasonar.

Hann brautskráðist úr lærða skólanum í Reykjavík árið 1898 og lauk lögfræðiprófi við Kaupmannahafnarháskóla árið 1905. Blaðamaður við dagblaðið Verdens Gang í Kristjaníu var hann um skeið á árinu 1905, settur sýslumaður í Norður-Múlasýslu og bæjarfógeti á Seyðisfirði sumarið 1906 og ritstjóri Dagfara á Eskifirði 1906. Árin 1907–1909 var hann meðritstjóri blaðsins Ingólfs í Reykjavík, málaflutningsmaður við yfirréttinn 1908–1914, aðstoðarmaður í fjármáladeild stjórnarráðsins 1909–1914 og starfaði í veðdeild Landsbanka Íslands 1910–1914. Á árinu 1914 var hann skipaður sýslumaður í Húnavatnssýslu og gegndi því embætti til ársins 1918, er hann var skipaður sýslumaður í Norður-Múlasýslu og bæjarfógeti á Seyðisfirði, en lausn frá þeim störfum fékk hann árið 1937. 1938–1941 var hann lögfræðilegur ráðunautur útibús Útvegsbanka Íslands á Seyðisfirði og Síldarbræðslunnar þar og gegndi enn fremur á þeim árum umboðsstörfum þar eystra fyrir Búnaðarbanka Íslands og eftirlitsmann sveitarstjórnarmálefna. Árið 1941 fluttist hann til Reykjavíkur og gerðist starfsmaður í endurskoðunardeild fjármálaráðuneytisins. Á árinu 1947 lét hann af því starfi, en vann síðan talsvert að ritstörfum. Hann var kosinn þingmaður Strandamanna í alþingiskosningunum 1908, og sat hann á þeim tveim þingum, sem háð voru á því kjörtímabili. Sæti átti hann í bankaráði Íslandsbanka 1909–1915.

Ari Arnalds var vel gefinn og mikill námsmaður, en gat ekki hafið skólagöngu fyrr en um tvítugsaldur, svo sem títt var um fátæka sveitapilta á þeim tímum, og við heilsuleysi átti hann að stríða á háskólaárum sínum. Hann var kominn nokkuð á fertugsaldur, þegar hann lauk lagaprófl. Á næstu árum vann hann allmikið að þjóðmálum. Hann var blaðamaður í Noregi, þegar Norðmenn sögðu skilið við Svíþjóð og stofnuðu sjálfstætt konungsríki, hvarf bráðlega heim til Íslands, tók sér stöðu framarlega í flokki þeirra manna, sem stærstar kröfur gerðu í sjálfstæðismálum Íslendinga, og vann frækilegan sigur í hinum sögulegu alþingiskosningum sumarið 1908. Jafnan síðan lét hann sig miklu varða sjálfstæðismál íslenzku þjóðarinnar. Hann gegndi um langt árabil sýslumannsstörfum og hlaut miklar vinsældir hjá alþýðu manna, var réttlátur og glöggskygn dómari, og öll embættisfærsla hans einkenndist af frábærri nákvæmni og vandvirkni.

Ari Arnalds var höfðinglegur á velli og fágaður í framkomu, ræðumaður góður og ritfær í bezta lagi. Þær þrjár bækur, sem hann lét frá sér fara á síðasta áratug ævinnar, hlutu miklar vinsældir, og á útvarpserindi hans þótti mönnum gott að hlýða.

Ég vil biðja háttvirta alþingismenn að votta minningu þessa mæta embættismanns og rithöfundar virðingu sína með því að rísa úr sætum. — [Þm. risu úr sætum.]