1962 93 29. desember Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til að láta öðlast gildi ákvæði í samningi milli Íslands, Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar, um innheimtu meðlaga 1. gr. Ríkisstjórninni er heimilt að ákveða með auglýsingu í Stjórnartíðindum, að samningur sá, er undirritaður var í Osló 23. mars 1962 milli Íslands, Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar, um innheimtu meðlaga, og prentaður er sem fylgiskjal með lögum þessum, skuli öðlast gildi. 2. gr. Dómsmálaráðherra er heimilt að setja frekari ákvæði, er kunna að vera nauðsynleg til að framfylgja greindum samningi. 3. gr. Fylgiskjal.

Samningur milli Íslands, Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar um innheimtu meðlaga.

1. gr. Aðfararhæfum dómi, úrskurði stjórnvalds eða skriflegri skuldbindingu, sem lagt hefur einhverjum á herðar í einu samningsríkjanna að greiða meðlag maka sínum, fyrrverandi maka, skilgetnu barni, stjúpbarni, kjörbarni, óskilgetnu barni eða móður óskilgetins barns, og sé fullnusta heimil í því ríki, skal þegar fullnægt í öðru samningsríki, sé þess farið á leit. Sama gildir um þess háttar dóm, sem ekki er enn aðfararhæfur, og hvern þann úrskurð þess háttar, sem dómstóll, dómari eða „överexekutor“ hefur kveðið upp og fullnægt verður eins og aðfararhæfum dómi. Nú hefur með dómi eða úrskurði í ríki því, þar sem fullnustu er leitað, meðlag verið ákveðið lægra eða úrskurðað, að ekki sé um meðlagsskyldu að ræða, og verður þá ekki þar í gegn fullnustu krafist í því ríki. 2. gr. Beiðni um fullnustu skal senda yfirvaldi í samningsríki því, þar sem sá dvelst, er meðlagið á að fá, eða í samningsríki því, þar sem dómurinn eða úrskurðurinn var kveðinn upp eða skriflega skuldbindingin gerð. Eigi fullnusta að fara fram í öðru samningsríki en því, þar sem beiðnin kom fram skv. 1. mgr., skal senda beiðnina til fyrrnefnds ríkis. Í því tilviki er beiðnin send og móttekin af:
  • í Danmörku yfirstjórnvaldi (í Kaupmannahöfn „overpræsidenten“, en annars hlutaðeigandi amtmanni) eða, ef óvíst er, hvert yfirstjórnvald á að fjalla um málið, dómsmálaráðuneytinu;
  • í Finnlandi hlutaðeigandi lénsstjórn eða, ef óvíst er, hver lénsstjórn á að fjalla um málið, utanríkisráðuneytinu;
  • á Íslandi dómsmálaráðuneytinu;
  • í Noregi hlutaðeigandi fylkismanni eða, ef óvíst er, hver fylkismaður á að fjalla um málið, félagsmálaráðuneytinu, þegar um er að ræða meðlag með óskilgetnu barni eða móður slíks barns, en annars dómsmálaráðuneytinu;
  • og í Svíþjóð hlutaðeigandi lénsstjórn eða, sé óvíst, hver lénsstjórn á um að fjalla, réttardeild utanríkisráðuneytisins.
Beiðni um innheimtu í öðru samningsríki á meðlagi, sem yfirvald hefur greitt fyrir fram, má það yfirvald senda beint til yfirvalds í því ríki, samkvæmt ákvæðinu í 2. mgr., þar sem innheimtan á að fara fram. Skjali á finnsku eða íslensku skal fylgja staðfest þýðing á dönsku, norsku eða sænsku, að því leyti sem þörf er á.
3. gr. Yfirvald það, sem framkvæma skal innheimtuna, getur, ef nauðsynlegt þykir, krafist vottorðs um, að dómurinn, úrskurðurinn eða skuldbindingin fullnægi þeim skilyrðum, sem sett eru í 1. mgr. 1. gr. fyrir fullnustu. Vottorð skal gefið út í því ríki, þar sem dómur eða úrskurður hefur verið kveðinn upp eða skuldbinding gerð, og af því yfirvaldi, sem um ræðir í 2. mgr. 2. gr. Hafi upphæð meðlags ekki verið ákveðin í dóminum, úrskurðinum eða skuldbindingunni eða sé í beiðni um fullnustu farið fram á hærri upphæð en ákveðið hefur verið, má einnig krefjast vottorðs um upphæð meðlagsins samkvæmt 1. mgr. 4. gr. Fullnustan fer fram í hverju ríki samkvæmt gildandi lögum þar. Fullnustan fer fram án kostnaðar fyrir rétthafa, nema hún eigi að fara fram samkvæmt reglunum um aðför í fasteign. Innheimt upphæð sendist þeim, sem beiðst hefur fullnustu, eða öðrum, sem hann ákveður. 5. gr. Ákvæðin um meðlög ná einnig til meðgjafar vegna kostnaðar við fæðingu og sængurlegu og kostnaðar við sérstaka menntun barns og enn fremur skírn þess, fermingu, veikindi, greftrun og þess háttar. 6. gr. Málskostnað, sem meðlagsskyldum er gert að greiða vegna ákvörðunar um meðlagsskyldu, má innheimta samkvæmt ákvæðum þessa samnings. 7. gr. Samning þennan skal fullgilda og skal afhenda fullgildingarskjölin norska utanríkisráðuneytinu svo fljótt sem verða má. Samningurinn tekur gildi hinn 1. janúar eða hinn 1. júlí næstan eftir afhendingu fullgildingarskjalanna. Með samningi þessum fellur úr gildi samningur frá 10. febrúar 1931 milli samningsríkjanna um innheimtu meðlaga, eins og honum var breytt með samkomulagi hinn 1. apríl 1953. Sérhvert ríkjanna getur gagnvart hverju hinna sagt upp samningnum, og hættir hann þá að gilda hinn 1. janúar eða hinn 1. júlí næstan að liðnum sex mánuðum frá uppsögn.