131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[14:00]

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Hér fyrr í dag kemur hæstv. fjármálaráðherra enn og aftur og leggur fram fjárlagafrumvarp sem við hljótum að gjalda ákveðinn varhuga við ef við horfum til reynslunnar af sams konar frumvörpum hans undanfarin ár. Hæstv. ráðherra telur sig komast upp með það enn og aftur að leggja fram glansmynd sem síðan, þegar til á að taka, stenst ekki.

Búið er að fara yfir það fyrr í dag í umræðu hversu mikið þær væntingar sem fram hafa komið í fyrri frumvörpum standast þegar á hólminn er komið og hversu lítið hefur verið að marka niðurstöðutölur fyrri frumvarpa sem lögð hafa verið fram af hæstv. ráðherra fjármála. Það vekur sérstaka athygli hvaða áherslur eru lagðar fram í þessu frumvarpi og hvaða almennu skilaboð eru í því til þeirra sem þyngstu byrðarnar hafa borið á undanförnum árum.

Einnig vekur það athygli sem ekki er í frumvarpinu. Hvar eru t.d. efndir loforða um aukningu barnabóta sem klingdu í aðdraganda kosninganna árið 2003? Þegar leitað var að efndunum fannst eftirfarandi klausa í athugasemdum með frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Á árunum 2001–2003 voru barnabætur til fjölskyldna hækkaðar um 500 millj. á ári eða samtals um 1.500 millj. kr. á tímabilinu.“

Þetta vissu allir og þessu var haldið vel á lofti í kosningabaráttunni. Ég átta mig ekki alveg á hvaða vörn höfundar frumvarpsins telja að felist í því að telja það upp sem gerðist fyrir kosningarnar síðustu.

Svo kemur framhald athugasemdarinnar, með leyfi forseta:

„Til athugunar er að auka þessar greiðslur einnig á komandi árum. Þar sem eftir er að ljúka nánari útfærslu á þessum málum“ — lesist væntanlega: semja um það milli ríkisstjórnarflokkanna — „er gert ráð fyrir óbreyttri fjárheimild til barnabóta í frumvarpinu.“

Barnafólki hlýtur að líða miklu betur eftir að þetta liggur ljóst fyrir og hafa á því fullan skilning að þar sem leiðtogar ríkisstjórnarinnar hafa ekki náð samkomulagi verði ekki um neina hækkun að ræða að sinni. Eru þetta kannski barnakortin sem Framsókn talaði sem mest um í síðustu kosningum?

Hvar eru efndirnar á loforðum um lækkun virðisaukaskatts? Jú, í sama farvegi. Formenn stjórnarflokkanna eru enn að semja um það mál.

Er einhver vísbending í þessu frumvarpi um að tekið verði á fjárhagslegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga? Ekki tókst að finna þær vísbendingar. Þessi ríkisstjórn hefur flutt skattbyrðarnar frá hinum betur launuðu til hinna sem hafa meðallaun og lág laun. Þetta er bæði gert fyrir opnum tjöldum en einnig með því að persónuafsláttur vegna skattgreiðslna hefur ekki fylgt verðlagsþróun. Það er í raun nöturlegt að horfa upp á hversu kerfisbundið þessari breytingu á skattbyrði er komið á og hversu mjög forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar berja sér á brjóst og tala um gífurlegar skattalækkanir til allra og að nú sé komið að heimilunum í landinu. Sérstaklega er nöturlegt að horfa á Framsóknarflokkinn styðja þessa þróun en minna kemur á óvart að Sjálfstæðisflokkurinn standi fyrir slíku. Sannleikurinn er sá að heimili þeirra sem liggja í efsta tekjulaginu hafa ríkulega notið tilfærslna þessarar ríkisstjórnar og munu gera það enn í ljósi skattatillagna hennar sem hér hafa verið opinberaðar.

Ekki vekur síður athygli hversu harkalega bæði hæstv. fjármálaráðherra og einnig nýr hæstv. forsætisráðherra bregðast við tilraunum sveitarfélaganna í landinu til að ná fram réttlátari tekjuskiptingu milli þessara tveggja stjórnsýslustiga í landinu. Hæstv. forsætisráðherra sagði í stefnuræðu sinni í gær að því færi fjarri að öll sveitarfélög í landinu ættu við vanda að etja og má það til sanns vegar færa að innan um eru sveitarfélög sem sæmilega eða vel standa en það skýrist að mestu af einhverjum sögulegum forsendum en ekki af því að þau hafi nú nægilega tekjustofna til að standa undir sinni þjónustu.

Hvetja verður hæstv. forsætisráðherra til að hlusta betur á þá sem stýra sveitarfélögunum í landinu en hann virðist gera ef marka skal tilvitnuð orð hans hér að framan. Hæstv. fjármálaráðherra hefur margsagt að sveitarfélögin séu fullsæmd af sínu og að hann skilji ekki vælið í þeim.

Það hefði verið fróðlegt fyrir hæstv. ráðherra að vera viðstaddur fundina sem fjárlaganefnd átti með fulltrúum sveitarfélaganna í landinu fyrir stuttu en þar kom ákaflega skýrt fram að þau hafa borið skarðan hlut frá borði í samskiptum við ríkisvaldið og eiga nú flest hver í vandræðum með að uppfylla lagaskyldur sínar um þjónustu við íbúana. Ekki væri úr vegi að skoða staðreyndir þessa máls frekar en að stinga höfðinu í sandinn eins og ráðamenn þjóðarinnar gera nú þegar rætt er um fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga. Ekki er gert ráð fyrir neinni breytingu á þessum samskiptum í því fjárlagafrumvarpi sem nú hefur verið lagt fram og eru það skýr skilaboð til þeirra sem stjórna sveitarfélögunum um að enn skuli ekki tekið á augljósum vanda þótt við blasi.

Það er reyndar langt frá því að það séu einungis sveitarfélögin í landinu sem verða fyrir barðinu á þeirri stefnu að þverskallast eins lengi og unnt er við að leiðrétta misræmi og í einstökum tilfellum að gera það alls ekki fyrr en dómur fellur í Hæstarétti landsins um bót á aðsteðjandi vanda.

Ekki er úr vegi að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort sveitarfélögunum í landinu sé að mestu stjórnað af eintómum rötum. Eru bæði sveitarstjórnarmenn og þeir sem hafa verið ráðnir til starfa fyrir sveitarfélögin bara svona miklir klaufar í fjármálum? Er það einungis asnaskapur og angurgapaháttur þeirra að fá viðvörun vegna fjármála frá eftirlitsnefnd sveitarfélaga? Er nema von að spurt sé þar sem skilaboðin í þá átt eru ákaflega skýr frá hæstv. ráðherrum þessarar ríkisstjórnar?

Hvernig ætlar ríkisstjórnin að ná fram markmiðum sínum um sameiningu sveitarfélaga án þess að fyrir liggi hvernig fjárhagsmálefnum þeirra verði háttað til næstu framtíðar? Hvernig eiga sveitarstjórnarmenn að geta treyst því að mið sé tekið af vel rökstuddum og gaumgæfilega yfirförnum óskum þeirra um réttlátari skiptingu tekna þegar þeir upplifa þau svör sem fengist hafa frá ríkisherrunum?

Staða sveitarfélaganna í samningum við ríkisvaldið er ákaflega veik í núverandi samskiptum milli aðila og verður að teljast undarlegt að einfaldar staðreyndir bíti ekki á hæstv. ráðherrum ríkisstjórnarinnar og þeim embættismönnum sem undir þeim starfa.

Hver er sannleikurinn um fjármál ríkisins og sveitarfélaganna? Hver er hin raunverulega tekjuþróun þessara tveggja stjórnsýslustiga? Er ríkið að ná verulegum árangri í rekstri sínum en sveitarfélögin ekki? Nei, það er ekki svo og það er fróðlegt að skoða þróun tekna beggja frá árinu 2002 til 2004. Þá er ég að tala um beinar skatttekjur bæði ríkisins og sveitarfélaganna. Ríkið hafði í beinar skatttekjur á árinu 2002 rúma 220 milljarða. Á árinu 2004 er áætlað að skatttekjurnar verði 264 milljarðar, en verði rúmir 280 milljarðar á árinu 2005. Sveitarfélögin aftur á móti voru með rúma 72 milljarða árið 2002, en árið 2004 81,8 milljarða kr.

Eins og ég sagði gera fyrirliggjandi fjárlög ráð fyrir því að skatttekjur ríkisins verði rúmir 280 milljarðar kr. á árinu 2005. Ef við lítum á skatttekjur ríkisins milli áranna 2002 og 2004 hækka þær um sem nemur tæpum 20%. Á sama tíma hækka skatttekjur sveitarfélaganna um tæp 13%. Ef sveitarfélögin hefðu haft sömu hækkun skatttekna og ríkið hefðu þau haft úr rúmum 5 milljörðum kr. meira að spila á þessu ári en raunin varð á og því rekið sig með talsverðum hagnaði. Ríkið hefði aftur á móti þurft að sætta sig við 15,6 milljörðum kr. minni tekjur ef þær hefðu þróast eins og hjá sveitarfélögunum og því hefði verið um mikinn hallarekstur að ræða á yfirstandandi ári stæði ríkið jafnfætis sveitarfélögunum.

Miðað við þá tekjuáætlun sem fram er sett í fjárlagafrumvarpinu sem hér liggur fyrir munu skatttekjur ríkisins vaxa um rúma 16 milljarða kr. á milli ára og enn mun draga í sundur í tekjuþróun ríkis og sveitarfélaga. Í þeirri þenslu sem verið hefur í efnahagslífi landsmanna og sem sést best á miklum viðskiptahalla fitnar ríkið sem aldrei fyrr af veltutengdum sköttum, svo sem virðisaukaskatti og ýmsum vöru- og þjónustugjöldum. Sveitarfélögin byggja tekjur sínar ekki á þannig tekjustofnum og hafa setið eftir þegar þjóðhagskökunni er skipt. Þessu þurfum við að ráða bót á sem fyrst.

Í stuttri ræðu við 1. umr. fjárlaga er ekki mikill tími til að fara í einstaka liði fjárlagafrumvarpsins og bíður það að mestu þeirrar vinnu sem fram undan er í fjárlaganefnd. Áherslurnar í tekjuöflun ríkisins eru skrýtnar og nægir til viðbótar við þá áherslu sem þeir leggja í skattalækkun að nefna hækkun stimpilgjalda á þá sem eru að afla sér húsnæðis. Ríkisstjórnin telur nauðsynlegt að skattleggja fasteignaviðskipti fólks og ná til sín hluta af þeim ábata sem fólki stendur nú til boða með lækkun vaxta á húsnæðislán á sama tíma og skattar af hæstu tekjum lækka.