15.10.1987
Sameinað þing: 3. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 106 í B-deild Alþingistíðinda. (84)

Síðustu efnahagsákvarðanir ríkisstjórnarinnar

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Þegar ríkisstjórnin var mynduð á miðju sumri setti hún sér starfsáætlun fyrir kjörtímabilið. Efnahagsstefna hennar sem þar kemur fram er ofin úr tveimur þáttum. Annars vegar að stuðla að jafnvægi og stöðugleika í þjóðarbúskapnum, hins vegar að færa skipan efnahagsmála í frjálsræðisátt og til nútímalegra horfs. Hvort tveggja er forsenda framfara og hagvaxtar.

Vaxandi verðbólga og viðskiptahalli á þessu ári sem m.a. má til þess rekja að þjóðarútgjöld hafa aukist meira en þjóðartekjur og horfur um að verulega dragi úr hagvexti á næsta ári gera það nú nauðsynlegt að ríkisstjórnin hrindi stefnu sinni í framkvæmd fyrr og með enn afdráttarlausari hætti en að var stefnt í starfsáætluninni. Þetta á ekki síður við um þau atriði er varða umbætur á hagkerfinu en hin sem lúta að jafnvægisstjórn í efnahagsmálum á þessu og næsta ári.

Ráðstafanir þær í ríkisfjármálum, peningamálum og gengismálum sem ríkisstjórnin hefur nú kynnt eru reyndar til marks um nýtt hugarfar og ný vinnubrögð við stjórn efnahagsmála. Það má segja að með þeim fái orðalagið „samræmd stefnumörkun á öllum sviðum efnahagsmála“, sem oft heyrist, raunverulegt inntak. Þetta nefndi reyndar hv. 10. þm. Reykn. réttilega í ræðu sinni.

Með þessum ráðstöfunum er verið að hafna þeirri gengislækkunarleið sem iðulega hefur verið farin þegar nauðsyn hefur borið til að draga úr þjóðarútgjöldum og innflutningi. Undanlátssemi við þá sem nú hafa uppi háværar kröfur um gengisfellingu hefði verið að skvetta olíu á verðbólgueldinn sem hefur verið að lifna að undanförnu. Í stað gengisfellingar hafa nú verið ákveðnar öflugar aðhaldsaðgerðir einmitt til þess að treysta gengi krónunnar. Markmiðið er að koma í veg fyrir að nýr vítahringur gengisfellinga og innlendra verðlagshækkana myndist. Þetta er lykilatriði því að stöðugt gengi er, eins og hér hefur komið fram, hornsteinn efnahagsstefnu ríkisstjórnarinar. Öndvert við það sem oft og tíðum hefur verið er hér ekki um orðin tóm að ræða. Það nýmæli að gefa innlendum aðilum kost á því að leggja fé inn á gengisbundna reikninga í bönkum og sparisjóðum þjónar m.a. þeim tilgangi að sýna að ríkisstjórninni er full alvara með yfirlýsingu sinni um að gengi krónunnar verði haldið stöðugu. Þessir reikningar og gengisbundin spariskírteini gefa almenningi nýtt tækifæri til að tryggja kaupmátt sparifjár síns þegar óvíst er um gengisþróun og dregur úr hættunni á flóðbylgju innflutnings sem gera mundi gengisfellingu óumflýjanlega. Þessar ákvarðanir eru alls ekki skyndiákvarðanir eins og málshefjandi, hv. 5. þm. Reykn., telur þær. Þvert á móti eru þær samstillt átak samkvæmt ákveðinni stefnu, teknar á réttum tíma til þess að skapa stöðugleika og eyða óvissu. Þannig fást þekkt starfsskilyrði fyrir atvinnulífið. Þannig og aðeins þannig gegnir ríkisvaldið skyldu sinni.

Það má vera rétt hjá hv. 5. þm. Reykn. að þessar aðgerðir séu óvenjulegar, en það gerir þær einmitt þeim mun gagnlegri fyrir bragðið. Ég vildi ítreka það sem fram kom hjá hæstv. fjmrh. um afstöðu verkalýðshreyfingarinnar. Öfugt við það sem til var vitnað af málshefjanda þá hafa mikilhæfir og framúrskarandi forustumenn þar, þar á meðal framkvæmdastjóri Verkamannafélagsins Dagsbrúnar lýst því yfir opinberlega að þeir séu í meginatriðum samþykkir þeirri stefnu sem ríkisstjórnin hefur mótað.

Mönnum hefur orðið tíðrætt hér, og reyndar í þjóðfélaginu, um aðhaldsaðgerðir sem þrengi kost manna. En auk slíkra aðgerða eru í ríkisfjármálum og peningamálum nú boðaðar margvíslegar umbætur. Í ríkisfjármálunum er með fjárlagafrv. fyrir næsta ár stefnt að því að auka hlut velferðarmála almennings í ríkisútgjöldunum á kostnað tilfærslna og framlaga til atvinnuveganna um leið og horfið er frá hallabúskap. Í peningamálum er stefnt að margvíslegum umbótum sem allar eiga að stuðla að auknum sparnaði, bættu jafnvægi á peningamarkaði og lækkandi raunvöxtum þegar fram í sækir þótt einhver vaxtahækkun gæti orðið um sinn.

Ég vildi nefna sérstaklega 10% matarskattinn, sem kallaður hefur verið, söluskatt af matvælum. Það má vera að hann sé sumum þungbær. En á hitt er þá líka að líta að hann er skref í þá átt að gera söluskattinn almennan skatt, eftirlítanlegan skatt, þannig að stefnt sé að betri skattskilum. En betri skattaframkvæmd hefur lengi verið baráttumál Alþfl. og reyndar unnið að því máli samkvæmt skýrslu sem unnin var fyrir nokkrum árum - svonefndri skattsvikaskýrslu. Þar var helst lagt til að gera söluskattinn sem almennastan þannig að í framtíðinni mætti lækka skatthlutfallið og tryggja innheimtu hans. Í þessu ljósi verðum við líka að líta á þessa breytingu, en að vitaskuld eru aðhaldsaðgerðirnar erfiðar. Sumar þeirra leggja byrðar á almenning. Það er vissulega vont, en verra hefði þó verið að gefast upp fyrir þeim vanda sem við blasir. Það verður að koma í veg fyrir að efnahagsframvindan fari hér úr böndum á næstu missirum. Það væri engum greiði gerr með því að þjóðin festist aftur í fari óðaverðbólgu og erlendrar skuldasöfnunar.

Kjarni þessara aðhaldsaðgerða eru hallalaus fjárlög fyrir næsta ár. Fjárlagafrv. á auðvitað eftir að fá þinglega meðferð, en það er afar brýnt að meginstefnu þess og helstu niðurstöðutölum verði ekki breytt hvað sem líður öðrum breytingum sem á því kunna að verða í meðförum þingsins.

En auk frv. um hallalaus fjárlög eru víðtækar og að sumu leyti róttækar ráðstafanir til að bæta jafnvægi á peningamarkaði og efla innlendan sparnað snar þáttur í þessum aðgerðum. Þeim er ætlað að draga úr innstreymi erlends lánsfjár og beina ráðstöfunarfé þjóðarinnar frá neyslu og innflutningi og að sparnaði. Jafnframt verður spornað við útlánaþenslu í bankakerfinu. En raunar er hallalaus ríkisbúskapur ein helsta forsenda þess að unnt sé að ná tökum á peningamálunum.

Strax í júlímánuði sl. ákvað ríkisstjórnin að leggja lántökugjald á erlend lán. Almennar heimildir til erlendrar lántöku voru svo þrengdar í síðasta mánuði með auglýsingu viðskrn. um innlenda fjármögnunarkvöð á þá sem vilja taka erlend lán. Aðalreglan er sú að ekki verði tekin erlend lán til að fjármagna innlendan kostnað við framkvæmdir. Þessu til viðbótar hefur ríkisstjórnin nú lýst því yfir að þessum takmörkunum á erlendum lántökum verði aflétt í lok næsta árs til þess að hvetja þá sem hyggja á lántöku erlendis á næstunni að fresta áformum sínum því innstreymi erlends lánsfjár hefur um sinn verið ein helsta undirrót þenslu í þjóðarbúskapnum. Gegn þessu er nú spornað án þess að því sé breytt að menn geti tekið erlend lán til véla- og tækjakaupa til atvinnurekstrar í flestum greinum án sérstakra leyfa og eftir almennum reglum.

Þá kem ég að því, sem mikla athygli hefur vakið, að með því að veita bönkum og sparisjóðum heimild til að bjóða viðskiptavinum sínum gengisbundna innlánsreikninga og með útgáfu gengisbundinna spariskírteina ríkissjóðs er nú stefnt að því að auka fjölbreytni þeirra sparnaðarleiða sem almenningur hefur aðgang að. Þetta mun stuðla að aukinni innlendri sparifjármyndun. En ekki er síður mikilvægt það sem ég vék að áðan að hér fæst tækifæri til að ávaxta spariféð á gengisbundnum reikningum sem mun sporna gegn spákaupmennsku með innflutning á tímum óvissu í gengismálum. Þessir reikningar opna leið fyrir almenning til að spara í gjaldeyri í stað þess að eyða honum. Viðskrn. mun gefa út reglugerð um þetta efni eins fljótt og tök eru á og hefur óskað eftir tillögum frá Seðlabankanum til að undirbúa hana.

Þá verður innlendum aðilum heimilað að kaupa skuldabréf íslenska ríkisins og annarra íslenskra aðila sem eru til sölu á erlendum fjármagnsmörkuðum. Það er auðvitað sjálfsagt mál að Íslendingar njóti sömu kjara eða geti notið sömu kjara og útlendingar á íslenskum ríkisskuldabréfum auk þess sem kaup Íslendinga á skuldabréfum ríkissjóðs, sem boðin eru til sölu erlendis, fela auðvitað í sér lækkun á skuldum þjóðarbúsins við útlönd. Loks verða svo heimildir einstaklinga og fyrirtækja til þess að eignast örugg erlend verðbréf rýmkaðar. Ég þakka hv. 5. þm. Reykv. sérstaklega fyrir að vekja athygli á þessu. Með þessu er m.a. að því stefnt að gefa fyrirtækjum, sem flytja út vörur eða þjónustu eða stunda samgönguþjónustu, færi á því að styrkja viðskiptalega stöðu sína með fjárfestingu í atvinnurekstri erlendis. Mikilvægast er þó að með þessu gefst almenningi og þá ekki síður almannasjóðum, þar á meðal lífeyrissjóðum, kostur á að dreifa áhættu sinni víðar og betur en hingað til með því að kaupa trygg erlend verðbréf.

Í ljósi þess að um þessar mundir er ávöxtun umfram verðbólgu líklega betri hér á landi en víðast erlendis er ekki mikil ástæða til að ætla að þessar heimildir leiði til verulegs útstreymis fjár úr landinu, en þó getur að því komið og þá fæst það sem þarf, samkeppni um féð á raunverulegum grundvelli. Viðskrn. mun setja reglur um þessi efni á grundvelli laganna um innflutnings- og gjaldeyrismál að fengnum tillögum frá Seðlabankanum.

Ég vildi vekja athygli á því vegna athugasemda hv. 5. þm. Reykv. að fjármagnshreyfingar eiga auðvitað að vera tvíhliða viðskipti eins og önnur viðskipti ef allt er í böndum. Ef allt er í réttu lagi, þá eigum við að geta staðist samanburð við önnur lönd hvað varðar vexti og gengi. Það er mikilvæg forsenda þess að þær aðgerðir sem nú hafa verið ákveðnar skili árangri að aðhalds verði gætt í útlánum bankanna á næstunni. Það er ljóst að hækkun lausafjárhlutfalls í bönkum nú í sumar og samningar um aukin kaup þeirra á ríkisskuldabréfum hafa þegar haft áhrif í þessa átt. Hins vegar er enn ekki ljóst hvort nóg er að gert og verður nú fylgst með því nákvæmlega á næstunni hvort tilefni er til þess að Seðlabankinn herði aðhald að útlánum innlánsstofnana. Þær áætlanir sem nú liggja fyrir benda til þess að lausafjárstaða bankanna kunni að batna verulega í byrjun næsta árs. Fyrir þann tíma verður að ákveða viðeigandi aðgerðir til að tryggja hóflega aukningu útlána á næsta ári, t.d. með hækkun innlánsbindingar eða lausafjárhlutfalls. Í þessu sambandi er einnig brýnt að það takist að draga úr innstreymi erlends lánsfjár og, eins og áður var að vikið, að reka ríkissjóð án halla.

Herra forseti. Hér á landi hefur ríkt góðæri að undanförnu. Nú virðast horfur á að uppgangsskeiðinu sé að ljúka og við taki venjulegt ár í stað góðæris. Næsta ár verður kannski normalt ár. Það var rétt hjá hv. 5. þm. Reykv. að minna okkur á að menn ættu ekki að mála útlitið allt of dökkum litum. Það er bjart fram undan, en það er jafnbjart og verið hefur en ekki miklu bjartara. En við þessar aðstæður er afar brýnt að menn bregðist við í tæka tíð og komi í veg fyrir að góðærisþenslan, sem okkur hefur orðið svo tíðrætt um, fari ekki út í öfgar með verðbólgu og hallabúskap. Ríkisstjórnin stóð einfaldlega frammi fyrir þeirri staðreynd að aðgerðirnar sem hún ákvað í sumar dugðu ekki til að halda nægilega aftur af útgjöldum og auka sparnað við þær horfur sem nú blasa við. Henni bar því skylda til að grípa þegar í stað til aðgerða sem dygðu. Það hefur hún nú gert. Það má vera að þessar aðgerðir séu ekki allar til þess fallnar að afla ríkisstjórninni eða einstökum ráðherrum hennar stundarvinsælda. Það er hins vegar ekki það sem máli skiptir heldur hitt að þær eru nauðsynlegar til að tryggja sæmilegan stöðugleika í efnahagsmálum á næstunni. Menn skyldu hafa í huga að við höfum fyrir því margfalda reynslu að í því tjái og tundri sem fylgir óðaverðbólgunni tapa þeir iðulega mest sem mega sín minnst.

Það var erfitt að leggja ræðu málshefjanda, hv. 5. þm. Reykn. öðruvísi út en svo að hann vildi bjóða slíku ástandi heim. Var hann ekki í reynd að styðja gengisfellingarkröfur formanns Félags ísl. iðnrekenda og annarra atvinnurekenda? Þeirri kröfu hefur ríkisstjórnin hafnað afdráttarlaust.