22.04.1966
Sameinað þing: 39. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2808 í B-deild Alþingistíðinda. (2160)

Minning látinna manna

forseti (BF):

Sveinbjörn Högnason fyrrum alþm. og prófastur á Breiðabólstað í Fljótshlíð andaðist í gærmorgun, 21. apríl, að heimili sínu, Staðarbakka í Fljótshlíð, 68 ára að aldri. Vil ég leyfa mér að minnast þessa mæta manns nokkrum orðum.

Sveinbjörn Högnason var fæddur 6. apríl 1898 í Eystri-Sólheimum í Mýrdal. Foreldrar hans voru Högni bóndi þar Jónsson bónda í Pétursey í Mýrdal Ólafssonar og kona hans, Ragnhildur Sigurðardóttir bónda í Pétursey Eyjólfssonar. Hann lauk stúdentsprófi í Reykjavík vorið 1918 og guðfræðiprófi við háskólann í Kaupmannahöfn 1925. Framhaldsnám í gamla testamentisfræðum og austurlandamálum stundaði hann við háskólann í Leipzig veturinn 1925–1926. Í júnímánuði 1926 varð hann sóknarprestur í Laufási, en var veittur Breiðabólstaður í Fljótshlíð snemma árs 1927 og þjónaði því prestakalli til 1. júní 1963, er honum var veitt lausn frá embætti að eigin ósk. Prófastur í Rangárvallaprófastsdæmi var hann frá 1941–1963.

Auk prestsstarfa í fjölmennum sóknum og stórbúskapar á Breiðabólstað gegndi Sveinbjörn Högnason mörgum trúnaðarstörfum á ýmsum sviðum. Hann stundaði um skeið kennslu og var settur skólastjóri Gagnfræðaskólans í Flensborg skólaárið 1930–1931. Hann átti lengi sæti í hreppsnefnd og skólanefnd. Í mþn. í kirkjumálum starfaði hann 1929–1931 og var formaður mþn. um skipun prestakalla 1951. Í stjórn Prestafélags Íslands átti hann sæti um skeið. Hann var formaður mjólkursölunefndar frá 1934 og formaður stjórnar Mjólkursamsölunnar frá upphafi hennar. Í framleiðsluráði landbúnaðarins átti hann sæti á árunum 1947–1959. Hann var um hríð endurskoðandi reikninga Búnaðarbankans og sat í landsbankanefnd. Á Alþ. átti hann sæti 1931–1933, 1937–1946 og 1956–1959, sat á 19 þingum alls.

Sveinbjörn Högnason var guðfræðingur að menntun, prestur að ævistarfi og stórbóndi. Áhugamál hans voru mörg, en kirkjumál og landbúnaðarmál ber hæst í starfi hans á Alþ. og öðrum vettvangi þjóðmála. Eins og æviágripið að framan ber með sér, var hann víða valinn til forystu og ráðuneytis um þau efni. Hann var að dómi allra, er til hans þekktu, afkastamikill til starfa, gáfaður og fjölfróður, harðsækinn ræðumaður og ötull málafylgjumaður. Með ævistörfum sínum markaði hann þau spor, sem sjá mun stað um langan aldur, og sóknarbörn hans og aðrir áheyrendur munu minnast hans sem góðs kennimanns og mikils ræðuskörungs.

Ég vil biðja hv. alþm. að votta minningu Sveinbjarnar Högnasonar virðingu sína með því að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]