21.10.1980
Sameinað þing: 5. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 75 í B-deild Alþingistíðinda. (69)

Minnst Stefáns Jóhanns Stefánssonar

Forseti (Jón Helgason):

Áður en gengið verður til dagskrár vil ég minnast Stefáns Jóh. Stefánssonar fyrrv. alþm. og ráðh. Hann andaðist í sjúkrahúsi í gær, mánudaginn 20. okt., 86 ára að aldri.

Stefán Jóh. Stefánsson var fæddur 20. júlí 1894 á Dagverðareyri við Eyjafjörð. Foreldrar hans voru hjónin Stefán Ágúst bóndi þar Oddsson og Ólöf húsfreyja Árnadóttir. Stefán Jóhann lauk stúdentsprófi við Menntaskólann í Reykjavík vorið 1918 og lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands 1922. Hæstaréttarlögmaður varð hann 1926, og hann kynnti sér félagsmálalöggjöf á Norðurlöndum með styrk úr Sáttmálasjóði árið 1928. Hann var starfsmaður bæjarfógetans í Reykjavík á háskólaárum sínum og til haustsins 1923, fulltrúi í lögfræðiskrifstofu 1922–1925, er hann stofnaði málflutningsskrifstofu sem hann rak með öðrum málflutningsmanni til 1945. Á árunum 1945–1957 var hann framkvæmdastjóri Brunabótafélags Íslands. Sumarið 1957 var hann skipaður sendiherra Íslands í Danmörku og var jafnframt sendiherra í Írlandi og Tyrklandi. Lausn frá því starfi vegna aldurs fékk hann vorið 1965. Stefán Jóh. Stefánsson var alþm. 1934–1937 og 1942–1953, sat alls á 17 þingum. Vorið 1939 varð hann félagsmálaráðherra og fór jafnframt með utanríkismál. Lausn frá þeim ráðherradómi fékk hann snemma árs 1942. Frá 4. febr. 1947 til 6. des. 1949 var hann forsætis- og félagsmálaráðherra.

Auk þeirra meginstarfa, sem hér hefur verið getið, voru Stefáni Jóh. Stefánssyni falin mörg aukastörf á sviði þjóðmála og ýmiss konar félagsmála. Skal hér getið nokkurra af þeim störfum.

Hann var bæjarfulltrúi í Reykjavík 1924–1942 og átti sæti í bæjarráði frá 1932. Í menntamálaráði var hann 1928–1933 og í bankaráði Útvegsbanka Íslands 1930–1957, formaður bankaráðsins frá 1935. Hann átti sæti í Þingvallanefnd 1946–1950. Hann var formaður Norræna félagsins 1936–1952 og var kjörinn fulltrúi Íslands í Norðurlandaráði fyrsta starfsár þess 1953. Fulltrúi Íslands í Evrópuráði var hann 1950–1957. Hann var kjörinn í miðstjórn Alþfl. og Alþýðusambandsins 1924, var forseti Alþýðusambandsins 1938–1940, ritari í stjórn Alþfl. 1928–1938 og formaður hans 1938–1952.

Stefán Jóh. Stefánsson bar nafn föður síns sem dó á sóttarsæng nokkrum vikum fyrir fæðingu hans. Hann stundaði á æskuárum sínum algenga vinnu til sveita og sjávar og þekkti kröpp kjör alþýðu á þeim tímum. Hugur hans stefndi til langskólagöngu. Hann aðhylltist jafnaðarstefnu í þjóðmálum, var ötull málsvari hennar strax á skólaárum og lengi síðan einn hinna fremstu þar í flokki. Þeir áratugir, sem mest kvað að honum á vettvangi stjórnmála, voru miklir umbrotatímar bæði hér á Íslandi og erlendis. Stefán Jóhann fór ekki varhluta af deilum um stefnur og störf. Hann var alla tíð stefnufastur forvígismaður jafnaðarstefnu og lýðræðis. Hann hafði náin samskipti við pólitíska samherja sína á Norðurlöndum og var traustur stuðningsmaður norrænnar samvinnu. Honum voru falin ein hin mikilvægustu störf stjórnmálamanns á örlagatímum í íslenskri þjóðarsögu.

Ég vil biðja hv. alþm. að minnast Stefáns Jóh. Stefánssonar með því að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]