13.11.1986
Sameinað þing: 16. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 824 í B-deild Alþingistíðinda. (714)

Minning látinna manna

Forseti (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Ágúst Þorvaldsson, fyrrv. alþm. og bóndi á Brúnastöðum, andaðist í gær í sjúkrahúsi hér í borg, 79 ára að aldri.

Ágúst Þorvaldsson var fæddur í Simbakoti á Eyrarbakka 1. ágúst 1907. Foreldrar hans voru Þorvaldur verkamaður og sjömaður þar Björnsson bónda á Bollastöðum í Hraungerðishreppi Björnssonar og kona hans, Guðný Jóhannsdóttir bónda í Hæringsstaðahjáleigu og síðar í Eyrarkoti á Eyrarbakka Magnússonar. Nokkurra vikna var hann tekinn í fóstur á Eyrarbakka og var þar tíu fyrstu æviárin, en fluttist þaðan að Brúnastöðum í Hraungerðishreppi og átti þar heimili upp frá því. Rúman áratug, 1925–1936, var hann við sjóróðra í Vestmannaeyjum á vetrarvertíðum. Bóndi á Brúnastöðum varð hann árið 1932.

Ágúst Þorvaldsson átti skamma setu á skólabekk, naut barnafræðslu fjóra vetur á æskuárum. Með bóklestri og við aðra lífsreynslu öðlaðist hann þann fróðleik og þá menntun sem entist honum til giftudrjúgrar forustu í félagsmálum á ýmsum sviðum. Hann var formaður Ungmennafélagsins Baldurs í sveit sinni 1932–1941, í hreppsnefnd Hraungerðishrepps 1936–1966, oddviti hennar frá 1950, í skattanefnd 1946–1950, úttektarmaður frá 1948 og sáttamaður frá 1950. Formaður áfengisvarnanefndar var hann frá 1961. Hann var í stjórn Mjólkurbús Flóamanna frá 1961, í stjórn Mjólkursamsölunnar frá 1966, formaður stjórnarinnar frá 1970. Frá 1976 var hann formaður jarðanefndar Árnessýslu og formaður Veiðifélags Árnesinga. Hann var í stjórn Framsóknarfélags Árnessýslu 1947–1967.

Við alþingiskosningarnar 1956 var hann kjörinn þingmaður Árnesinga og sat á Alþingi samfellt til vors 1974, var þm. Suðurlandskjördæmis frá hausti 1959, sat á 19 þingum alls. Formaður sparnaðarnefndar var hann 1956–57, í endurskoðunarnefnd laga um aðsetur ríkisstofnana 1959–1962, formaður Vélanefndar ríkisins 1958–1963 og 1967–1972, í endurskoðunarnefnd ábúðarlaga 1959 og í endurskoðunarnefnd laga um Stofnlánadeild landbúnaðarins o.fl. 1972. Í bankaráði Búnaðarbanka Íslands var hann 1977–1980, hafði áður verið þar varamaður.

Ágúst Þorvaldsson var fyrst og fremst bóndi.

Hann vann lengstum að búi sínu, stýrði fjölmennu rausnarheimili, bætti jörð sína stórum að ræktun og húsakosti. Stéttarbræður hans kusu hann til forustustarfa og hann brást ekki því sem honum var til trúað.

Í tæpra tveggja áratuga setu á Alþingi átti hann lengst af setu í landbn. og fjvn. Landbúnaðarmál voru honum að vonum hugstæð og sinnti hann mest þeim málaflokki auk annarra nytjamála kjördæmis síns. Hann var vel máli farinn, þjálfaður af félagsstörfum frá unga aldri, hógvær og stefnufastur. Síðustu æviárin naut hann rósamrar elli á Brúnastöðum, hafði fengið bú þar í hendur sonum sínum.

Ég vil biðja hv. þm. að minnast Ágústs Þorvaldssonar með því að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]