131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[12:33]

Magnús Stefánsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Varðandi það samstarf forustumanna fjárlaganefndar við framkvæmdarvaldið sem hv. þm. talar um (Gripið fram í: Það er miklu fleira.) held ég að allir hljóti að sjá að aðilar sem vinna saman milli fjárlaganefndar og t.d. fjármálaráðuneytis þurfa náttúrlega að eiga í samstarfi. Það er ákveðin upplýsingamiðlun sem þarf að eiga sér stað o.s.frv. þannig að ég bið menn að líta sanngjarnt á þessa hluti og vera ekki að búa til einhverja drauga úr þeim. Að öðru leyti get ég tekið undir margt af því sem þingmaðurinn sagði.

Út af því sem kom fram varðandi það sem við erum að vinna í fjárlaganefndinni vil ég segja að ákveðnar úrbætur áttu sér þegar stað á síðasta vetri. Þær snúa fyrst og fremst að upplýsingastreymi. Því hefur verið tekið vel og ég tel að þetta sé allt til bóta. Við munum síðan fara betur yfir þessi mál þegar frá líður.