18.03.1976
Sameinað þing: 66. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2655 í B-deild Alþingistíðinda. (2195)

Minnst látins fyrrv. þingmanns

Forseti (Ásgeir Bjarnason):

Áður en gengið verður til dagskrár vil ég minnast Þorsteins M. Jónssonar fyrrv. skólastjóra, alþm. og bókaútgefanda, sem andaðist í gær, 17. mars, í Vífilsstaðaspítala, níræður að aldri.

Þorsteinn M. Jónsson var fæddur á Útnyrðingsstöðum á Völlum í Suður-Múlasýslu 20, ágúst 1885. Foreldrar hans voru Jón bóndi þar Ólason bónda á Útnyrðingsstöðum Ísleifssonar og kona hans, Vilborg Þorsteinsdóttir bónda og skálds í Mjóanesi á Völlum Mikaelssonar. Hann lauk gagnfræðaprófi á Akureyri vorið 1905, var heimiliskennari á Akureyri veturinn 1905–1906 og kennari við barnaskólann á Seyðisfirði 1907–1908. Veturinn 1908–1909 var hann við nám í Kennaraskólanum í Reykjavik og lauk þaðan kennaraprófi um vorið. Hann stofnaði unglingaskóla í Borgarfirði eystra haustið 1909 og hélt hann til 1919. Skólastjóri við barnaskólann þar var hann 1910– 1919. Búskap rak hann að Hvoli í Borgarfirði 1910–1918 og í Stóru-Breiðuvík 1918–1921, ennfremur smábátaútgerð í Bakkagerði 1913–1918. Kaupfélagsstjóri í Bakkagerði var hann árin 1918–1921. Árið 1921 fluttist hann til Akureyrar og var kennari við barnaskólann þar 1921–1932 og skólastjóri gagnfræðaskólans á Akureyri 1935-1955. Jafnframt hafði hann búskap í Skjaldarvík syðri við Eyjafjörð 1922–1924 og að Svalbarði á Svalbarðsströnd 1934–1939. Hann rak bóka- og ritfangaverslun á Akureyri á árunum 1923–1935. Árið 1924 hóf hann bókaútgáfu er hann stundaði fram á elliár. Hann átti sæti í stjórn Síldarverksmiðja ríkisins 1936–1943 og var sáttasemjari í vinnudeilum á Norðurlandi 1939–1956. Alþm. norðmýlinga var hann kjörinn haustið 1946 og sat á þingi til 1923, á 9 þingum alls.

Þorsteinn M. Jónsson var einn hinna mörgu bókhneigðu og námfúsu unglinga á fyrstu áratugum þessarar aldar, sem brutust til mennta af litlum efnum, en áttu engan kost þeirrar skólagöngu sem þeir þráðu. Hann stundaði framhaldsnám í skólum þrjá vetur undir handleiðslu afburðakennara. Þó að hann hafi lagt hönd að mörgu siðar um ævina var langstærsti þátturinn í starfsferli hans að fræða aðra. Hann var kennari og skólastjóri í fimm áratugi, mikill skólamaður. Jafnframt var hann stórvirkur bókaútgefandi. Gaf út skáldrit nokkurra fremstu höfunda íslenskra á þeim tíma, ýmislegan þjóðlegan fróðleik og margar kennslubækur. Hann gaf út tímaritið Nýjar kvöldvökur og var ritstjóri þess 1933–1956, og ásamt Jónasi Rafnar yfirlækni safnaði hann þjóðlegum fróðleik og gaf út í ritinu Grímu á árunum 1935–1950. Hann eignaðist mikið og vandað bókasafn, sem hann rækti af alúð og kappi, og nýtur nú stofnun Árna Magnússonar góðs af því eljuverki hans.

Þorsteinn M. Jónsson hóf ungur afskipti af félagsmálum. Hann var einn af stofnendum ungmennafélags á Akureyri árið 1906 og átti síðar á sama ári frumkvæði að stofna ungmennafélags heima í Vallahreppi, hins fyrsta á austurlandi. Hann var bindindismaður, ferðaðist á vegum Stórstúkunnar um Austurland vorið 1908, þegar bannmálið var á döfinni, og var síðar lengi formaður áfengisvarnanefndar Akureyrar. Hann var hreppsnefndarmaður og sýslunefndarmaður síðustu ár sín á Borgarfirði eystra og siðar bæjarfulltrúi á Akureyri 1942–1956, forseti bæjarstjórnarinnar 1944–1958. Og á Akureyri átti hann sæti í skólanefndum barnaskóla, gagnfræðaskóla og húsmæðraskóla.

Nú eru senn sex áratugir síðan Þorsteinn M. Jónsson tók fyrst sæti á Alþ. Hann var íhópi yngstu alþm, á þeim tíma. Flokksbræður hans völdu hann til setu í sambandslaganefndinni 1918, og var honum ljúft starf að vinna í þeirri nefnd að því að losa um stjórnarfarsleg tengsl Íslands við Danmörku og ná þeim mikilvæga áfanga sem þá vannst. Á Alþingi 1922 flutti hann og fékk samþykkta till. til þál. um útgáfu á sögu Alþingis í tilefni 1000 ára afmælis þess. Hann flutti á þingi 1923 frv. um stofnun menntaskóla Norður- og Austurlands á Akureyri og var á Alþingi einn forvígismanna að stofnun þjóðleikhúss. Hann var snjall rithöfundur og ræðumaður, rökfastur og fylginn sér í málflutningi. Hann lifði langa ævi og vann mikið og áhrifaríkt ævistarf, kom víða við sögu þjóðmála og menningarmála á fyrri helmingi þessarar aldar. Skóla- og menntunarstarfið mun hafa verið honum hugleiknast, enda lét hann svo um mælt í blaðaviðtali áttræður að aldri, að hann mundi kjósa skólastarfið ef hann ætti að velja á nýjan leik.

Ég vil biðja hv. alþm. að minnast Þorsteins M. Jónssonar með því að rísa úr sætum. — [Þm. risu úr sætum.]