19.10.1971
Sameinað þing: 4. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2483 í B-deild Alþingistíðinda. (2666)

Minning látinna fyrrv. þingmanna

Forseti (EystJ):

Áður en gengið er til dagskrár, vil ég leyfa mér að minnast með nokkrum orðum Gunnars Jóhannssonar fyrrv. alþm., sem andaðist hér í borg aðfaranótt s. l. sunnudags, 76 ára að aldri. Gunnar Jóhannsson var fæddur 29. sept. 1895 í Bjarnastaðagerði í Hofshreppi í Skagafjarðarsýslu. Foreldrar hans voru Jóhann bóndi á Hrauni í Hofshreppi Símonarson bónda á Hrauni og Bjarnastöðum í Hofshreppi Kristjánssonar og kona hans Anna Ólafsdóttir bónda í Bæ og á Spáná í Hofshreppi Ólafssonar.

Gunnar var tekinn nýfæddur í fóstur af föðursystur sinni og eiginmanni hennar og ólst upp á Grundarlandi í fæðingarsveit sinni. Hann naut fræðslu í barnaskóla þrjá vetur og var síðan við nám í unglingaskóla tvo vetur, en varð að hverfa frá frekara skólanámi sökum veikinda. Hann fluttist til Reykjavíkur árið 1917 og þaðan til Siglufjarðar 1928 og bjó þar meginhluta starfsævi sinnar. Sjómennsku stundaði hann í 12 ár, en síðan ýmis störf í landi, verkamannavinnu og verkstjórn auk mikilla starfa að félagsmálum verkalýðshreyfingarinnar. Gunnar Jóhannsson átti lengi sæti í stjórn verkalýðsfélaga á Siglufirði og var fastráðinn starfsmaður þeirra um 10 ára skeið. Hann átti sæti í bæjarstjórn Siglufjarðar 24 ár og var forseti bæjarstjórnar eitt kjörtímabil. Margvíslegum nefndarstörfum gegndi hann á Siglufirði og átti sæti í stjórn Alþýðusambands Norðurlands og Alþýðusambands Íslands. Hann átti sæti á Alþingi á árunum 1953–1963 og sat á 11 þingum alls.

Gunnar Jóhannsson ól aldur sinn lengst af á Siglufirði, bæ mikilla athafna og umsvifa við síldveiði og síldarverkun á þeim tíma. Hann hafði ungur gengið í samtök þeirra manna, sem börðust ötullega fyrir bættum kjörum verkalýðsins. Hann var snemma valinn í forustusveit siglfirzkra verkamanna og átti þar upp frá því fylgi þeirra að fagna. Hann vann af alúð og harðfylgi að hagsmunamálum verkalýðsins. Einlægni hans og drengskapur öfluðu honum trausts samherja og andstæðinga. Á Alþ. beitti hann sér aðallega fyrir umbótum í atvinnu- og samgöngumálum Siglfirðinga og auknu öryggi og bættum aðbúnaði sjómanna. Ósérhlífinn var hann jafnan og óeigingjarn, brást ekki þeim málstað, sem hann helgaði ævistarf sitt. Um sjötugsaldur flutti hann heimili sitt frá Siglufirði til Reykjavíkur og dvaldist hér síðustu æviárin.

Ég vil biðja hv. alþm. að minnast Gunnars Jóhannssonar með því að risa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.