14.11.1951
Sameinað þing: 14. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1423 í B-deild Alþingistíðinda. (3674)

Minning látinna manna

forseti (JPálm):

Í gær andaðist á Elli- og hjúkrunarheimilinu Grund hér í bænum Eiríkur Einarsson alþingismaður, á 67. aldursári. Hann hafði um skeið þjáðst af þungbærum veikindum og var þrotinn að heilsu.

Eiríkur Einarsson fæddist 2. marz 1885 á Hæli í Gnúpverjahreppi í Árnessýslu, sonur Einars, er þar bjó, Gestssonar bónda á Hæli Gíslasonar, en kona Einars og móðir Eiríks var Steinunn Vigfúsdóttir sýslumanns Thorarensens. Eiríkur gekk menntaveginn og lauk stúdentsprófi í Reykjavík 1909 og lögfræðiprófi í Háskóla Íslands fjórum árum síðar, 1913. Næstu tvö árin var hann yfirdómslögmaður í Reykjavík, en sumarið 1915 var hann settur sýslumaður í Árnessýslu og gegndi því embætti í nærfellt tvö ár. Þegar Landsbankinn setti á stofn útibú á Selfossi, var Eiríki falin forstaða þess, og hafði hann það starf á hendi í 12 ár, til 1930, en þá tók hann við lögfræðistarfi í aðalbankanum hér í Reykjavík og gegndi því síðan, meðan honum entist heilsa. Árnesingar kusu hann fyrst á þing haustið 1919, og sat hann á þingi það kjörtímabil, til 1923. Að tíu árum liðnum var hann aftur kosinn þingmaður Árnesinga og sat á aukaþinginu 1933. Fjórum árum síðar varð hann landskjörinn þingmaður og átti sæti á þingi 1937–1942, en var þá enn kosinn þingmaður Árnesinga og var það til dauðadags. Alls sat hann á 25 þingum. Á Alþingi hafði hann mestan áhuga á samgöngumálum, landbúnaði og menntamálum og átti lengst af sæti í þingnefndum þeim, sem um þau mál fjölluðu.

Eiríkur Einarsson var hugsjónamaður og skáld. Vafalaust mesta skáld, sem setið hefur á Alþingi síðan Hannes Hafstein leið. En skáldskapur Eiríks Einarssonar hefur farið dult. Hann hélt honum að mestu leyndum, svo að fáir einir vita, hve snjall hann var á þessu sviði. Hann var snillingur að beita léttri kímni á alla spaugilega hluti og einnig að skoða alvarleg mál og alvarlega menn frá þeirri hlið. Þetta vissum við, sem þekktum hann bezt, og þetta fær þjóðin öll væntanlega að vita áður en langir tímar líða.

Sem hugsjónamaður var Eiríkur líka skáld. Hann var ekki líklegur til að fara troðnar slóðir eða elta aðra menn. Hann hafði sjálfstæðar hugmyndir og sjálfstæðar hugsjónir, en naut sín ekki að sama skapi, meðfram vegna veillar heilsu og meðfram af því, að hann var svo mikið góðmenni, að honum var mjög óljúft að fara í harða baráttu. Hann var friðsamur með afbrigðum og vildi taka tillit til allra skynsamlegra raka, hvaðan sem þau komu. Hann hafði sérstakan áhuga fyrir menningu og sjálfstæði þjóðarinnar. Á því sviði þótti honum aldrei of langt gengið, hvað sem leið fjárhagslegum fórnum. Raunsær fjármálamaður var hann ekki og átti þar sammerkt við flesta hugsjónamenn og skáld.

Af öllum hans hugsjónum voru þó þær sterkastar, sem sneru að æskuhéraði hans, Árnessýslu, og öllum hennar framfaramálum. Hann var lengi búinn að vera Reykvíkingur, en hann átti fáa og kannske enga sína líka í því að vera sívakandi um hvert einasta atriði, er verða mætti æskuhéraði hans og íbúum þess til gagns og blessunar. Hann fór oft austur yfir heiði, og hann var alltaf „æsku sinnar gestur“, eins og hann kemst sjálfur að orði. Hann vildi líka helzt alltaf geta fært sínu elskaða æskuhéraði einhverjar nytsamlegar gjafir. En okkur flokksbræðrum hans, og þó miklu frekar öðrum, fannst hann stundum nokkuð áleitinn um mikla hluti fyrir Árnessýslu. Þar kom eigi til kröfuharka, heldur vakandi áhugi, einlæg trú á góð málefni og síendurteknar fortölur góðmennisins um aðstoð og fylgi við fagrar hugsjónir. Það er dálítið merkilegt atriði til marks um örlög okkar mannanna, að fyrir fáum dögum, þegar Eiríkur Einarsson lá á banasænginni, þá vorum við nokkuð margir þingmenn að skoða byrjunarframkvæmdir á tveimur af hans stærstu hugsjónamálum, Iðubrúnni og Austurvegi. Fyrir þessum málum var hann búinn að berjast þrotlaust í mörg ár, og áreiðanlega hefði framkvæmdum á báðum stöðum verið lokið fyrir löngu, ef hann hefði mátt ráða. En svona gengur það oft um hugsjónamál, að uppskeran verður eigi alltaf til að gleðja augu þeirra, sem hugsjónirnar áttu og mest börðust fyrir þeim.

Eiríkur Einarsson var hjálpfús maður og vinsamlegur við alla, sem hann þekkti. Hann vildi helzt geta gert sem allra flestum einhvern greiða, mun og ekki alltaf hafa sézt fyrir um eigin hag, þegar því var að skipta. Hann átti hvergi óvildarmenn, en óvenjulega marga vini. Hann var bjartsýnn og glaðlyndur. Hann bar það með sér, að þar fór góður maður og velviljaður.

Að undanförnu hefur heilsufari þessa ágæta manns verið þannig háttað, að brottför hans veldur eigi eðlilegri hryggð. Miklu fremur er það gleðiefni, að hann hefur fengið lausn og þarf eigi lengur að berjast vonlausri baráttu.

Ég vil biðja háttvirta alþingismenn að heiðra minningu hans með því að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]