02.12.1959
Sameinað þing: 5. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3638 í B-deild Alþingistíðinda. (1798)

Minning látinna fyrrverandi alþingismanna

forseti (FS):

Gísli Sveinsson fyrrum sendiherra og alþingismaður andaðist í landsspítalanum í fyrradag, mánudaginn 30. nóv., tæpra 79 ára að aldri. Við fráfall hans á þjóð vor á bak að sjá merkum embættis- og stjórnmálamanni, sem vann henni af heilum hug á löngum æviferli.

Gísli Sveinsson fæddist 7. des. 1880 að Sandfelli í Öræfum. Foreldrar hans voru Sveinn Eiríksson prestur þar og alþm. og kona hans, Guðríður Pálsdóttir prófasts og þjóðfundarmanns í Hörgsdal Pálssonar. Hann lauk stúdentsprófi í Reykjavík árið 1903 og embættisprófi í lögum við Kaupmannahafnarháskóla árið 1910. Á háskólanámi sínu gerði hann nokkurt hlé sökum heilsubrests á árunum 1906–1907, dvaldist þá á Akureyri og var um skeið settur bæjarfógeti þar og sýslumaður í Eyjafjarðarsýslu. Að námi loknu varð hann yfirdómslögmaður í Reykjavík og sinnti þeim störfum til ársins 1918. Sýslumaður í Skaftafellssýslum var hann meginhluta starfsævi sinnar, á tímabilinu 1918–1947, og bjó í Vík í Mýrdal. Á árinu 1947 var hann skipaður sendiherra Íslands í Noregi með aðsetri í Osló, og gegndi hann því embætti fram á árið 1951, er hann lét af störfum sökum aldurs. Upp frá því átti hann heimili í Reykjavík og vann að ýmsum hugðarmálum sínum.

Skólaár Gísla Sveinssonar voru miklir umbrotatímar í íslenzkum þjóðmálum. Á fyrsta háskólavetri hans var náð merkum áfanga í sókn þjóðarinnar fram til sjálfstæðis, er Ísland fékk heimastjórn. En baráttunni var haldið áfram, og Gísli Sveinsson skipaði sér ótrauður þar í fylkingu, sem fyllstar kröfur voru gerðar um skilnað við Dani og algert sjálfstæði landsins. Á Hafnarárum sínum gekk hann í lið með þeim, sem flytja vildu starfsemi Hins íslenzka bókmenntafélags að fullu heim til Íslands, og sótti það mál til sigurs. Á Akureyri var hann ötull samherji Guðmundar Hannessonar í sjálfstæðisbaráttunni, og varð þeim gott til liðs.

Fram undan voru miklir sigrar, og jafnan var Gísli Sveinsson framarlega í fylkingu þeirra, sem unnu að sjálfstæði landsins og stóðu um það vörð.

Þegar Gísli Sveinsson kom heim að loknu námi, hafði hann getið sér orð fyrir framgöngu sina í sjálfstæðisbaráttunni. Upp frá því voru honum falin mörg trúnaðarstörf fyrir land og þjóð jafnframt embættisstörfum. Hann var ráðinn málflutningsmaður Landsbanka Íslands 1912–1918, skipaður í milliþn. um Flóaáveitu 1916 og í milliþn. um bankamál 1937, en fékk lausn úr henni. Hann átti sæti í Landsbankanefnd 1934–1945, var kosinn í dansk-íslenzku ráðgjafarnefndina 1938 og í milliþn. um póstmál 1943. Hann var formaður milliþn. um stjórnarskrármálið 1942–1947 og átti sæti í Alþingissögunefnd, meðan hún starfaði, 1943–1956. Hann vann mikið starf að málum hinnar íslenzku þjóðkirkju, sat í kirkjuráði frá stofnun þess, 1931, var forgöngumaður og forseti almennra kirkjufunda og tók sæti á hinu nýstofnaða kirkjuþingi 1958. Hann var formaður Félags héraðsdómara 1941–1947 og heiðursforseti þess síðan. Á Alþingi átti hann sæti á árunum 1916–1921 og 1933–1947, sat á 27 þingum alls og var lengst af þeim tíma þm. Vestur-Skaftfellinga. Forseti sameinaðs Alþingis var hann 1942 og 1943–1945. Hann var í forsæti á hinum hátíðlega fundi að Lögbergi á Þingvöllum 17. júní 1944, er lýðveldi var sett á stofn.

Hugðarmál Gísla Sveinssonar voru sjálfstæðismál íslenzku þjóðarinnar og kirkjumál, og hann var gæddur hæfileikum til að vinna þeim málum mikið gagn. Hann var rökfastur ræðumaður, vel máli farinn og sókndjarfur, en gætti þó jafnan hófs í málflutningi. Í embætti var hann röggsamur og vandur að virðingu sinni. Hann var lengi forvígismaður Skaftfellinga, vann ötullega að málum þeirra í héraði og á Alþingi og naut ástsældar og virðingar héraðsbúa. Hann var rausnarmaður heim að sækja, og gott þótti Íslendingum að leita til hans, þegar hann var fulltrúi þjóðarinnar í Noregi.

Ég vil biðja hv. alþm. að minnast hins látna merkismanns með því að rísa úr sætum. — [Þm. risu úr sætum.]