10.10.1962
Sameinað þing: 0. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 7 í B-deild Alþingistíðinda. (2)

Minning látinna fyrrv. þingmanna

Minning látinna fyrrv. alþingismanna. Aldursforseti (Gísli Jónsson):

Ég vil leyfa mér að bjóða hæstv. ríkisstjórn og alla hv. þingmenn velkomna til starfa á þessu nýbyrjaða þingi svo og allt starfslið þingsins. Þetta þing, sem nú er að hefja störf sín, verður, svo sem venja er til, að leysa margan vanda. Er það ósk mín og bæn, að við störf þess öll megi ríkja víðsýni og réttlæti, svo að samþykktir allar megi verða landi og lýð til blessunar.

Ég vil leyfa mér að minnast hér nokkrum orðum tveggja fyrrverandi þingmanna, sem látizt hafa á þeim tíma, sem liðinn er frá síðustu þingslitum, þeirra Erlends Friðjónssonar fyrrum kaupfélagsstjóra á Akureyri, sem andaðist í sjúkrahúsi hér í bæ 18. júlí s.1., hálfníræður að aldri, og Jóns Kjartanssonar sýslumanns í Vík í Mýrdal, sem lézt í sjúkrahúsi hér í bæ s.l. laugardag, 6. okt., á sjötugasta aldursári.

Erlingur Friðjónsson var fæddur 7. febrúar 1877 á Sandi í Aðaldal. Foreldrar hans voru Friðjón bóndi þar Jónsson bónda á Hafralæk í Aðaldal Jónssonar og bústýra hans, Helga Halldórsdóttir frá Skútustöðum Gamalíelssonar. Hann ólst upp á Sandi hjá foreldrum sínum, stundaði nám í Ólafsdalsskóla, lauk þaðan prófi 1903 og átti síðan heimili á Akureyri. Stundaði hann þar smíðar og daglaunavinnu fram til ársins 1918. Framkvæmdastjóri Kaupfélags verkamanna á Akureyri var hann frá 1918 í full 40 ár, en vann síðan að skrifstofustörfum hjá Kaupfélaginu, meðan honum entist heilsa.

Erlingur Friðjónsson hlaut gott uppeldi á menningarheimili í hópi margra systkina. Hann átti til gáfumanna að telja, og í ætt hans var rík skáldgáfa og örugg hagmælska. Urðu tveir bræður hans, Guðmundur og Sigurjón, þjóðkunn skáld. Hann var vel að heiman búinn í andlegum efnum, þótt skólaganga stæði skammt. Átti hann síðar mikinn þátt í félagsmálastörfum á Akureyri og var tíðum valinn þar til forustu. Á yngri árum gegndi hann formennsku í Ungmennafélagi Akureyrar. Hann var um skeið formaður Verkamannafélags Akureyrar, Verkalýðsfélags Akureyrar og forseti Verkalýðssambands Norðurlands. Einnig átti hann sæti í stjórn Alþýðusambands Íslands og Alþýðuflokksins. Formaður Byggingarfélags verkamanna á Akureyri var hann um langan tíma. Í bæjarstjórn Akureyrar átti hann sæti óslitið í 31 ár, frá 1915 til 1946. Þingmaður Akureyrarkaupstaðar var hann 1927–1931, sat á fjórum þingum. Í útflutningsnefnd síldareinkasölu var hann kosinn 1928.

Erlingur Friðjónsson var þrekmenni og naut góðrar heilsu á langri ævi. Hann var stefnufastur og heilsteyptur, ósérhlífinn og harðskeyttur, ef því var að skipta. Hann var vel ritfær og gekkst fyrir blaðaútgáfu á Akureyri, stofnaði blaðið Verkamanninn ásamt Halldóri bróður sínum, og síðar Alþýðumanninn, og var Erlingur ritstjóri hans árin 1931-1947. Á síðustu árum sinum fékkst hann við að ríta endurminningar sínar, og hefur upphaf þeirra birzt þegar á prenti. Á Alþingi átti hann drjúgan þátt í þeim breytingum, sem urðu á þeim árum á skipulagi síldarútflutnings og síldarvinnslu. Hann var á þinginu 1928 fyrri fim. frv. um stofnun síldarbræðslustöðva á Norðurlandi, er varð að lögum og var upphaf síldarverksmiðja ríkisins. Einnig var hann Akureyringum góður liðsmaður í baráttu þeirra í skólamálum á þeim árum.

Með Erlingi Friðjónssyni er fallinn í valinn baráttumaður, sem lifði mikla umbrotatíma í þjóðlífi voru, hlaut gáfur og þrek í vöggugjöf og barðist ótrauður fyrir þeim stefnumálum, sem hann taldi horfa til mestra heilla fyrir land sitt og þjóð.

Jón Kjartansson var fæddur 20. júlí 1893 í Skál á Síðu. Foreldrar hans voru Kjartan bóndi þar Ólafsson bónda og alþingismanns á Höfðabrekku Pálssonar og kona hans, Oddný Runólfsdóttur bónda í Holti á Síðu Jónssonar. Hann lauk gagnfræðaprófi á Akureyri árið 1912, brautskráðist úr menntaskólanum í Reykjavík 1915 og tók lögfræðipróf við Háskóla Íslands 1919. Fulltrúi lögreglustjórans í Reykjavík var hann 1919-1923. Siðan gerðist hann ritstjóri Morgunblaðsins og gegndi því starfi á árunum 1924–1947. Jafnframt var hann um langt skeið ritstjóri Ísafoldar og Varðar. Á miðju ári 1947 var hann skipaður sýslumaður í Skaftafellssýslu og gegndi því embætti til dánardags. Endurskoðandi Landsbanka Íslands var hann frá 1933 til æviloka.

Aðalstarf Jóns Kjartanssonar var annars vegar lögfræði- og dómarastörf, hins vegar blaðamennska, sem hann vann að á bezta skeiði starfsævi sinnar. Við það starf sitt hafði hann allmikil afskipti af landsmálum og aflaði sér víðtækrar þekkingar á því sviði, Í héraðsdómarastörfum var hann glöggur og reglusamur embættismaður og réttsýnn dómari. Á Alþingi átti hann sæti rúman áratug, var þingmaður Vestur-Skaftfellinga 1924-1927 og 1953–1959. Á kjörtímabili því, sem nú stendur yfir, hefur hann tekið sæti á tveimur þingum sem varaþingmaður. Sat hann á 12 þingum alls.

Jón Kjartansson var háttprúður maður, stilltur vel og gætinn. Störf hans á stjórnmálasviði í ræðu og riti auðkenndust af háttprýði hans og ljúfmennsku, þótt hann héldi jafnan fast á málstað og hvikaði ekki frá stefnu sinni. Hann var vel látinn í blaðamannastétt, jafnt í hópi andstæðinga sem samherja. Í sýslumannsstörfum naut hann sömu mannkosta og var vinsæll í héraði. Á Alþingi tók hann að jafnaði ekki mikinn þátt í umr., en var tillögugóður í þeim málum, sem honum voru hugleikin eða vörðuðu að einhverju leyti embættisstörf hans. Hann var glaður og reifur í mannfagnaði og hugþekkur í viðkynningu. á síðustu árum ævi sinnar átti hann við vanheilsu að stríða, sem hann bar af karlmennsku og æðruleysi. Við fráfall hans er á bak að sjá drengskaparmanni, vinsælum og vel látnum.

Ég vil biðja hv. alþingismenn að votta minningu þessara tveggja mikilhæfu manna, Erlings Friðjónssonar og Jóns Kjartanssonar, virðingu sína með því að rísa úr sætum. — [Þingheimur reis úr sætum. — Síðan gekk forseti Íslands úr þingsalnum.]