25.10.1984
Sameinað þing: 10. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 515 í B-deild Alþingistíðinda. (321)

100. mál, þingnefnd vegna rekstrarvanda í sjávarútvegi

Jóhann Ársælsson:

Herra forseti. Ég get tekið undir flest af því sem hefur verið sagt í þessum ræðustól af síðasta hv. ræðumanni. Ég vil bæta fáeinum atriðum við ræðu hans.

Undanfarin ár hefur sjávarútvegurinn staðið undir 70–80% af útflutningstekjum okkar. Síðustu árin hefur útgerðin, sérstaklega togaraútgerðin, átt við verulegan rekstrarvanda að etja. Þessi vandi er af ýmsum toga spunninn. Það má tilnefna olíuverðshækkanir, aflasveiflur, niðurgreiðslur í skipaiðnaði og útgerð nágrannaþjóða okkar og stóraukinn fjármagnskostnað. Olíuverðshækkanirnar hafa m.a. haft þær afleiðingar að hagkvæmni togveiða hefur minnkað miðað við aðrar veiðiaðferðir. Aflasveiflurnar hafa haft þau áhrif að skipin hafa orðið að veiða meira af ódýrari fisktegundum en áður og auk þess hlotið minni heildarafla. Niðurgreiðslur í nágrannalöndum okkar hafa valdið óeðlilegri samkeppni um verð á mörkuðunum. Óeðlilega háir vextir á erlendum peningamarkaði hafa svo bæst ofan á þetta með afleiðingum sem allir þekkja.

Á sama tíma og þetta ástand var að myndast vorum við að byggja upp togaraflotann í kjölfar útfærslu landhelginnar. Hinir vísu landsfeður hvöttu menn og brýndu: Fáið ykkur togara, ekkert að borga, allt lánað — upp í 107%, eftir því sem maður heyrði hér á árum áður. Og auðvitað var farið of geyst í þessa uppbyggingu. Við slepptum einu stærsta tækifæri sem við höfum átt til þess að gera íslenskan skipaiðnað að stóriðnaði. Þarna átti auðvitað að stíga á hemlana þegar búið var að kaupa 50–60 skip og láta innanlandssmíðarnar taka við eftir áætlun um uppbyggingar- og endurnýjunarþörf flotans.

Togaraflotinn óx þar til togararnir voru orðnir jafnmargir og lífeyrissjóðir landsmanna eru og þótti þá ýmsum nóg um. Fiskveiðasjóður fjármagnaði þessi skipakaup að mestu með erlendum lánum. Um áramótin 1977–1978 breytti hann kjörum þeirra sem við hann skipta, þannig að nú eru lán bæði gengistryggð gagnvart erlendri mynt og verðtryggð gagnvart íslenskri, með þeim ágæta árangri að meðaltogari eins og Óskar Magnússon á Akranesi jók skuldir sínar á árinu 1981 um tvöfalt aflaverðmæti sitt álit það ár. Það vantaði sem sagt rekstrargrundvöll fyrir þessi skip og útgerðarmenn fóru að bera sig illa og biðja um aðgerðir, biðja um rekstrargrundvöll fyrir útgerðina. Þetta var auðvitað kallað væl og grátur. Og vísir menn útskýrðu fyrir þjóðinni að flotinn væri of stór og þetta væri kolvitlaus fjárfesting. Það væri best að láta skussana fara á hausinn og leggja einhverjum af þessum döllum. Það var eina ráðið. En þessi skip eru undirstaða atvinnu í flestum stærri byggðarlögum um landið og menn hafa baslað í skuldbreytingum og lánalengingum til að halda atvinnulífinu gangandi. Það hefur enginn trúað því enn að það sé meining yfirvalda að láta undirstöðuatvinnuveg landsmanna komast á vonarvöl. Í trausti þess hafa menn teygt sig miklu lengra en skynsamlegt er í skuldasöfnun og skuldbindingum vegna þessarar útgerðar. Þetta hefur m.a. haft þær afleiðingar að það á að fara fram uppboð á Akranesi í dag. Þar er verið að bjóða upp togarann Óskar Magnússon. Það er fyrsti togarinn sem lenti undir breyttum reglum Fiskveiðasjóðs um áramótin 1977–1978. Við skulum ekki láta okkur detta í hug að það sé tilviljun að þetta uppboð á að fara fram því að það að gera ekki neitt er ákvörðun um að gera ekki neitt og sú ákvörðun hlýtur að hafa verið tekin áður en dró til þessa uppboðsdags.

Einn þeirra manna sem mest höfðu fengið að glíma við að reka það skip sagði, þegar hann nauðugur skrifaði undir þá samninga sem gerðir voru við Fiskveiðasjóð eftir að skipið hafði verið smíðað, að aldrei yrði hægt að borga þetta skip samkv. þeim samningum, en hann trúði því að útgerð á Íslandi mundi halda áfram að lifa og skrifaði þess vegna undir í þeirri bjartsýni. síðan hefur þessi togari verið gerður út með bullandi tapi og hann skuldar núna 40 millj. kr. meira en hann er talinn vera virði. Þessi togari hefur haft meðalaflaverðmæti og ég fullyrði að þeir menn, sem hafa staðið að útgerð hans, eiga ekki skilið þá skussanafnbót sem ýmsum, sem um þessi mál hafa fjallað, hefur þóknast að gefa þeim sem hafa endurnýjað skip sín eftir 1977. Þegar uppboðshamarinn glymur á Akranesi munu 200 manns missa atvinnuna. Þá munu Byggðasjóður, olíufélög, tryggingafélög og fleiri tapa því sem þeir eiga hjá útgerðinni. Þá verður stóra pennastrikið að veruleika. Því hafa menn áreiðanlega gert sér grein fyrir fyrir löngu.

En hamarinn á eftir að glymja víðar. Fréttirnar berast alls staðar að. Það er verið að gefast upp álit í kringum landið. Það er togari hér í höfninni. Hann er frá Stokkseyri. Fiskveiðasjóður keypti olíu á ljósavélina í honum í gær. Hann bíður eftir uppboði. Kannske glymur hamarinn bráðum á Seyðisfirði, Húsavík, Þórshöfn eða Ólafsvík. Ef hann glymur í Ólafsvík er mér sagt að sveitarfélagið sé í ábyrgð fyrir tvöföldum árstekjum sínum. Menn ættu að sjá að það er ekki góð latína að tapa tvöföldum árstekjum eins sveitarfélags á einu bretti. Þar er togarinn Már sem skuldar 200 millj. í Ríkisábyrgðasjóði. Hann hefur tapað í gengisspilinu. Hann er á, að mér skilst, dollaralánum og hefur tapað í þessari gengisrúllettu sem við látum einstök fyrirtæki og atvinnugreinar spila í hér á landi. Þeir sem gera hann út skrifuðu fyrir nokkrum dögum upp á það að borga 30% af aflaverðmæti skipsins í stofnfjársjóð, en mættu svo hjá hæstv. forsrh. og sögðu honum að það væri útilokað að standa við þetta. Sama brautin er sem sagt enn fetuð: Vandanum er frestað og skuldunum hlaðið upp. En þetta er svo sem ekkert nýtt — og hvað skal gera? má þá spyrja.

Við erum með þessari þáltill. að leggja til að menn skilgreini nú þessi rekstrarvandamál útgerðarinnar með það að markmiði að þessi undirstöðuatvinnugrein fái möguleika til að dafna, að menn fái að standa í skilum, að menn fái að borga mannsæmandi laun og að það sé hægt að endurnýja þennan flota okkar. Það má ekki láta skipaflotann grotna niður. Meðalaldur hans er núna 18 ár og meðalaldur íslenska togaraflotans, sem eru yngstu skipin, er 11.3 ár. Það er þess vegna ljóst að við ráðum ekki við endurnýjunarþörfina í skipasmíðastöðvunum sem eru hér í landinu. Verði rekstrargrundvöllur útgerðarinnar lagfærður munu skipasmíðastöðvarnar ekki anna þeim verkefnum, sem verða fyrir hendi. Það bíður fjöldi útgerðarmanna eftir því að fá tækifæri til að endurnýja skipin sín. En er ekki flotinn þá of stór? Þarf ekki frekar að leggja einhverjum af þessum skipum? Ég tel það ekki vera. Við höfum byggt hann of hratt upp og í of miklum sveiflum. Þess vegna ráðum við illa við framhaldið.

En ég vil benda á að þrátt fyrir að flotinn sé svona stór hafa engin skip, sem við höfum átt fram að þessu, verið nýtt eins vel og þessi togarafloti. Það er varla hægt að hleypa þeim í land, þessum mönnum, sem eru um borð, á milli veiðiferða. Og hvað halda menn að hefði veiðst mikið af karfa undanfarin ár ef flotinn hefði verið að marki minni og hvað halda menn að hefði veiðst mikið af grálúðu og reyndar mörgum öðrum fisktegundum, sem menn kalla skrapfisk, ef flotinn hefði verið að marki minni? Hvað um djúprækju t.d. og fleira?

Við höfum byggt flotann of hratt upp, en það er ekki þar með sagt að það borgi sig að leggja bestu skipunum, eins og gerist ef skussarnir fara á hausinn. Það eru margir þeirrar skoðunar að það séu of margar sauðkindur í landinu, en ég hef engan heyrt leggja til að bændur leysi málin með því að hleypa ekki til tápmestu ánna. Þær þyrftu nefnilega að éta eftir sem áður. Og við þyrftum líka að borga dollaralánin sem hvíla á bak við togarana þó þeir verði látnir ryðga hérna í Reykjavík.

Ég vil segja að mér finnst það fáránlegt að láta einstök fyrirtæki hér í landinu vera að spila í gengishappdrætti eftir háspekilegum vangaveltum langlánanefndar Landsbankans, seðlabankamanna eða Fiskveiðasjóðs. Ég þekki of mörg sorgleg dæmi um fjárfestingar sem urðu rangar vegna þess að menn spáðu rangt í mark eða dollar. Við eigum að taka sameiginlega áhættu af svona hlutum. Mér finnst að þjóðin beri sameiginlega ábyrgð á því hvernig komið er vegna þess að ráðamenn hennar virðast hafa gleymt því á hverju hún lifir. Meðan þær atvinnugreinar sem standa undir 70–80% gjaldeyrisöflunarinnar eru reknar með bullandi tapi, þá er eitthvað að. Þegar vel rekin fyrirtæki í fiskvinnslu tapa því meir sem þau framleiða meira, þá vantar rekstrargrundvöllinn.

Herra forseti. Það er beðið allt í kringum landið eftir að menn rumski hér syðra; ekki til að skemmta sér við að horfa á fleiri og fleiri togara hér í höfninni í Reykjavík, heldur til að taka á málum undirstöðuatvinnuvegs þjóðarinnar. Þess vegna berum við Alþb.menn fram þessa þáltill.