14.04.1986
Sameinað þing: 73. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3717 í B-deild Alþingistíðinda. (3386)

Minnst látins fyrrv. alþingismanns

Forseti (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Nú verður minnst látins fyrrv. alþingismanns.

Einar Ágústsson, sendiherra Íslands í Danmörku og fyrrv. alþm. og ráðherra, andaðist í sjúkrahúsi í Kaupmannahöfn aðfaranótt laugardags 12. apríl 63 ára að aldri.

Einar Ágústsson var fæddur í Hallgeirsey í Austur Landeyjum 23. sept. 1922. Foreldrar hans voru hjónin Ágúst kaupfélagsstjóri þar Einarsson bónda í Miðey í Austur-Landeyjum Árnasonar og Helga Jónasdóttir bónda á Reynifelli á Rangárvöllum Árnasonar.

Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík vorið 1941 og nam síðan lögfræði í Háskóla Íslands, lauk prófi vorið 1947. Réttindi héraðsdómslögmanns hlaut hann 1951. Hann var skrifstofustjóri Sölunefndar varnarliðseigna og jafnframt starfsmaður fjárhagsráðs 1947-1954. Fulltrúi í fjármálaráðuneytinu var hann 1954-1957. Við stofnun Samvinnusparisjóðsins árið 1957 varð hann sparisjóðsstjóri og jafnframt var hann fulltrúi forstjóra Sambands ísl. samvinnufélaga og forstöðumaður lífeyrissjóðs Sambandsins til 1960. Sparisjóðsstjóri var hann hins vegar til 1963, er Samvinnubankinn var stofnaður og tók við af sparisjóðnum, og var hann síðan bankastjóri til 1971. Hann var utanríkisráðherra í ríkisstjórn Ólafs Jóhannessonar 1971-1974 og í ríkisstjórn Geirs Hallgrímssonar 1974-1978. Sendiherra Íslands í Danmörku varð hann frá 1. jan. 1980 og jafnframt sendiherra á Ítalíu, í Ísrael og Tyrklandi. Þeim störfum gegndi hann til æviloka.

Rúma tvo áratugi gegndi Einar Ágústsson forustustörfum í stjórnmálum. Hann var formaður Framsóknarfélags Reykjavíkur 1958-1961, í miðstjórn Framsóknarflokksins frá 1960, varaformaður hans 1967-1980. Hann var borgarfulltrúi í Reykjavík 1962-1971, borgarráðsmaður 1963-1964. Í hafnarstjórn var hann 1962-1971, í stjórn Landsvirkjunar 1971-1980. Formaður nýstofnaðrar öryggismálanefndar var hann 1978-1979.

Á Alþingi tók hann fyrst sæti haustið 1960 sem varaþingmaður Framsóknarflokksins í Reykjavík og tók einnig sæti varaþingmanns á næstu tveimur þingum. Sumarið 1963 var hann kjörinn þingmaður Reykvíkinga og hélt því sæti þar til síðla árs 1979 er hann hafði verið skipaður sendiherra. Alls sat hann á 21 þingi.

Einar Ágústsson starfaði á ýmsum sviðum þjóðlífsins um ævidagana. Hann fékkst við lögfræðistörf, viðskiptamál, bankastörf, borgarmálefni Reykjavíkur, þjóðmál á Alþingi, utanríkismál í ráðherraembætti, og að síðustu var hann fulltrúi Íslands erlendis. Hvarvetna gat hann sér góðan orðstír. Hann var hógvær og rökfastur í málflutningi, prúðmenni í allri framgöngu, drengskaparmaður í hvívetna.

Utanríkismál Íslands voru meginviðfangsefni hans á síðustu æviárum. Þegar hann var utanrrh. reyndi á mannkosti hans á ýmsum sviðum, en hæst ber þar vandasama meðferð mála tvívegis við stórfellda útfærslu íslenskrar fiskveiðilögsögu. Með góðu samstarfi og festu íslenskra ráðamanna lauk þeim málum farsællega af hálfu Íslendinga, og átti utanríkisráðherra þar að sjálfsögðu stóran hlut að máli.

Af Einari Ágústssyni hefði mátt vænta góðra verka mörg ár til viðbótar. Andlát hans er harmsefni þeim sem hafa kynnst honum og notið starfa hans.

Ég vil biðja hv. alþm. að minnast Einars Ágústssonar með því að rísa úr sætum. - [Þingmenn risu úr sætum. ]