05.04.1972
Sameinað þing: 53. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2486 í B-deild Alþingistíðinda. (2669)

Minning látinna fyrrv. þingmanna

Forseti (EystJ):

Vilmundur Jónsson fyrrv. landlæknir og alþm. andaðist í sjúkrahúsi hér í Reykjavík 28. marz s. l., 82 ára að aldri. Hann átti sæti á Alþingi á árunum 1931–1934 og 1937–1941, en sagði af sér þingmennsku í júlí það ár og hafði þá setið á átta þingum alls. Vilmundur Jónsson var fæddur 28. maí 1889 að Fornustekkum í Nesjum í Austur-Skaftafellssýslu. Foreldrar hans voru Jón bóndi þar og síðar verkamaður á Seyðisfirði Sigurðsson á Borg á Mýrum í Austur-Skaftafellssýslu Bjarnasonar og kona hans Guðrún Guðmundsdóttir bónda að Taðhóli í Nesjum Guðmundssonar.

Hann lauk gagnfræðaprófi á Akureyri vorið 1908, stúdentsprófi úr Menntaskólanum í Reykjavík 1911 og embættisprófi í læknisfræði við Háskóla Íslands vorið 1916. Þá um sumarið starfaði hann í sjúkrahúsi í Osló, en var um haustið settur héraðslæknir í Þistilfjarðar héraði. Haustið 1917 var hann settur héraðslæknir í Ísafjarðarhéraði, skipaður í það starf 1919 og jafnframt yfirlæknir sjúkrahússins þar. Gegndi hann þeim störfum til 1. okt. 1931, er hann var skipaður landlæknir. Var hann landlæknir tæpa þrjá áratugi, en lét af því embætti vegna aldurs í árslok 1959.

Vilmundur Jónsson gegndi ýmsum störfum á sviði heilbrigðis- og félagsmála jafnframt aðalstarfi sínu. Hann átti sæti í bæjarstjórn Ísafjarðarkaupstaðar 1922–1931, sat í skólanefnd kaupstaðarins 1926–1931, var í stjórn Kaupfélags Ísfirðinga frá stofnun þess 1920–1931 og formaður í stjórn Samvinnufélags Ísfirðinga frá stofnun þess 1927 til 1931. Hann var í stjórn Kaupfélags Reykjavíkur 1935–1936 og síðan í framkvæmdastjórn Kaupfélags Reykjavíkur og nágrennis 1937–1943. Hann var formaður stjórnarnefndar Landsspítalans 1931–1933 og síðan ríkisspítalanna 1933–1959, forseti læknaráðs frá stofnun þess 1942 til 1959, formaður skólanefndar Lyfjafræðingaskóla Íslands frá stofnun hans 1940–1957 og formaður skólanefndar Hjúkrunarskóla Íslands 1945–1959. Sæti átti hann í stjórnskipaðri nefnd, sem samdi frv. til kosningalaga árið 1933 og var í landskjörstjórn 1933–1956. Í ritstjórn Ríkisútgáfu námsbóka var hann 1937–1945. Árið 1942 var hann í stjórnskipaðri nefnd, sem endurskoðaði barnaverndarlög.

Vilmundur Jónsson valdi sér læknisfræði að sérnámi. Hann var héraðslæknir hálfan annan áratug við góðan orðstír og farsæll sjúkrahúslæknir. Á þeim árum fór hann nokkrum sinnum utan til þess að kynna sér læknisstörf í sjúkrahúsum. Lengstan hluta ævi sinnar var hann í embætti landlæknis, reglufastur, afkastamikill og ráðdeildarsamur embættismaður.

Ritstörf voru mjög gildur þáttur í ævistarfi Vilmundar Jónssonar. Hann samdi bækur, ritlinga og blaðagreinar um ýmis hugðarmál sín. Hann var bindindissamur og ritaði talsvert um áfengismál. Hann skrifaði fjölda blaðagreina um stjórnmál. Margs konar rit og ritgerðir um heilbrigðismál og læknamálefni voru þáttur í embættisstörfum hans, en þau mál áttu miklu ríkari ítök í huga hans en embættisskyldur kröfðust. Saga lækninga og læknisfræði á Íslandi var honum hugleikið viðfangsefni. Gagnmerk rit og ritgerðir eftir hann um þau efni hafa birzt á prenti. Rit hans um lækningar séra Þorkels Arngrímssonar í Görðum á Álftanesi var í jan. 1946 metið af læknadeild Háskólans gilt til varnar fyrir doktorsnafnbót í læknisfræði, en hann lét við það sitja.

Á sjötugsafmæli hans árið 1959 var hann á hinn bóginn af Háskóla Íslands sæmdur doktorsnafnbót í heiðursskyni.

Vilmundur Jónsson var einn af áhrifamestu frumherjum jafnaðarstefnunnar á Íslandi. Hann var skoðanafastur, sjálfstæður í hugsun, málsnjall og rökfastur. Á Alþ. lét hann mikið að sér kveða og var einn af leiðtogum Alþfl. Hann beitti sér fyrir stefnumálum flokks síns, var m. a. einn af samningamönnum um stjórnarmyndun 1934. Umbótum í heilbrigðismálum og félagsmálum sinnti hann af kappi og sér þess mikil merki í löggjöf og framkvæmdum. Hann átti til að mynda frumkvæði að því, að árið 1934 var ráðinn sérstakur læknir til að starfa að berklavörnum með nýjum hætti, og á Alþ. 1939 flutti hann í samráði við berklayfirlækni frv. að þeim berklavarnarlögum, sem síðan hafa verið í gildi. Sú stefnubreyting, sem mörkuð var með þessum aðgerðum í baráttu gegn berklunum, bar stórfelldan árangur eins og alþjóð er kunnugt.

Vilmundur Jónsson var með ágætum ritfær, hagur orðsmiður, margfróður og hugkvæmur. Hann sóttist ekki eftir vegtyllum, en varð mikið ágengt. Hann vann æviverk sitt af gjörhygli, vandvirkni og mikilli atorku.

Ég vil biðja hv. alþm. að minnast Vilmundar Jónssonar með því að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]