10.10.1977
Sameinað þing: 1. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 5 í B-deild Alþingistíðinda. (3)

Minnst látinna þingmanna

Aldursforseti (Guðlaugur Gíslason) :

Þá verður fundi fram haldið í Sþ. Vil ég leyfa mér að bjóða þm, alla svo og starfslið Alþingis velkomið til starfa. Áður en þingstörf hefjast verður minnst látinna þingmanna.

Á þessum þingsetningardegi söknum við alþm. og minnumst eins úr okkar hópi. Jón Árnason alþm. andaðist í sjúkrahúsi Akraness aðfaranótt laugardags 23. júlí, 68 ára að aldri. Einnig minnumst við Lárusar Jóhannessonar fyrrv. alþm., lögmanns og hæstaréttardómara, sem andaðist á heimili sínu í Reykjavík aðfaranótt sunnudags 31. júlí 78 ára að aldri.

Jón Árnason var fæddur á Akranesi 15. jan. 1909. Foreldrar hans voru Árni trésmíðameistari þar Árnason húsmanns að Melaleiti í Leirársveit Árnasonar og kona hans, Margrét Finnsdóttir formanns í Sýruparti á Akranesi Gíslasonar. Hann ólst upp á Akranesi og auk barnaskólanáms stundaði hann þar nám í unglingaskóla tvo vetur. Veturinn 1926–1927 var hann við bókhaldsnám í Reykjavík. Frá og með árinu 1928 stundaði hann um langt skeið verslunarstörf á Akranesi, vann við verslun Guðjóns Jónssonar til 1932, stofnaði þá eigin verslun og rak hana til 1936. Það ár varð hann verslunarstjóri við verslun Þórðar Ásmundssonar hf., og gegndi hann því starfi til 1964. Hann var jafnframt framkvæmdastjóri tveggja annarra hlutafélaga, útgerðarfélagsins Ásmundar og hraðfrystihússins Heimaskaga, frá 1943 til ársloka 1970. Árið 1966 stofnaði hann Fiskiðjuna Arctic hf. og var forstjóri hennar til æviloka.

Jón Árnason hóf ungur afskipti af félagsmálum. Hann varð ungur að árum stofnandi og formaður áhugamannafélaga í heimabæ sínum, Akranesi. Forustumaður í sveitarstjórnarmálum var hann hátt á þriðja áratug, átti sæti í bæjarstjórn á árunum 1942–1970, var í bæjarráði tvo áratugi og forseti bæjarstjórnar á annan áratug. Hann var kjörinn alþm. Borgarfjarðarsýslu vorið 1959 og var síðan alþm. Vesturlandskjördæmis frá hausti þess árs til æviloka, sat á 20 þingum alls. Hann átti lengi sæti í beitunefnd, var í stjórn Sementsverksmiðju ríkisins frá 1968, í stjórn Sölustofnunar lagmetisiðnaðarins frá 1972, í stjórn Rafmagnsveitna ríkisins frá 1974.

Þegar Jón Árnason tók sæti á Alþingi fimmtugur að aldri hafði hann öðlast staðgóða reynslu í margs konar félagsmálum og víðtæka þekkingu á atvinnumálum. Hann var því vel undir það búinn að vinna hér á Alþingi að málum kjördæmisins og almennum þjóðmálum. Hann var enginn málskrafsmaður í þingsölum, en gat brugðið hart við til varnar þeim málum sem hann taldi varða hag og heill þjóðarinnar. Nefndarstörf vann hann í sjávarútvegs-, landbúnaðar-, samgöngu- og fjárveitinganefndum. Hann þekkti gjörla þau mál, sem lutu að sjávarútvegi og fiskvinnslu, og vann með ráðum og dáð að eflingu íslensks iðnaðar úr sjávarafurðum. Tímafrekasta og affarasælasta starf Jóns Árnasonar á Alþ. var unnið í fjvn. Hann átti sæti í þeirri nefnd frá haustinu 1959 og var formaður hennar frá 1964 til 1971 og frá 1974 til æviloka. Á þeim vettvangi hafði hann forustu um stuðning við margs konar framfaramál og lét sér annt um að styðja hvers konar líknarmál. Samherjum hans og andstæðingum í stjórnmálum ber saman um það, að hann hafi stýrt störfum nefndarinnar með röggsemi og festu, sáttfýsi og glaðlyndi, hreinskilni og orðheldni.

Jón Árnason átti að baki mikið ævistarf þegar hann féll frá. Hann var áhugasamur og ósérhlífinn, félagslyndur og drenglyndur, hafði ágæta söngrödd og yndi af söng, var eljusamur starfsmaður, naut trausts og vinsælda. Síðasta missiri ævi sinnar átti hann við vanheilsu að stríða, en rækti erilsöm skyldustörf af ósérhlífni og samviskusemi svo tengi sem kostur var.

Lárus Jóhannesson var fæddur á Seyðisfirði 21. okt. 1898. Foreldrar hans voru Jóhannes bæjarfógeti og alþm. Jóhannesson sýslumanns í Hjarðarholti í Stafholtstungum Guðmundssonar og kona hans, Jósefína Lárusdóttir Blöndals sýslumanns og alþm. á Kornsá í Vatnsdal. Hann lauk stúdentsprófi í Reykjavík vorið 1917 og lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands 1920. Framhaldsnám í lögum stundaði hann í Kaupmannahöfn veturinn 1920–1921. Hann var fulltrúi hjá föður sínum við bæjarfógetaembættið í Reykjavík á árunum 1921–1924 og var settur bæjarfógeti í forföllum öðru hverju á því tímabili. Einkaritari Jóns Magnússonar forsrh. var hann frá því í júní 1921 þar til í marsmánuði 1922. Hæstaréttarlögmaður varð hann síðla árs 1924 og rak málflutningsskrifstofu í Reykjavík frá 1924–1960. Í aprílmánuði 1960 var hann skipaður hæstaréttardómari. Í mars 1964 var honum veitt lausn frá því embætti.

Lárus Jóhannesson var skipaður árið 1942 í milliþinganefnd til þess að meta verðgildi hlutabréfa Útvegsbanka Íslands. Hann var kosinn 1943 í milliþinganefnd um launakjör alþm., átti sæti í landsbankanefnd 1946–1957. Hann var formaður Lögmannafélags Íslands 1947–1960 og kjörinn heiðursfélagi þess 1961. Alþm. Seyðfirðinga var hann á árunum 1942–1956, sat á 15 þingum alls. Hann sat þing Evrópuráðsins á tímabilinu 1952–1956 og þing Norðurlandaráðs 1956.

Lárus Jóhannesson átti sér glæsilegan námsferil, lauk embættisprófi í lögum 21 árs að aldri. Fyrstu árin að námi loknu var hann aðstoðarmaður föður síns við umsvifamikil embættisstörf. Brátt hóf hann rekstur lögmannsskrifstofu sem hann rak í 36 ár og sinnti málflutningi og eignaumsýslu. Hann var í hópi atkvæðamestu lögmanna landsins og formaður í samtökum þeirra á annan áratug, þar til hann tók sæti í Hæstarétti. Hann var formaður félags sem stofnað var árið 1925 og var brautryðjandi í rekstri útvarps hér á landi. Síðar á ævinni rak hann prentsmiðju og bókaútgáfu. Á heimili foreldra sinna hlaut hann náin kynni af stjórnmálum og baráttunni fyrir fullveldi Íslands, þar sem faðir hans stóð framarlega í fylkingu. Að nýfengnu kjörgengi og kosningarrétti tók hann sæti á framboðslista við alþingiskosningar í Reykjavík 1923. Tæpum tveimur áratugum síðar tók hann sæti á Alþingi, var hér fulltrúi fæðingarbæjar síns, Seyðisfjarðar, og vann ötullega að velferðarmálum hans.

Lárus Jóhannesson átti mörg áhugamál. Hann hafði ákveðnar skoðanir á þjóðmálum, en var sátta- og samningamaður og naut sín vel í nefndastörfum. Stundum á ævinni gustaði um hann, en hann var að eðlisfari ljúfmenni, hjálpfús og örlátur og naut vinsælda. Hann var söngmaður og gleðimaður, víðlesinn og fjölfróður. Á tímabili fékkst hann í stopulum tómstundum allmikið við þýðingar erlendra rita og hefur fátt eitt af því birst á prenti. Síðustu ár ævi sinnar fékkst hann við ættfræði af miklum áhuga og dugnaði. Heilsu og starfskröftum hélt hann til æviloka.

Ég vil biðja þingheim að minnast Jóns Árnasonar og Lárusar Jóhannessonar með því að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]