131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[15:15]

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Stefna og markmið ríkisstjórnar hverju sinni birtist að jafnaði skýrt í árlegu fjárlagafrumvarpi. Hér höfum við fyrir framan okkur fyrirætlanir ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks í ríkisfjármálum fyrir árið 2005 og fjármálaráðherra er glaður og ánægður, enda lifum við tíma þar sem aðstæður eru okkur hagstæðar. Miklir peningar í veltu enda er búið að selja hvert ríkisfyrirtækið af öðru á undanförnum árum, miklar framkvæmdir yfirstandandi, hátt afurðaverð á helstu útflutningsvörum og svo framvegis. Skilaboðin eru að skila eigi rúmlega 11 milljarða rekstrarafgangi á ríkissjóði. En við höfum séð fallegar glansmyndir áður. Þingmenn Samfylkingarinnar hafa ítrekað bent á þá blekkingarmynd sem dregin er upp með framsetningu fjárlaga mörg undanfarin ár. Það er því miður svo að í tveim tilfellum af þrem sem raunverulega hefur tekist að skila afgangi í ríkisrekstrinum má rekja það til sölu eigna eða endurmats á eignum. Það er því eiginlega hálfraunalegt að horfa upp á leiksýninguna sem brugðið er upp árlega ekki síst núna þegar fjölmiðlar eru loksins búnir að sjá samhengið og átta sig á plottinu.

Það hvarflar hugsanlega að einhverjum að kalla svona frumvarp góðar fyrirætlanir. En ég vil ekki einu sinni nefna það því nafni því ýmislegt kemur í ljós þegar farið er að skoða það og máta við það umhverfi sem kaus stóran hluta þingheims til setu á löggjafarþinginu því að þá skín í gegn vísvitandi vanræksla. Það er nefnilega með þetta frumvarp eins og mörg önnur undanfarin ár að stórir hlutar landsbyggðarinnar eru algerlega afskiptir. Norðausturhorn landsins, suðausturhluti þess og Norðausturkjördæmi eins og það leggur sig ef frá er talinn sæmilegur radíus út frá höfuðborgarsvæðinu. Allt eru þetta svæði sem eiga í miklum erfiðleikum og hafa meðaltekjur langt undir landsmeðaltali og nánast engin burðug fyrirtæki til að standa undir nýjungum og framþróun í atvinnulífinu. Allir vita hvernig staða sveitarfélaga er þó ríkisstjórnarmeirihlutinn þykist ekki vita það.

Auk þess er sveitarfélögum reyndar ekki ætlað að standa undir atvinnulífinu. Maður skyldi ætla að núverandi hæstv. forsætisráðherra myndi þau orð sem hann hefur látið falla og sýndi þess merki nú þegar hann hefur tekið við þessu langþráða embætti að Norðvesturkjördæmi væri það svæði sem næst yrði sinnt af stjórnvöldum. Forsætisráðherrann hefur iðulega verið minntur á þessi orð og ég tel að menn hafi bundið vonir við að eitthvað væri á bak við þau. En það er ekki að sjá í þessu frumvarpi, þvert á móti. Til dæmis á að draga úr vegaframkvæmdum eins og hér hefur verið minnst á áður og það stórlega, en þau svæði sem ég taldi upp áðan eru einmitt þau svæði sem hvað lengst eiga í land með að vegamál séu komin þar í sæmilegt horf.

Fjármagn til atvinnuráðgjafar hefur staðið í stað árum saman svo að við fjárlagagerð þessa árs, 2004, var það mat atvinnuþróunarfélaganna að 200 milljónir vantaði upp á til að þau héldu sínu. Í frumvarpinu sem nú er til umræðu er gert ráð fyrir 123,2 milljónum til atvinnuráðgjafar en til samanburðar er gert ráð fyrir 90 milljónum í sérsveitir lögreglustjóra.

Fjármagn til nýsköpunar er smánarlega lítið. Kjör sem lántakendum eru boðin hjá Byggðastofnun eru verri en hjá bankastofnunum. Reyndar er það svo að fyrirtæki og einstaklingar á áðurnefndum svæðum hafa ekki einu sinni bolmagn til að setja fjármagn sem mótframlag, sem oftast er krafist af hálfu sjóða ríkisins og stofnana, hvað þá að standa undir framþróun ein. Og allir vita um veðhæfi fasteigna á þessum svæðum. Þannig er þeim einstaklingum sem sýna frumkvæði og þeir eru vissulega til og gætu staðið að nýsköpun ef fjármagn væri fyrir hendi allar bjargir bannaðar.

Augljóslega er höfuðmarkmið sem fylgt er við gerð þessara fjárlaga það að sýna fram á sem mestan rekstrarafgang í frumvarpinu en litlar tilraunar gerðar til að taka á vandamálum eða kafa djúpt í hlutina. Þannig er ævinlega settur flatur niðurskurður á línuna, þó með þeirri undantekningu nú að heilbrigðismál eru undanskilin, enda sjáum við sömu myndina ár eftir ár þegar upp er staðið. Í stað afgangs er nær undantekningarlaust um að ræða halla á rekstri ríkissjóðs. Í þeim tilfellum sem rekstrarafgangur raunverulega varð má rekja hann til uppfærslu á mati ríkiseigna eða sölu á ríkiseignum á tímabilinu eins og áður sagði. Eignir ríkissjóðs hafa verið seldar ein af annarri í samstarfi Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks og þær verða ekki seldar tvisvar. Verið er að draga upp glansmynd og það er líka leitast við að hafa myndina óskýra, eða hvers vegna er uppsetning fjárlagafrumvarpsins með þeim hætti sem raun er á?

Við gerð fjárhagsáætlana fyrirtækja og sveitarfélaga er leitast við að gera samanburð á áætlun síðasta árs niðurstöðum rekstrar og nýrri áætlun. Þannig fæst á einfaldan hátt skýr mynd af því hvar hlutirnir hafa farið úrskeiðis og hvar áætlanir eru í lagi en ekki hjá ríkinu. Þar þarf að skoða frumvarp til fjárlaga, fjárlög, aukafjárlög, stundum tvenn eða þrenn aukafjárlög og að lokum ríkisreikning.

Það er auðvitað göfugt markmið að sýna rekstrarafgang og aðhald í ríkisrekstri. En það er óafsakanlegt að vanrækja svo heilu landsvæðin að þau eru komin að fótum fram eins og nú er. Það er illa farið með fólk, fjárfestingar þess og lífsstarf. Þannig standa ekki efni til þess að hæstv. fjármálaráðherra hreyki sér af þessu frumvarpi jafnvel þó að einhverjar líkur væru á að sá árangur sem að er stefnt næðist en reynslan sýnir okkur að líkur á því eru nær engar.