131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[13:55]

Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er algjörlega skýrt að það á að hækka barnabætur á seinni hluta kjörtímabilsins og það er einnig algjörlega skýrt að það á að lækka virðisaukaskattinn. Þetta eru engin ný tíðindi fyrir hv. þm. og þetta er margoft búið að koma fram, bæði í stefnuræðu hæstv. forsætisráðherra í gær og fjárlagaræðu hæstv. fjármálaráðherra í dag. Þarna er því ekki um neitt að véla.

Ég vil kannski aðeins að ítreka það að fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga eru viðvarandi verkefni þessara tveggja stjórnsýslustiga. Og það er alveg sama hvað hv. þm. reynir að tala um að þarna sé mikið gat á milli, á einhverjum tímum semja menn og síðan breytast aðstæður og þá fara menn yfir málin aftur. Ég veit að hv. þm. er mér algjörlega sammála um þetta og við höfum rætt það okkar á milli án þess að ég ætli að vitna hér í tveggja manna tal. En þeir samningar sem ríkið hefur gert við sveitarfélögin standa auðvitað á þeim tíma og síðan eru gerðir nýir samningar ef forsendur breytast. Það er það verklag sem við höfum í samskiptum þessara tveggja stjórnsýslustiga.