28.04.1969
Sameinað þing: 44. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 2186 í B-deild Alþingistíðinda. (2229)

Minning látinna fyrrv. alþingismanna

forseti (BF):

Óskar Jónsson fyrrv. alþm. andaðist í sjúkrahúsi á Selfossi s. l. laugardag, 26. apríl, tæplega sjötugur að aldri. Hann var kjörinn alþm. Vestur-Skaftfellinga vorið 1959, sat á sumarþinginu það ár, var síðan tvö kjörtímabil varaþm. í Suðurlandskjördæmi og tók öðru hverju sæti á þingi, síðast í aprílmánuði 1967. Hann átti sæti á 6 þingum alls.

Óskar Jónsson var fæddur 3. sept. 1899 á Nesi í Norðfirði. Foreldrar hans voru Jón Eyjólfsson, síðar sjómaður í Hafnarfirði, og Ragnhildur Gunnarsdóttir frá Holtsenda í Mýrdal. Hann ólst að mestu upp í Mýrdalnum og átti heimili í Vík í Mýrdal frá árinu 1907 til 1960. Tvo vetur var hann við nám í unglingaskóla í Vík. Framan af ævi stundaði hann ýmis störf í sveit og við sjó. Á árunum 1921–1936 var aðalstarf hans sjómennska á togurum. Eftir það var hann fyrst afgreiðslumaður, en síðar lengst af skrifstofumaður hjá Kaupfélagi Skaftfellinga fram til ársins 1960, þegar hann varð félagsmálafulltrúi Kaupfélags Árnesinga á Selfossi. Því starfi gegndi hann til æviloka.

Óskar Jónsson tók þátt í margvíslegu félagsstarfi um ævina. Hann starfaði á yngri árum í ungmennafélagi, góðtemplarastúku, slysavarnafélagi og skógræktarfélagi. Í yfirskattanefnd Skaftafellssýslu var hann 1942–1960 og sýslunefndarmaður 1954–1960. Hann var góður söngmaður og áhugamaður um söng, var formaður Kirkjukórasambands Vestur-Skaftfellinga og síðar í stjórn Tónlistarfélags Árnesinga. Síðustu árin var hann formaður Verzlunarmannafélags Árnesinga og sat á vegum þess á þingum Alþýðusambands Íslands.

Óskar Jónsson þekkti vel af eigin reynslu frá ungum aldri starfshætti íslenzkrar alþýðu til sjávar og sveita. Hann var ötull starfsmaður og skeleggur baráttumaður fyrir áhugamálum sinum. Hann átti skamma og stopula setu á Alþingi, en tók hér jafnan nokkurn þátt í umr. og lét í ljós skoðanir sínar afdráttarlaust. Hann var ósérhlífinn félagsmaður í ýmsum samtökum og naut þar trausts til forustu á mörgum sviðum.

Ég vil biðja hv. alþm. að minnast Óskars Jónssonar með því að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]