10.10.1950
Sameinað þing: 0. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 7 í B-deild Alþingistíðinda. (2)

Minning Sigurjóns Friðjónssonar

Aldursforseti (JörB):

Áður en þingstörf hefjast að þessu sinni vil ég minnast nokkrum orðum þjóðkunns manns, er átti um skeið sæti á Alþingi, Sigurjóns Friðjónssonar skálds. Hann andaðist skömmu eftir að síðasta Alþingi sleit eða 26. maí, á 83. aldursári.

Sigurjón Friðjónsson fæddist á Sílalæk í Aðaldal 22. sept. 1869, sonur Friðjóns bónda þar og síðar á Sandi Jónssonar og konu hans Sigurbjargar Guðmundsdóttur bónda á Sílalæk Stefánssonar. Hann lauk námi í búnaðarskólanum á Eiðum 1887, vann síðan næstu 5 ár á búi föður síns, en reisti bú á Sandi í Aðaldal 1892. Þar bjó hann í 14 ár, til 1906, er hann fluttist að Einarsstöðum í Reykjadal, bjó þar í 7 ár, en fluttist síðan að Litlu-Laugum og bjó þar frá 1913. Í héraði voru honum snemma falin margvísleg trúnaðarstörf. Hann var um skeið sýslunefndarmaður Aðaldæla og síðar lengi hreppsnefndaroddviti í Reykdælahreppi. Kaupfélagsmál lét hann og mjög til sín taka, var deildarstjóri í Kaupfélagi Þingeyinga í nærfellt 40 ár og alllengi annar endurskoðandi félagsins. Auk þess má nefna, að hann var um nokkurt árabil formaður fjárræktarfélags Þingeyinga. Þegar landskjör fór hér fyrst fram, 1916, var Sigurjón Friðjónsson kosinn 1. varamaður á lista Heimastjórnarflokksins og tók sæti á Alþingi 1918 í veikindaforföllum Hannesar Hafsteins, sem ekki settist á þing upp frá því. Sat Sigurjón síðan á 6 þingum, til 1922.

Þótt Sigurjón Friðjónsson njóti góðs eftirmælis sem nýtur maður í héraði, búþegn góður og traustur og ráðhollur félagsmaður, mun þó skerfur sá, er hann hefur lagt til íslenzkra bókmennta, halda nafni hans lengst á lofti, einkum hin þýðu og ljóðrænu kvæði hans. Hann tók ungur að yrkja og birti mörg ljóð sín víðs vegar í blöðum og tímaritum. Fyrsta ljóðabók hans kom þó ekki út fyrr en árið 1928, en síðar var gefin út eftir hann önnur mikil ljóðabók í 2 bindum. Auk þess hefur hann ritað og gefið út smásagnasafn o.fl., og tímarit hafa birt eftir hann ritgerðir og hugleiðingar um margvísleg efni. Í skáldskap sinum dregur hann upp margar tærar myndir tilfinninga og vökudrauma, og kliðmýkt og hljómfegurð íslenzkrar tungu bregzt honum aldrei.

Með Sigurjóni Friðjónssyni er til moldar genginn eitt hinna liprustu og ljóðrænustu íslenzkra skálda úr alþýðustétt. Ég vil biðja hv. þingmenn að votta minningu hans virðingu sína með því að risa úr sætum. — [Þm. risu úr sætum.]