26.04.1976
Sameinað þing: 79. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3241 í B-deild Alþingistíðinda. (2664)

Minnst látins fyrrv. alþingismanns

Forseti (Ásgeir Bjarnason):

Til þessa fundar er boðað til að minnast Sigurðar Ágústssonar fyrrv. alþm., sem andaðist á heimili sínu í Stykkishólmi aðfaranótt annars páskadags, 19. apríl, 79 ára að aldri.

Sigurður Ágústsson var fæddur í Stykkishólmi 25. mars 1897. Foreldrar hans voru Ágúst verslunarstjóri þar Þórarinsson jarðyrkjumanns að Stóra-Hrauni á Eyrarbakka Arnasonar og kona hans, Ásgerður Arnfinnsdóttir bónda í Vatnsholti í Staðarsveit Arnfinnssonar. Hann ólst upp í foreldrahúsum og hóf ungur að árum að vinna við verslun. Síðar stundaði hann einn vetur verslunarnám í Kaupmannahöfn og lauk þar verslunarskólaprófi vorið 1917. Fulltrúi við verslun Tang & Rils í Stykkishólmi var hann árin 1917–1931, en keypti fasteignir þeirrar verslunar árið 1932 og hóf þar verslunarrekstur og útgerð. Árið 1941 reisti hann hraðfrystihús í Stykkishólmi. Rekstur og forstaða verslunar, fiskveiða og fiskvinnslu var aðalstarf hans langan aldur. Verslunina seldi hann í árslok 1966, en hélt áfram atvinnurekstri við fiskvinnslu til æviloka.

Sigurður Ágústsson átti höfuðstöðvar atvinnurekstrar síns í Stykkishólmi og hafði þar á ýmsum tímum umsvif á fleiri sviðum en hér voru talin, fékkst t.a.m. við loðdýrarækt í stórum stíl, rekstur brauðgerðar og áætlunarbifreiða. Hann rak einnig verslun, útgerð og fiskverkun víðar á Snæfellsnesi, ýmist einn eða í félagi við aðra. Honum voru falin margs konar trúnaðarstörf á vegum sveitarfélags, sýslufélags og landssamtaka. Hann átti sæti í hreppsnefnd Stykkishólms árin 1922–1950, í stjórn Sparisjóðs Stykkishólms 1928–1964, var sýslunefndarmaður frá 1938–1974. Í stjórn Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna var hann frá 1947, í stjórn Síldarverksmiðja ríkisins 1950–1970, í stjórn Samlags skreiðarframleiðenda frá stofnun þess 1953, og hann átti lengi sæti í stjórn Landshafnar í Rifi. Alþm. snæfellinga var hann á árunum 1949–1959 og síðan þm. Vesturlandskjördæmis 1959–1967. Sat hann á 19 þingum alls.

Sigurður Ágústsson átti alla ævi heimili í Stykkishólmi. Hann var stórhuga og framkvæmdasamur athafnamaður. Við slíkan atvinnurekstur sem hann hafði með höndum og háður er misjöfnu árferði og verðsveiflum eiga menn bæði blíðu og stríðu að mæta. Við umfangsmikil störf sín kynntist hann vel mönnum og málefnum. Er hann gaf kost á sér til þingmennsku var hann því vel undir hana búinn og átti að fagna traustu fylgi sýslunga sinna. Á Alþingi vann hann með hógværð, dugnaði og þrautseigju að framgangi áhugamála sinna. Hann var umhyggjusamur um velferðarmál sveitar sinnar og sýslu, og á Alþingi tókst honum að hrinda í framkvæmd ýmsum framfaramálum héraðsins, þar á meðal stórframkvæmdum í vegagerð og hafnarbótum. Margir urðu til að leita liðsinnis hans, og með ljúfmennsku, greiðvikni og drengskap í viðskiptum tókst honum að leysa margra vanda. Hann var um langt skeið miklum störfum hlaðinn, en létti þeim af sér smám saman, er elli færðist yfir. Tæpum mánuði fyrir andlát sitt naut hann þeirrar sæmdar að vera kjörinn heiðursborgari Stykkishólms.

Ég vil biðja hv. alþm. að minnast Sigurðar Ágústssonar með því að rísa úr sætum. - [Þm. risu úr sætum.]