10.10.1982
Sameinað þing: 1. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 4 í B-deild Alþingistíðinda. (4)

Minning látinna fyrrv. þingmanna

Aldursforseti (Gunnar Thoroddsen forsrh.):

Frá lokum síðasta þings hafa andast tveir fyrrv. alþm. sem hér verður minnst.

Jón Ívarsson, fyrrv. kaupfélagsstjóri og síðar forstjóri, andaðist 3. júní 1982, 91 árs að aldri.

Oddur Andrésson bóndi, sem átti hér sæti sem varaþm., andaðist 21. júní, á sjötugasta aldursári.

Jón Ívarsson var fæddur 1. jan. 1891 á Snældubeinsstöðum í Reykholtsdal. Foreldrar hans voru hjónin Ívar bóndi þar Sigurðsson og Rósa húsfreyja Sigurðardóttir. Hann stundaði nám í Hvítárbakkaskóla 1905–1907, í Kennaraskólanum fyrri hluta vetrar 1914–1915 og í Verslunarskólanum 1913–1914 og 1915–1916.

Hann var farkennari í Reykholtsdal veturinn 1908–1909, í Lundarreykjadal og Skorradal 1909–1913 og í Andakíl síðari hluta vetrar 1914–1915. Að loknu verslunarskólaprófi vann hann við verslun í Stykkishólmi 1916–1917, í Borgarnesi 1917–1921 og var kaupfélagsstjóri á Höfn í Hornafirði 1922–1943. Á árinu 1943 varð hann skrifstofustjóri Grænmetisverslunar ríkisins og Áburðarsölu ríkisins, en var síðan forstjóri þeirra stofnana 1944–1956.

Hann átti sæti í fjárhagsráði 1948–1953 og var síðan einn af forstöðumönnun Innflutningsskrifstofunnar 1954–1960. Eftir það var hann lengi lausráðinn starfsmaður hjá Ríkisútgáfu námsbóka. Hann átti sæti í stjórn Sambands ísl. samvinnufélaga 1936-1944 og í stjórn Áburðarverksmiðjunnar 1951–1963.

Við aukakosningar í Austur-Skaftafellssýslu sumarið 1939 var hann í kjöri utan flokka og hlaut kosningu. Hann sat á þingi til vorsins 1942, á sex þingum alls.

Jón Ívarsson var ungur á upphafsárum ungmennafélagshreyfingarinnar hér á landi. Hann gerðist þar liðsmaður og forustumaður í sínum heimahögum. Hann aflaði sér talsverðrar skólamenntunar. Að loknu verslunarnámi starfaði hann lengi á vegum samvinnuhreyfingarinnar og síðar við stjórnarstörf á vegum ríkisins. Hann var reglusamur og starfsamur, sjálfstæður í skoðunum og fastheldinn á þær dyggðir sem hann hafði tamið sér á ungum aldri. Honum entist lengi líf og heilsa í rósemi elliáranna eftir langan starfsaldur.

Oddur Andrésson var fæddur 24. nóv. 1912 á Bæ í Kjós. Foreldrar hans voru hjónin Andrés bóndi þar og hreppstjóri, síðar á Neðra-Hálsi í Kjós, Ólafsson og Ólöf húsfreyja Gestsdóttir. Frá 10 ára aldri til æviloka átti hann heimili á Hálsi, vann fyrst á búi foreldra sinna, stóð fyrir búi móður sinnar að föður sínum látnum, en bjó þar félagsbúi frá 1947, fyrst með bróður sínum, síðar syni.

Hann var varaþm. Sjálfstfl. í Reykjaneskjördæmi tvö kjörtímabil, 1963–1971, og tók níu sinnum sæti á Alþingi á þeim tíma.

Æskuheimili Odds Andréssonar var rómað fyrir myndar- og menningarbrag. Þar ól hann aldur sinn, stundaði bú og stóð í framkvæmdum við byggingar og ræktun. Hann kom víða við í félags- og umbótamálum í héraði. Hann var gæddur góðum tónlistargáfum, var kirkjuorganisti og söngstjóri. Hann var áhugamaður um skógrækt og var í stjórn Skógræktarfélags Íslands frá 1968, varaformaður þess 1972–1981. Hann átti sæti í stjórn Mjólkursamsölunnar í Reykjavík frá 1969 og í stjórn Osta- og smjörsölunnar frá 1977. Hann var forustumaður í skólamálum sveitar sinnar og héraðs og vann með öðrum að nýrri skipan heilbrigðismála og læknaskipunar í héraði. Hvarvetna gat hann sér orð fyrir samstarfsvilja, ósérhlífni og drenglyndi.

Ég vil biðja þingheim að minnast þeirra Jóns Ívarssonar og Odds Andréssonar með því að rísa úr sætum.[Þingmenn risu úr sætum.]