13.01.1987
Sameinað þing: 37. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2245 í B-deild Alþingistíðinda. (2177)

Minning látinna manna

Forseti (Helgi Seljan):

Kjartan J. Jóhannsson læknir og fyrrv. alþm. andaðist í sjúkrahúsi í Reykjavík miðvikudaginn 7. janúar tæplega áttræður að aldri. Kjartan J. Jóhannsson var fæddur 19. apríl 1907. Foreldrar hans voru hjónin Jóhann Ármann úrsmiður Jónasson bónda í Drangshlíð undir Eyjafjöllum Kjartanssonar og Ólöf Jónsdóttir bónda á Álftanesi á Mýrum Oddssonar. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík vorið 1925 og læknisfræðiprófi frá Háskóla Íslands 1931. Síðar á árinu 1931 var hann fimm mánuði við framhaldsnám í sjúkrahúsi í Nürnberg í Þýskalandi. Á starfsferli sínum eftir það fór hann margar náms- og kynnisferðir til sjúkrahúsa erlendis og kynnti sér í flestum ferðum einkum handlækningar og svæfingar en einnig barnaverndar- og áfengismál. Árið 1978 var hann viðurkenndur sérfræðingur í heimilislækningum.

Á árunum 1931-1932 gegndi hann um stundarsakir héraðslæknisstörfum í Seyðisfjarðarhéraði, Blönduóshéraði og loks í Stykkishólmshéraði. Haustið 1932 settist hann að á Ísafirði sem starfandi læknir og var jafnframt aðstoðarlæknir við sjúkrahúsið þar og staðgengill héraðs- og sjúkrahúslæknis í fjarvistum hans. Sjúkrahúslæknir var hann 1942-1946 og nokkra mánuði á árinu 1954 meðan beðið var eftir nýjum sjúkrahúslækni.

Vorið 1963 var hann skipaður héraðslæknir í Kópavogshéraði en lét af því embætti í febrúar 1978 fyrir aldurs sakir. Eftir það var hann yfirlæknir Sjúkrahótels Rauða kross Íslands í Reykjavík.

Kjartan J. Jóhannsson lagði víða lið í félagsmálum og framkvæmdum á starfsárum sínum á Ísafirði og síðar hér syðra. Hann var formaður nefndar sem sá um byggingu sundhallar á Ísafirði 1944-45, formaður Skíðafélags Ísafjarðar, í stjórn Skógræktarfélags Ísafjarðar, formaður Læknafélags Vestfjarða og Ísafjarðardeildar Rauða krossins og síðar í stjórn Rauða kross Íslands. Hann var í stjórn útgerðarfélaga og rækjuverksmiðju á Ísafirði. Í bæjarstjórn Ísafjarðar átti hann sæti 1954-1958. Umdæmisstjóri Rotary-klúbbanna á Íslandi var hann 1951-1952. Á Alþingi átti hann fyrst sæti í nóvember og desember 1946 sem landskjörinn varaþm. Sjálfstfl. Alþm. Ísafjarðarkjördæmis var hann 1953-1959 og Vestfjarðakjördæmis 1959-1963, sat á tólf þingum alls.

Í tryggingaráði átti hann sæti 1953-1971 og í áfengisvarnaráði frá stofnun þess 1954 til 1978. Árið 1954 var hann kjörinn í milliþinganefnd í heilbrigðismálum, en var leystur frá störfum í nefndinni að eigin ósk. Sama ár var hann kosinn í nefnd til að endurskoða lög um almannatryggingar. Í stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs var hann 1956-1963. Í maí 1959 var hann kjörinn í milliþinganefnd til að athuga á hvern hátt unnt væri að búa öldruðu fólki skilyrði til að nota starfsorku sína og árið 1966 í nefnd til að stjórna framkvæmd breytingar frá vinstri til hægri umferðar. Formaður Geðverndarfélags Íslands var hann 1966-1975 og formaður Félags íslenskra bifreiðaeigenda 1971-1974 og síðar heiðursfélagi þess.

Kjartan J. Jóhannsson lauk læknisfræðiprófi tæplega hálfþrítugur og starfaði við lækningar og líknarmál ævilangt upp frá því. Í þeim störfum sínum ávann hann sér hylli á heimaslóðum sínum með ljúfmennsku, samviskusemi og ósérhlífni. Hann var ötull starfsmaður, vel íþróttum búinn, viðbragðsfljótur og félagslyndur. Vegna þessara og annarra mannkosta hlóðust á hann margvísleg störf á öðrum sviðum. Á Alþingi sinnti hann mest heilbrigðismálum og framfaramálum kjördæmis síns. Mörg áranna á þingi átti hann sæti í fjvn. og var formaður hennar á tveimur síðustu þingunum. Hann átti frumkvæði að lögum um bann við hnefaleikum sem voru samþykkt árið 1956. Hann bar fram á Alþingi till. um hægri umferð og átti síðar þátt í farsælli framkvæmd laga um það efni. Hann var tillögugóður og samstarfsfús og lauk miklu ævistarfi á löngum ferli.

Ég vil biðja hv. alþm. að minnast Kjartans J. Jóhannssonar með því að rísa úr sætum. - [Þingmenn risu úr sætum.]