28.04.1972
Sameinað þing: 62. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2488 í B-deild Alþingistíðinda. (2670)

Minning látinna fyrrv. þingmanna

Forseti (EystJ):

Áður en gengið verður til dagskrár, vil ég minnast Jóhannesar skálds úr Kötlum, sem andaðist í Landsspítalanum í gær, 27. apríl, 72 ára að aldri. Hann átti sæti á Alþingi sem varaþm. síðari hluta aðalþings 1941 og á aukaþinginu í júlí það ár.

Jóhannes úr Kötlum var fæddur 4. nóv. 1899 að Goddastöðum í Laxárdal í Dalasýslu. Foreldrar hans voru Jónas bóndi þar og síðar í Ljárskógaseli Jóhannesson bónda á Svarfhóli í Laxárdal Halldórssonar og kona hans Halldóra Guðbrandsdóttir bónda í Geirshlíð í Hörðudal í Dalasýslu Guðlaugssonar. Hann stundaði nám í lýðskóla í Hjarðarholti í Dölum veturna 1914–1916 og lauk kennaraprófi í Reykjavík vorið 1921. Hann var barnakennari á nokkrum stöðum í Dalasýslu á árunum 1917–1919 og 1921–1932 og í Reykjavík 1932–1933. Eftir það fékkst hann aðallega við ritstörf, var búsettur í Reykjavík til 1940, í Hveragerði 1940–1959, en fluttist þá aftur til Reykjavíkur og átti hér heimili síðan.

Jóhannes úr Kötlum var á þroskaárum sínum áhugasamur þátttakandi í ungmennafélagshreyfingunni í Dalasýslu, var síðan um skeið formaður í Félagi byltingarsinnaðra rithöfunda og enn síðar átti hann sæti í stjórn Rithöfundafélags Íslands, Rithöfundasambands Íslands og Bandalags ísl. listamanna. Hann tók sæti hér á Alþ. fyrir Sameiningarflokk alþýðu — Sósíalistaflokkinn um skeið á tímum heimsstyrjaldar, erlendrar hersetu á Íslandi og veigamikilla ákvarðana í sjálfstæðismálum íslenzku þjóðarinnar. Hann var hugsjónamaður og öflugur baráttumaður og einlægur í stuðningi sínum við þann málstað, sem hann hafði markað sér. Jóhannes úr Kötlum er þó fyrst og fremst kunnur og hans verður lengst minnzt vegna skáldskapar hans. Hann fékkst alla tíð við ljóðagerð, en samdi auk þess nokkrar skáldsögur og starfaði að þýðingum og útgáfustörfum. Ljóðskáldsferill hans er langur, nær yfir hálfa öld, og er þar slegið á marga strengi. Hann orti þannig fyrir munn íslenzku þjóðarinnar á hátíðastundum hennar 1930 og 1944, að metið var til verðlauna. Alþingi skipaði honum í heiðurslaunaflokk listamanna, og hann var tvímælalaust í hópi beztu íslenzkra ljóðskálda sinnar samtíðar.

Ég vil biðja hv. alþm. að minnast Jóhannesar úr Kötlum með því að risa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]