12.05.1975
Sameinað þing: 76. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3871 í B-deild Alþingistíðinda. (3018)

Minnst látins fyrrverandi alþingismanns

Forseti (Ásgeir Bjarnason):

Jón Guðnason fyrrv. sóknarprestur og skjalavörður, varð bráðkvaddur á heimili sínu hér í Reykjavík í gær, 11. maí, hálfníræður að aldri. Hann var alþm. tæpt ár fyrir nær hálfri öld, kjörinn við aukakosningu í Dalasýslu haustið 1926 til loka kjörtímabilsins sumarið 1927.

Jón Guðnason var fæddur á Óspaksstöðum í Hrútafirði 12. júlí 1889. Foreldrar hans voru Guðni bóndi þar Einarsson bónda á Valdasteinsstöðum í Hrútafirði Guðnasonar og kona hans, Guðrún Jónsdóttir bónda í Hvítuhlið í Óspakseyrarhreppi Jónssonar. Hann lauk prófi í Flensborgarskóla 1908, gagnfræðaprófi utanskóla í menntaskólanum í Reykjavík 1909, stúdentsprófi í þeim skóla 1912 og guðfræðiprófi í Háskóla Íslands 1915. Síðari hluta vetrar 1915–1916 var hann kennari við Flensborgarskólann, en fékk síðla þess vetrar Staðarhólsþing í Dalasýslu, var vígður til þeirra um vorið og sat á Staðarhóli. Vorið 1918 var hann skipaður sóknarprestur í Suðurdalaþingum og sat að Kvennabrekku. Vorið 1928 fékk hann Prestsbakka í Hrútafirði og var sóknarprestur þar til 1948. Jafnframt embætti sínu gegndi hann nokkrum sinnum um skeið prestsþjónustu í nálægum prestaköllum. Hann hafði nemendur í heimakennslu fyrstu prestskaparár sín. Skólastjóri Héraðsskólans á Reykjum í Hrútafirði var hann 1930–1932 og kennari við þann skóla 1934 —1948, að undanskildu tímabilinu 1940–1943 er skólahúsið var hersetið og skólinn gat ekki starfað. Vorið 1948 var hann skipaður skjalavörður við Þjóðskjalasafnið, en lét af því starfi vegna aldurs vorið 1959. Hann átti sæti í kirkjumálanefnd 1929–1930 og í sýslunefnd Strandasýslu 1929–1938 og síðar 1943–1948.

Meginþættir í ævistarfi Jóns Guðnasonar voru unnir á þremur sviðum, svo sem ráða má af þessu fáorða æviágripi. Hann var sóknarprestur, kennari og fræðimaður. Hann var vellátinn kennimaður og vann prestsverk í þágu fyrrv. sóknarbarna sinna fram á elliár. Hann var skilningsríkur og laginn kennari og vann á því sviði mikið nytjastarf á tímum og í héruðum þar sem unglingar áttu ekki margra kosta völ um framhaldsnám eftir barnafræðslu. Jafnframt prestskap rak hann bú á prestssetursjörðunum, var góður og glöggur fjárbóndi. Hann starfaði jafnan af miklum áhuga og ósérhlífni að margs konar félagsmálum sveita sinna og héraða. Hann var ákveðinn og hógvær stjórnmálamaður, átti ekki langa dvöl á Alþingi, en Alþingistíðindi bera með sér að hann tók allmikinn þátt í umr. og lét sig einkum skipta menntamál og samgöngumál.

Jón Guðnason var fróðleiksgjarn og langminnugur og í öllum störfum hans komu þeir eiginleikar að góðu haldi. Hann lagði snemma hug á þjóðlegan fróðleik, mannfræði og ættfræði og áhugi hans í þeim efnum var ríkur þáttur í þeirri ákvörðun hans að láta af prests- og kennslustörfum og taka við starfi í Þjóðskjalasafninu í Reykjavík. Jafnframt mikilli skylduvinnu í þágu safnsins afkastaði hann í tómstundum sínum geysimiklu fræðistarfi. Hann samdi mikið rit um æviatriði Strandamanna og Dalamanna. Frá hans hendi komu einnig út safnrit með æviskrám margra merkra íslendinga, bæði lífs og liðinna. Hann sá um útgáfu nokkurra rita annarra höfunda um mannfræði og annan þjóðlegan fróðleik. Að þessum hugðarefnum sínum vann hann langt fram á elliár, en gat ekki sinnt þeim eins mikið og hugurinn girntist síðustu æviárin vegna sjóndepru.

Með Jóni Guðnasyni er horfinn af sjónarsviðinu góður og gegn embættismaður, áhugasamur, vandvirkur og afkastamikill fræðimaður.

Ég vil biðja hv. alþm. að minnast Jóns Guðnasonar með því að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]