12.10.1978
Sameinað þing: 2. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 13 í B-deild Alþingistíðinda. (23)

Minnst látins fyrrv. alþingismanns

Forseti (Gils Guðmundsson):

Áður en gengið er til dagskrár verður minnst látins fyrrv. alþm., Sigurðar Ingimundarsonar forstjóra, sem andaðist í Landsspítalanum á föstudaginn 13. október, 65 ára að aldri.

Sigurður Ingimundarson var fæddur í Reykjavík 10. júlí 1913. Foreldrar hans voru Ingimundur verkamaður í Reykjavík Einarsson bónda að Stöðlum í Ölfusi Jónssonar og kona hans, Jóhanna Egilsdóttir, bónda í Hörglandskoti á Síðu Guðmundssonar. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík vorið 1934, stundaði nám í læknadeild Háskóla Íslands veturinn 1934–1935. Haustið 1935 hóf hann nám í efnaverkfræði við verkfræðiháskólann í Þrándheimi og lauk prófi þaðan 1939. Sumrin 1962 og 1963 var hann síðan við nám í verkstjórnarfræðum og vinnuhagræðingu í Osló. Hann var verkfræðingur við Síldarverksmiðjur ríkisins á Siglufirði sumrin 1940–1942 og við síldarverksmiðjuna Rauðku sumarið 1944. Jafnframt öðrum störfum var hann starfsmaður við hráefnaskömmtum til matvælaiðnaðarins hjá Skömmtunarskrifstofu ríkisins 1940–1950. Kennari við Gagnfræðaskóla Reykvíkinga, síðar Gagnfræðaskóla Vesturbæjar var hann árin 1942–1953, stundakennari við Menntaskólann í Reykjavík 1948–1955 og kennari við Verslunarskólann 1953–1070, yfirkennari þar frá 1957. Jafnframt var hann forstöðumaður verkstjórnarnámskeiða frá því er þau voru upp tekin 1962 til 1970. 1. maí 1970 varð hann forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins og gegndi því starfi til æviloka.

Sigurður Ingimundarson hafði margs konar afskipti af félagsmálum og landsmálum. Hann var varaformaður Landssambands framhaldsskólakennara 1948–1960, átti sæti í stjórn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja 1948–1962 og var formaður bandalagsins 1956–1960. í stjórn Bæjarútgerðar Reykjavíkur var hann 1949–1962. Árið 1958 var hann skipaður í nefnd til að endurskoða skólalöggjöfina, 1960 í endurskoðunarnefnd skattalaga og 1961 formaður endurskoðunarnefndar laga um iðnskóla og iðnfræðslu. Hann var skipaður 1962 í landsprófsnefnd, 1965 í nefnd til að stjórna framkvæmd áætlunar um opinberan stuðning við samtök vinnumarkaðarins vegna hagræðingarstarfsemi, og hann átti sæti í Hagráði 1966–1971. Árið 1967 var hann kosinn í nefnd til undirbúnings að löggjöf um staðgreiðslu opinberra gjalda. Hann var skipaður 1970 í endurskoðunarnefnd laga um almannatryggingar, 1971 í endurskoðunarnefnd tryggingakerfisins og enn 1975 í nefnd til að endurskoða lög um almannatryggingar. Á Alþingi átti hann sæti 1959–1971, sat á 12 þingum alls. Hann átti lengst sæti í fjárhagsnefnd og iðnaðarnefnd, og hann var varaforseti sameinaðs Alþingis 1963–1971. Í Norðurlandaráði átti hann sæti 1959-1971.

Sigurður Ingimundarson hlaut á æskuárum sínum náin kynni af samtökum verkalýðsins og baráttu hans fyrir bættum kjörum. Faðir hans var einn frumherjanna í samtökum verkamanna í Reykjavík. Móðir hans, sem enn er á lífi háöldruð og tók eitt sinn skamma stund varamannssæti á Alþingi, gegndi um áratugi formennsku og forustu í félagi verkakvenna. Þessarar reynslu æskuáranna naut Sigurður síðar á ævinni, þegar hann var kjörinn til trúnaðarstarfa og valinn til forustu í samtökum stéttar sinnar og stéttasamtaka og vann þar að kjara- og réttarbótum. Þrjá áratugi starfaði hann að kennslu í skólum og fræðslu á námskeiðum. Hann var traustur og farsæll kennari og lagði m.a. með fræðslu sinni og nefndarstörfum grundvöll að bættri verkmenntun þjóðarinnar á ýmsum sviðum. Hann var glöggskyggn og ráðhollur í nefndarstörfum, gagnorður í ræðustól, fylginn sér í baráttu fyrir þeim málum sem honum voru hugfólin.

Ég vil biðja hv. alþm. að minnast Sigurðar Ingimundarsonar með því að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum].